Helga Katrín Tryggvadóttir lést þann 26. júlí 2018. Þessi grein var sú síðasta sem hún birti opinberlega. Fleiri greinar eftir Helgu má sjá hér.
***

Fyrir nokkrum árum hreyfst ég svo mjög af hugmyndafræði kúrdískra hópa í Rojava og baráttusveitum kvenna meðal þeirra, að mér fannst um tíma sem það eina verkefni sem væri þess virði að vinna væri að leggja þeim lið, jafnvel ganga til liðs við þær. Ég fylgdi þessu þó ekki eftir með meira en öðru auga á samfélagsmiðlum. Þar var lýst bæði baráttunni gegn ISIS og því óréttlæti sem Kúrdar væru beittir innan landamæra Tyrklands. Brátt fór ég þó að missa trúna á þessu, það stafaði af því að ég vissi ekki hvort lýsingar hópanna væru í raun og veru réttar og það var engin leið fyrir mig að komast að raun um það nema fara sjálf á svæðið. Þaðan berast engar „hlutlausar“ fréttir.

En það er ekki til neitt sem heitir hlutleysi í stríði, ekki einu sinni með því að dveljast á fjarlægri eyju í Atlantshafi getum við talist hlutlaus. Við erum meðlimir í hernaðarbandalagi og borgum í það gjöld. Þau gjöld eru notuð til kaupa á vopnum, meðal annars af NATO ríkinu Tyrklandi, sem notar þau til að ráðast inn í sjálfstætt ríki og drepa saklaust fólk. Við erum með Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn sem er í bandalagi með flokki Erdogans Tyrklandsforseta. Í stríði þar sem nánast öll stórveldi heims eru með puttana og rík hagsmunatengsl allra stríðsaðila liggja þvers og kruss er enginn hlutlaus. Það að ég hafi stungið hausnum í sandinn segir meira um minn eigin aumingjaskap en hlutleysi. Ég meikaði ekki að horfa með augun opin.

En nú er ég búin að frétta það að Haukur vinur minn hafi verið á svæðinu, að berjast fyrir hugsjónum sínum um anarkisma og réttlæti. Hugsjónum mínum líka. Hann barðist fyrir okkur öll. Og enn einu sinni hefur Hauki tekist að rífa mig upp úr hægindastól hugsana minna. Á meðan trommusláttur fasismans er að hækka alls staðar í heiminum flutum við um sofandi og kusum yfir okkur enn eina ríkisstjórnina í enn einu hernaðarbröltinu, jafnvel þó hún hafi herstöðvarandstæðinga innanborðs. Þau hafa ekki enn sagt neitt um innrásina í Afrin. Að vilja frið er ekki það sama og að taka ekki afstöðu. Haukur var drepinn af NATO ríki með vopnum sem við borgum fyrir.

Fyrir hverju?

Það er samt kannski tímabært að tala aðeins meira um hvað þetta snýst. Illugi Jökulsson skrifaði pistil fyrir nokkrum dögum sem nefndist fyrir hverja barðist Haukur Hilmarsson? Þetta er röng spurning og gefur því augljóslega rangt svar, sem virðist vera: Hann barðist með þjóðernishópnum Kúrdum. Spurningin á fremur að vera: Fyrir hverju barðist Haukur Hilmarsson? Svarið er að finna í myndbandi sem tekið var upp eftir komu hans til Rojava, þar sem hann segist vera að berjast fyrir hugmyndinni um confederalisma. En hvað er það?

Tyrkland

Áður en spurningunni er svarað skulum við stíga eitt skref aftur á bak og útskýra samhengið. Kúrdar eru þjóðernishópur án ríkis sem dreifist um mismunandi ríki Mið-Austurlanda, aðallega Tyrkland, Sýrland, Írak og Íran. Þeir hafa oft orðið fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda í öllum þessum löndum. Í Tyrklandi hefur oft komið til átaka milli Kúrda, sem dreymir um eigið ríki, og Tyrkja, sem vilja halda yfirráðum yfir landsvæðum þar sem Kúrdar eru í meirihluta. Verkamannaflokkur Kúrda í Tyrklandi, PKK, fór þá leið á níunda áratugnum að stunda skæruhernað og hryðjuverk gegn ríkisstjórn Tyrklands. PKK er enn á lista yfir hryðjuverkasamtök. Innan Tyrklands starfa aðrar hreyfingar Kúrda, til dæmis stjórnmálaflokkurinn DBP, sem er í bandalagi við HDP, vinstriflokk sem aðhyllist sósíalisma, réttindi minnihlutahópa, kvenréttindi og þáttökulýðræði. HDP er skipulagt á þann hátt að tveir leiðtogar stjórna honum, einn karlmaður og ein kona og þannig eru nefndir hans einnig skipulagðar. Í þingkosningum í júni 2015 varð flokkurinn þriðji stærsti flokkurinn á tyrkneska þinginu og flokkur Erdogans, AKP missti meirihluta á þingi. Í kjölfarið myndaði AKP samsteypustjórn þar til nýjar kosningar voru boðaðar í nóvember 2015. Þetta fór mjög í skapið á Erdogan, forseta Tyrklands. Nokkrar skrifstofur HDP urðu fyrir árásum frá tyrkneskum þjóðernissinnum og þeim sem störfuðu fyrir flokkinn var hótað. Í október 2015 var framið hryðjuverk í mótmælagöngu þar sem 109 manns fórust. Tyrknesk stjórnvöld kenndu PKK um hryðjuverkin en HDP kenndu tyrkneskum stjórnvöldum um. Enginn hefur viðurkennt hver bar ábyrgðina en svo virðist sem árásarmennirnir hafi í raun verið tengdir ISIS. Í kjölfarið varð flestum sem fylgdust með úr fjarska varð ljóst að málfrelsi og mannréttindi væru ekki virt af stjórn Erdogans. Ítrekað voru settar hömlur á tjáningarfrelsi á internetinu og stjórnarandstæðingar voru handteknir. Í þingkosningunum stuttu síðar fékk flokkur Erdogans aftur meirihluta á þingi, eftir kosningabaráttu þar sem andstæðingar hans höfðu verið barðir niður. Tæpu ári síðar, þegar herinn gerði árangurslaus tilraun til valdaráns í Tyrklandi, sauð upp úr. Þrátt fyrir að HDP hefði fordæmt valdaránstilraunina fór Erdogan fljótt að ráðast gegn þeim. Frá því um haustið 2016 voru þingmenn flokksins sakaðir um að vera hryðjuverkamenn og síðasta sumar voru tíu þingmenn fangelsaðir.

Tyrklandsstjórn ásakar PKK og HDP um að stunda hryðjuverk, á meðan allt bendir til þess að það sé afsökun Erdogans fyrir því að berja niður andstæðinga sína. Þetta þýðir ekki að PKK séu saklausir englar, þeir hafa stundað virka andspyrnu gegn tilraunum Tyrkja til að brjóta þau á bak aftur og hafa t.d. framið árásir á tyrkeska lögreglumenn. Að öllu jöfnu hafa þau þó reynt að ráðast ekki gegn almennum borgurum, ólíkt t.d. ISIS, sem hafa framið nokkur mannskæð hryðjuverk innan landamæra Tyrklands. Þrátt fyrir það hefur Erdogan beint sjónum sínum mun fremur að því að berja niður PKK en að ráðast gegn ISIS og er jafnvel sakaður um að hafa hjálpað ISIS liðum, með því til dæmis að auðvelda þeim för yfir landamæri Tyrklands og auðvelda þeim vopnaflutninga. Það er þó erfitt að sannreyna eitthvað af þessu því Erdogan vill ekki missa alfarið stuðning Vesturlanda. Það er þó nokkuð ljóst að bæði hugmyndafræðilega og hernaðarfræðilega hefur hann meiri hag af því að vinna með öfgahópum íslamista heldur en að vinna með lýðræðis- og jafnréttissinnuðum fylkingum Kúrda og félaga þeirra sem vilja losna undan yfirráðum hans með því að stofna eigið fylkjasamband.

Írak

They say that in war the truth will be the first casualty„. Fyrir okkur sem voru óharðnaðir unglingar að tölta í mótmælagöngum gegn Íraksstríðinu eru þetta engar fréttir. Við þurfum ekki neina fyrrverandi ráðherra til að segja okkur að það sé verið að ljúga að okkur og að alltaf, alls staðar, séu hagsmunir auðvalds og heimsvaldasinna settir ofar réttindum og frelsi. Haukur og félagar í Saving Iceland voru óþreytandi að benda á þessa hagsmuni, á stríðsgróðann frá Írak, á tengsl álvera og vopnaframleiðslu, á tengsl verktaka í Írak við stóriðju á Austfjörðum.

Stríðið í Írak var auðvitað framhald á lengra ferli en það breytti líka ýmsu. Við vorum skráð meðlimir í því, á lista viljugra þjóða, að okkur forspurðum og enginn pældi í því hvaða afleiðingar það hefði á okkar líf. Írak var lygi frá upphafi og það vissu það flestir. Flest allir sem höfðu fyrir því að kynna sér það vissu það að það voru engin gereyðingarvopn og að það voru engin tengsl milli al Qaeda og ríkisstjórnar Íraks var nokkuð augljóst. Við vorum bara krakkar en við vissum þetta samt. Í hjarta okkar vissum við að það var verið að ljúga að okkur og það var sannað löngu síðar. Það er ekkert sérstaklega skrítið að fólk verði brjálað af stríði. Í fangelsum Íraks var öllum blandað saman, gömlum Baath flokks mönnum og jihadistum. Þeir sameinuðu hugmyndafræði sína og komust að því að þeir ættu sameiginlegan óvin; vestrið, Bandaríkin, NATO. Þetta var fæðingarstaður ISIS.

Sýrland

Flestir vita eitthvað um stríðið í Sýrlandi en samt er erfitt að grynna í því hver er hvað. Það sem byrjaði sem uppreisn fólksins í landinu gegn einræðisherranum Assad hefur breyst yfir í sjö ára langa borgarastyrjöld þar sem svo virðist sem allir séu gegn öllum. Eins og í öðrum stríðum varð sannleikurinn fyrstur til að víkja en þó eru ákveðin atriði nokkuð óumdeild. Undir stjórn Assad var stjórnarandstaða barin niður og upplýsinga- og tjáningarfrelsi var mjög takmarkað. Eftir að einræðisherrum í Norður-Afríku hafði verið steypt í kjölfar arabíska vorsins og fjölmenn mótmæli áttu sér stað í Íran, greip um sig frelsisþrá meðal Sýrlendinga. Upphafið er oft rakið til þess að unglingspiltar hafi skrifað veggjakrot með níði um Assad en í kjölfarið verið handteknir og þeim misþyrmt í fangelsi. Ljóst er að það fer ekki gott orð af fangelsum Assad í upphafi, þar sem friðsamir aktívistar lýstu því að hafa orðið fyrir pyntingum. Áður en við var litið voru margir mismunandi hópar farnir að berjast í Sýrlandi. Á Vesturlöndum höfðu flestir áhyggjur af jihadistahópnum ISIS. Á tíma fóru þeir hratt yfir og náðu tökum á stóru svæði. Sögur fóru að berast af viðbjóðslegum morðum á öllum þeim sem aðhylltust ekki sömu hugmyndafræði og misþyrmingar á minnihlutahópum, ásamt áróðursmyndböndum þeirra sjálfra sem óþarfi er að fjölyrða um. Á svipuðum tíma fóru að berast hetjulegar sögur af liðsveitum Kúrda sem vörðust ISIS. Þar fóru fremstar í flokki YPG og YPJ hersveitirnar. YPJ eru hersveitir sem samanstanda einungis af konum. Þær tóku upp vopn til að verjast því að falla í hendur ISIS, sem tóku konur sem herfang og neyddu í hjónabönd með hermönnum sínum. YPJ varð því að einhvers konar kyndilbera samstöðu og sjálfstæðis kvenna. Þær sögðu sögur af því hversu niðurlægjandi ISIS hermönnunum fannst að vera að berjast við konur og lúta í lægra haldi. Það er erfitt að sjá YPG og YPJ ekki sem ákveðna von í annars vonlausu ástandi. Þau notuðu vopnaða baráttu til að verja annars varnarlaust fólk gegn yfirgangi fasískra jihadista.

YPG/J fengu hergögn frá Bandaríkjunum á tímabili en að mörgu leyti hafa Bandaríkin ekki viljað ganga langt í að styðja þau, til að styggja ekki Tyrkland. Tyrkir eru í liði með Bandaríkjunum gegn ISIS að nafninu til og hafa lagt til afnot af mikilvægri herstöð í Tyrklandi til að stunda loftárásir á hreiður ISIS liða. En Tyrkir hafa líka notað loftárásir gegn Kúrdum og PKK, jafnvel í meira mæli en gegn ISIS. Þeir gerðu einnig samkomulag um að Bandaríkin myndu ekki aðstoða kúrdíska hópa vestan megin við Efrat ána. Þar ráða Kúrdar héraðinu Afrin, sem Tyrkland hefur nú gert innrás í.

Í stríðum skiptir líka máli hver er fjármagnaður af hverjum. Eins og margir hafa bent á breytist það mjög ört hvað hóparnir sem berjast í Sýrlandi heita og hver er með hverjum í liði hverju sinni. ISIS og al Qaeda eru fjármögnuð með olíugróða frá Saudi-Arabíu, á meðan Hezbollah og tengdir hópar eru fjármagnaðir af Íran og styðja Assad. Rússar eru svo helstu bandamenn Assads á meðan Tyrkir eru helst í því að styðja alla þá sem eru á móti Kúrdum. Bandaríkin hafa fjármagnað ýmsa uppreisnarhópa. Á tímabili var líka hópur að berjast sem kallaði sig Free Syrian Army (FSA). Í bók blaðakonunnar Francescu Borri er þeim lýst sem illa vopnuðum og illa skipulögðum uppreisnarher að berjast á sandölum með gömlum rifflum innan um vel vopnaða jihadistahópa og gegn loftárásum Assads. Nú er hópur sem kallar sig einnig FSA í liði með Tyrkjum gegn Kúrdum í Afrin héraði. Því er þó haldið fram að í raun sé ekki um sama hóp að ræða og áður barðist gegn Assad, heldur sé um að ræða uppdubbaða fyrrum ISIS liða, en vegna þess að Tyrkir eru ekki í liði með ISIS að nafninu til hafi þurft að kalla hópinn eitthvað annað og gripið hafi verið til nafnsins Free Syrian Army, sem hefur ekki á sér jafn hörmulegt orðspor.

In war the truth will be the first casualty

.

Hugmyndafræðin

Eins og tæpt hefur verið á hér þá byggir hugmyndafræðin á bak við fylkjasambandið Rojava á hugsjónum um þátttökulýðræði, jafnrétti og réttindi minnihlutahópa. Hersveitunum YPG/YPJ náði stjórn yfir Jazira og Kobane í norðurhluta Sýrlands árið 2013 og Afrin héraði í norðvesturhluta landsins. Þessi þrjú héruð mynduðu saman fylkjasambandið Rojava. Eftir að hafa unnið frægan sigur á ISIS við Kobane tókst YPG/YPJ sveitunum að sameina fylkin tvö þannig að þau mynda nú eina heild, en Afrin er ekki landfræðilega tengt hinum tveimur.

Það er oft vísað til Rojava sem tilraunarinnar, eða verkefnisins. Tilraunin felst í því að stofna fylkjasamband en ekki hefðbundið þjóðríki. Stefnuna kalla þau „lýðræðislegt fylkjasamband“, democratic confederalism, sem á að byggja á virkri lýðræðisþátttöku almennings. Hugmyndafræðin er komin frá leiðtoga PKK sem var fangelsaður af Tyrkjum 1999, Abdullah Öcalan. Á meðan hann sat í fangelsi hreifst hann af hugmyndum anarkistans Murray Bookchin, sem byggir á vistfræðilegri sjálfbærni, beinu lýðræði og sameinuðum fylkingum almennings í stað þjóðríkja. Þrátt fyrir að Kúrdar væru stærsti þjóðernishópurinn innan svæðisins ættu þeir ekki að stefna að yfirráðum sem slíkur, heldur ætti fylkjasambandið að samþykkja fjölbreytileika svæðisins og byggja á grasrótarlýðræði fremur en yfirráðum eins hóps yfir öðrum. Stjórnarskrá Rojava viðurkennir rétt allra þjóðernishópanna á svæðinu til að stunda menningu sína, trú og viðhalda sínu tungumáli. Þar er einnig kveðið á um jafnrétti kynjanna. Innan fylkjasambandsins er reynt að halda jafnrétti milli kynja og þjóðernishópa. Það voru settir á stofn hópar og nefndir af fólkinu sjálfu, sem hittist í hverfum og þorpum. Málefni sem komu fram á þessum fundum voru svo tekin fyrir í stærri fylkjaráðum. Fylkin voru sjálfstæð og kjósa sína eigin leiðtoga en fylkjasambandið hélt sínar kosningar í mars 2016. Núverandi leiðtogar fylkjasambandsins eru kúrdísk kona, Hediya Yousef, og arabískur karlmaður, Mansur Selum, í samræmi við hugsjónir um réttindi kynjanna og sameiginlega stjórn þjóðernishópa. Hediya Yousef segir að Rojava sé ekki þjóðríki, það eigi að vera staður þar sem allt fólk, allir minnihlutahópar og öll kyn eigi að fá jafna hlutdeild á öllum stjórnarstigum. Hugmyndin er ekki að verða sjálfstætt frá Sýrlandi, heldur stofna sjálfsstjórnarsvæði innan Sýrlands. Rojava verkefnið svarar því spurningunni um fyrir hverju Haukur var að berjast: Afnámi þjóðríkisins, jafnrétti og beinu lýðræði.

If you fear dying then you’re already dead

Haukur Hilmarsson hélt til Rojava og barðist þar með IFB, International Freedom Battalion sem er í liði með YPG og YPJ gegn ISIS við borgina Raqqa, höfuðvígi hryðjuverkasamtakanna. Sögur fyrrum liðsfélaga af honum stemma alveg við sögurnar sem við þekkjum af honum. Alltaf tilbúinn til að taka að sér erfiðustu verkefnin, fara á undan með góðu fordæmi, hugsaði síðast um sjálfan sig. Saga IFB liðsmanns um hvernig hann hljóp af stað til að bjarga börnum sem höfðu fundið bílsprengju án þess að hika, varpar á hann hetjuljóma en í ljósi þess hvernig karakter hann var þá passar þetta alveg. Að sögn liðsmanna hans barðist hann hetjulega um Raqqa sem ISIS missti í hendur YPG/YPJ/IFB stuttu síðar. Hann barðist með frelsinu gegn fasismanum og vann. Og sagði að sjálfsögðu engum frá því, það var ekki venja hans að upphefja sjálfan sig. Ekki löngu eftir þennan sigur réðst Tyrkland inn á sjálfstjórnarsvæði Tyrklands og Haukur virðist hafa haldið þangað, að vanda fremstur í flokki, með frelsi og lýðræði gegn fasískum innrásarher. Þetta var líka hluti af hans baráttu gegn þjóðríkinu.

Við skulum ekki gráta Hauk, heldur taka upp málstað hans. Við skulum aldrei aftur leyfa okkur að horfa í hina áttina. Við vitum að Erdogan stjórnin mun líklega ljúga því að hann hafi verið hryðjuverkamaður. Við vitum að hún var að ljúga því að landamærum Tyrklands sé ógnað af YPG. Við vitum líka að innrásin í Afrin er árásarstríð til þess að ná yfirráðum yfir landsvæðinu og berja niður lýðræðið í Rojava. Nú veit ég fyrir víst að Rojava var ekkert bull, að þau eru í alvöru að vinna að því sem þau segjast standa fyrir, því annars hefði Haukur ekki barist þar. Hann gleypti aldrei við neinu kjaftæði frá neinum og var flestum öðrum fyrri til að sjá í gegn um lygar.

Það þýðir þó ekki að ég sakni hans ekki. Síðustu stundum okkar saman eyddum við í, svona sérstaklega eftir á séð, yndislegu áhyggjuleysi. Samt var ég að undirbúa baráttuna við kolkrabbann í hausnum á mér og hann var vafalaust farinn að undirbúa baráttuna við ISIS. Við ræddum um stríðið í Sýrlandi út frá bók sem hann var að lesa, eftir áðurnefnda Francescu Borri, sem hafði dvalist á uppreisnarsvæðinu í Aleppo. Hann vissi alveg hvað hann var að fara út í. Það er svo lýsandi fyrir hans karakter að þegar ég hitti hann næst þá hafði hann meiri áhyggjur af mér en sjálfum sér. Ég bjóst ekki við því að hann færi á undan mér yfir um. Ég get ekki verið sorgmædd yfir falli hans. Hann lifði og dó með hugsjónum sínum og var baráttumaður út í gegn. Þetta var það sem hann vildi og ég er stolt af honum.