Jóhann Páll Jóhannsson – Stundin

Utanríkisráðuneytið hefur ekki haft samband við varnarmálaráðherra eða varnarmálaráðuneyti Tyrklands vegna máls Hauks Hilmarssonar. „Til marks um algjöra vanvirðingu við líf Hauks,“ segir aðstandandi.

Utanríkisráðuneytið hefur ekki haft samband við varnarmálaráðuneyti Tyrklands vegna máls Hauks Hilmarssonar sem sagður er hafa fallið í hernaðaraðgerðum Tyrkja í Sýrlandi þann 24. febrúar síðastliðinn.Þetta staðfestir María Mjöll Jónsdóttir, staðgengill upplýsingafulltrúa, í samtali við Stundina. Hún tekur þó fram að ráðuneytið hafi leitað allra formlegra og óformlegra leiða til að afla upplýsinga um afdrif Hauks.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í viðtali á Morgunvaktinni á RÚV í morgun að viðbrögð Tyrkja við umleitunum íslenskra stjórnvalda vegna leitarinnar að Hauki Hilmarssyni hefðu „ekki verið neikvæð“. Tyrkir hefðu lýst yfir samstarfsvilja en því miður væri „ekkert að frétta“. María segir að sú staða sé óbreytt.

Snorri Páll Jónsson, vinur Hauks til margra ára, furðar sig á að íslensk stjórnvöld hafi ekki haft samband við varnarmálaráðuneyti Tyrklands sem hefur málefni hersins á sinni könnu.

„Þetta staðfestir þann grun okkar, vina Hauks, sem höfum verið að rannsaka málið sjálfstætt ásamt fjölskyldunni frá því að fregnirnar bárust í síðustu viku, að íslensk stjórnvöld hafi – þvert á eigin yfirlýsingar – ekki gert allt sem í þeirra valdi stendur til að komast að hinu sanna um afdrif Hauks. Það er borðleggjandi og augljóst hverjum heilvita manni að þegar grennslast á fyrir um einstakling sem talinn er hafa fallið eða særst í árásum tyrkneska hersins – og það á svæði sem nú er undir tyrkneskum yfirráðum – þá þarf fyrst af öllu að hafa samband við þá aðila sem bera ábyrgð á verkum hersins: varnarmálaráðuneytið og varnarmálaráðherrann,“ segir Snorri.

„Frá upphafi hefur mér þótt ómögulegt að vantreysta ekki Guðlaugi Þór og samflokksfólki hans, enda flokkur þeirra í blygðunarlausu samkrulli við flokk Erdogans, Tyrklandsforseta, með veru sinni í bræðralagi evrópskra íhaldsmanna, ACRE. Nú, þegar sú tilfinning hefur verið staðfest, er deginum ljósara að utanríkisráðherra er ekki treystandi til að sinna þessu máli. Sé Haukur einhverstaðar á lífi getur hver klukkustund skipt máli, sér í lagi ef hann er í haldi tyrkneska yfirvalda eða bandamanna þeirra. Aðgerðarleysið og vanrækslan eru til marks um algjöra vanvirðingu við líf Hauks. Í ljósi þessara upplýsinga blasir við sú augljósa krafa að óháðir aðilar taki héðan í frá við keflinu og komist að því hvar Haukur er niðurkominn og hvort hann er lifandi eða látinn.“

Guðbjörn Dan Gunnarsson, móðurbróðir Hauks Hilmarssonar, greinir frá því á Facebook að hann hafi fundað með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag. Hún hyggist gera hvað hún geti til að hjálpa aðstandendum Hauks. „Fyrr í dag kom ég við í Stjórnarráðinu og bað um að fá að ræða við forsætisráðherra. Hún var á fundi. Ég fékk símtal 20 mínútum síðar og var boðið að koma á fund sem ég gerði,“ skrifar Guðbjörn á Facebook. „Við fórum yfir stöðuna og málið og mun Katrín Jakobsdóttir heyra í Guðlaugi Þór og fá upplýsingar um þeirra aðkomu og bjóða fram aðstoð sína.“

Snorri Páll bendir á að enn liggi ekki fyrir nein staðfesting á því að fréttirnar af andláti Hauks séu réttar, hvorki frá tyrkneskum yfirvöldum né frá kúrdísku hersveitunum.

„Það sem okkur finnst svo skrítið, okkur vinum og félögum Hauks, er að eftir rúmlega 10 daga leit, eftir að fram hefur komið á tyrkneskum miðlum að tyrkneski herinn sé með líkið, þá virðist utanríkisþjónustan á Íslandi ófær um að fá staðfestingu á því hvort hann sé lífs eða liðinn.“

Snorri fagnar því að Katrín Jakobsdóttir ætli að blanda sér í málið. „En ég verð að segja að það kemur mér á óvart að hún, verandi forsætisráðherra Íslands og formaður flokks sem hefur staðið fyrir andstöðu við hernað og veru Íslands í hernaðarbandalögum, skuli ekki fyrr en nú, 10 dögum eftir að fréttir berast og eftir þrýsting frá fjölskyldunni, ákveða að blanda sér í málið.“

Share to Facebook