Fréttablaðið hafði samband við mig í gær til að kanna hvort ég væri búin að fá mannskap í verkefnið.
Ég sendi inn nýlega mynd, samkvæmt ósk blaðamanns en annaðhvort hefur honum ekkert litist á hana eða hann hefur verið að flýta sér of mikið til að bíða eftir tölvupóstinum. Allavega byrjaði ég daginn á hláturskasti því honum hefur tekist að grafa upp einhverja hroðalegustu mynd sem nokkurntíma hefur verið tekin af mér. Ég myndast ýmist eins og ég sé andsetin, gröð eða geðveik en á þessari mynd er ég BARA pirruð. Kjálkarnir samanbitnir og augnráðið eitthvað mitt á milli vandlætingar og reiði. Ef marka má hárið á mér hef ég líka verið nývöknuð þegar hún var tekin.
Ég verð að viðurkenna að þótt fegurð minni sé stórlega ábótavant á þessari mynd, hæfir hún tilefninu einkar vel. Ef ég hefði skrifað greinina hefði hún endað á orðunum … sagði nornin, heldur snúðiglega.
View Comments (1)
-------------------------
Verð að segja að þessi mynd er kröftug en alls ekki vond af þér - ákveðin norn á ferðinni :-)
Posted by: Siggadís | 13.06.2007 | 10:31:47
-----------------------------------------
Var myndin tekin á nornavöku? Þetta er eins og úr djöflamynd frá Hollywood. :-)
Posted by: Þorkell | 15.06.2007 | 8:39:46