Alma Ómarsdóttir RUV

Aðstandendur Hauks Hilmarssonar, sem tyrkneskir fjölmiðlar sögðu að hefði fallið í Afrín-héraði í Sýrlandi, telja ekki útilokað að Haukur sé á lífi. Hver klukkustund geti því skipt máli. Þeir vilja að stjórnvöld hagi leitinni þannig að um mannshvarf sé að ræða, ekki mannslát. 

Fregnir bárust af því í tyrkneskum fjölmiðlum í byrjun mánaðar að Haukur hefði fallið í árás tyrkneska hersins í Sýrlandi. Haukur hafði barist við hlið varnarsveita Kúrda frá því um mitt síðasta ár. Enn hefur engin staðfesting fengist á andláti hans, þrátt fyrir eftirgrennslan stjórnvalda og aðstandenda Hauks. „Við, fjölskylda Hauks, vinir og aðstandendur, höfum núna seinustu 10 daga rannsakað þetta mál og þessar fréttir eftir öllum mögulegum leiðum, og haft samband við mörg hundruð manns á svæðinu, bæði Kúrda, Tyrki, þá sem eru á vígvellinum enn þá, fólk sem býr í þessum bæjum og það er engin staðfesting á að Haukur sé dáinn, ekki einu sinni á hvenær það á að hafa gerst eða hvar eða neitt annað. Sama segir utanríkisráðuneytið,“ segir Steinunn Gunnlaugsdóttir, vinkona Hauks.

Því telja aðstandendur enn von til þess að Haukur sé á lífi. Steinunn segir að mun meiri þungi væri lagður í leit að manni, sem mögulega er í lífshættu, en í leit að mannslíki. „Það hefur verið bent á að það sé möguleiki á að hann sé í haldi hjá tyrkneskum yfirvöldum eða hjá bandamönnum þeirra. Hann gæti verið þar, lífs eða liðinn. Sé hann á lífi þá er hann í mikilli lífshættu, enda er það alþekkt hvað fer fram  í tyrkneskum fangelsum þessa stundina,“ segir Steinunn. „Hver klukkustund skiptir máli og þess vegna erum við að setja þessa pressu á íslensk stjórnvöld og Vinstri græna að beita sér í þessu máli af fullum þunga.“

Fjölskylda Hauks vissi ekki að Haukur væri í Sýrlandi, en Steinunn segir ekki skrýtið að Haukur hafi barist fyrir málstað Kúrda. „Afrin, sem er svæðið þar sem Haukur er sagður hafa verið seinast að berjast, er hluti af sjálfstjórnarsvæði Kúrda, sem kallast Rojava. Rojava er eina verkefnið á svæðinu sem byggir á lýðræði, kvenfrelsi og trúfrelsi, sósíal-anarkískum hugmyndum, og það er ástæðan fyrir því að Haukur hefur farið þarna að berjast,“ segir Steinunn, sem vill að stjórnvöld og alþjóðasamfélagið fordæmi árásir Tyrkja á svæðinu. 

Share to Facebook