Uppfært:

Aðgerðin heppnaðist mjög vel. Mikill fjöldi þátttakenda og veðrið frábært.

Þetta sumar stóðu nokkrir hópar stuðningsmanna flóttafólks sameiginlega að fjölmennri kröfugögnu til stuðnings börnum sem átti að vísa úr landi. Reyndar höfðu börn í Hagaskóla áður efnt til aðgerða til stuðnings skólasystur sinni. Sú stúlkna var með Guðrúnu systur Hauks (þessi með bleika hárið) í hljómsveit sem tók þátt í verkefninu „Stelpur rokka„. Þær komu einmitt fram á mótmælasamkomu á Austurvelli fyrr um vorið.

Guðrún ræðr við fréttamann um stöðu flóttabarna

Auglýsingin

Myndin sýnir raunverulegar aðstæður margra flóttabarna í Grikklandi

Samstöðuaðgerð með flóttabörnum á göngubrúnni yfir Hringbraut, sunnudaginn 7. júlí kl 14.

Mætið með létt barnaföt, blöðrur, tuskudýr og önnur létt leikföng en vinsamlegast ekki festa neitt við handriðið nema undir leiðsögn skipuleggjenda.

Lýsum samstöðu með flóttabörnum, á göngubrúnni yfir Hringbraut, sunnudaginn 7. júlí kl 14.

Síðustu daga hafa mörg þúsund manns lýst andstöðu við ákvörðun um að reka fjögur börn úr landi. Þar sem þessi tilteknu börn hafa eignast vini á Íslandi, sem eru tilbúnir til að tala máli þeirra, hafa viðbrögð almennings og umfjöllun fjölmiðla orðið nógu áberandi til að dómsmálaráðherra ákvað að opna á möguleika á endurskoðun. En sú ákvörðun merkir ekki að börn hælisleitenda séu örugg á Íslandi. Þau börn sem ekki eiga vini á Íslandi verða áfram rekin úr landi, rétt eins og þau hundruð barna sem á síðusu árum hafa verið rifin upp úr rúmi og send nauðug úr landi í lögreglufylgd í skjóli nætur. Áfangastaður margra þeirra er Grikkland en þar bíður þeirra heimilisleysi og sárafátækt. Mörg þeirra barna sem yfirvöld hafa sett á guð og gaddinn hafa þegar þjáðst af meira öryggisleysi en meðalmaðurinn á Íslandi upplifir á heilli mannsævi.

Það er ekki boðlegt að senda flóttafólk til Grikklands og allra síst börn. Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skal „[þ]að sem barni er fyrir bestu […] ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“  Þetta hafa ríkisstjórnir Íslands og stjórnsýslustofnanir haft að engu þegar börn flóttafólks eru annars vegar.

Krafan um vernd flóttabarna snýst ekki um þessi fjögur börn. Hún snýst um mannsæmandi uppeldisaðstæður fyrir öll börn. Hún snýst um ábyrgð ríkisins á mannúðlegri meðferð á öllum börnum sem stödd eru í íslenskri lögsögu, ekki bara þeim sem eiga íslenska vini. Við ætlum ekki að láta ráðamenn komast upp með að virða skyldu sína gagnvart fjórum börnum, í þeim eina tilgangi að þagga niður gagnrýnisraddir, og halda síðan uppteknum hætti. Við munum því ekki þagna út á heimild – en ekki skyldu – til þess að taka mál til meðferðar. Við tökum ekki mark á þeirri réttarbót sem á að felast í því að skipa eina nefndina enn.

Blandaður aðgerðahópur samtaka og einstaklinga efnir því til samstöðuaðgerðar með flóttabörnum á göngubrúnni yfir Hringbraut, sunnudaginn 7. júlí kl 14.  Við ætlum að gera flóttabörn sýnileg með því að þræða barnafatnað upp á snúru og strengja hana yfir handriðið á göngubrúnni.

Mætið með létt barnaföt, blöðrur, tuskudýr og önnur létt leikföng sem hægt er að hengja upp en vinsamlegast ekki festa neitt við handriðið nema undir leiðsögn skipuleggjenda.

Hægt er að fylgjast með og tilkynna þátttöku á Barnabrú á Facebook.

Share to Facebook