X

Saltkjöt

Við fórum á þorrablót ásatrúarfélagsins í gær. Fengum (auk hefðbundins þorramatar) heitt saltkjöt og saltað folaldaket en ég minnist þess ekki að hafa fengið slíka guðafæðu á þorrablóti fyrr.

Ég hef sérstakt dáltæti á söltuðum kindum, hestakjötið er aðeins meira happdrætti. Ég verð samt að segja það sama og hann Darri minn sagði tveggja ára, þegar við vorum með hvorttveggja á borðum og ég spurði hvort honum þætti betra. Hann hugsaði sig lengi um en sagði svo:
Tvö gott kjöt.

Reyndar er ég almennt á því að kjöt eigi helst alltaf að bera fram heitt nema kannski ef það er notað sem álegg á smurt brauð. Þá á ég líka við hangiket, svið og slátur.

Ég át mikið saltkjöt í gær en samt langar mig í meira af því. Sem er í raun nóg til að sannfæra mig um óhollustu þess því þótt holl fæða geti bragðast dásamlega langar mig yfirleitt ekki í meira af því sama daginn eftir. Held samt að ég bíði með að sjóða saltkjöt fram á Sprengidag, sem reyndar nálgast óðfluga.

Óháð ofangreindu: ég er með undarlega meinloku. Get hreinlega ekki skrifað félags, í fyrstu tilraun. Skrifa alltaf félgas. Kannski er ég með félgas-heilkenni.

 

Eva Hauksdóttir:

View Comments (1)

  • ------------------------

    svið eru að mínu mati nær óæt köld, köld lambafita gengur bara engan veginn. Sama gildir um kalt slátur. Heitt, hins vegar, mmmm! Kransæðakítti dauðans.

    Posted by: hildigunnur | 27.01.2008 | 0:18:15

    ---   ---  ---

    mmm...saltkjöt..mmmm...hrossakjöt. ég er svöng.

    get hámað svona í mig bæði heitt og kalt.

    Posted by: baun | 27.01.2008 | 10:36:52

Related Post