Ég hef ekki farið í Bónus nema einu sinni síðan á Þorláksmessu en nú er Pysjan í sveitinni og Byltingin ekkert að stressa sig á því að taka bílpróf, svo ég neyddist til að sjá um páskainnkaupin sjálf.
Ekki hefur langtímafráhald frá stórmörkuðum minnstu áhrif á mannmorsfóbíuna í mér og þetta er líklega ekki besti dagurinn til að æfa sig. Finn hendurnar kólna upp, kjálkana læsast saman, kokið verður eins og sandpappír, blessunarlega því það er þá of sársaukafullt að hleypa öskrinu út til að það gerist óvart.
Þetta getur ekki verið heilbrigt, hugsa ég en er ekki alveg viss um hvort ég á við ástandið á sjálfri mér eða geðbilunina sem skynja hjá fólki sem virðist ætla að gúlla jeppafylli af mat og sælgæti í fjölskylduna á þessum 5 dögum. Sjálf er ég búin að troða í körfuna heldur meiru en raunhæft er að ætla að við Byltingin getum innbyrt og er að reyna að afsaka það með því að ég ætli að bjóða í mat þessum 15 manns eða 3000, sem ég er alltaf að elda fyrir í huganum.
Sannleikurinn er sá að munurinn á mér og hinum geðsjúklingunum er sá að þegar flestir versla af matgræðgi eða veislugleði, þá stjórnast mín innkaup af matreiðslufíkn. Sé fyrir mér að ég muni standa og hræra í pottum alla páskana. Það stórklikkaða er að fólkið sem á að borða allan þennan mat er algert aukaatriði. Ég hef ekki einu sinni hugmynd um hverjum ég ætla að bjóða í mat. Ég held ekki matarboð af þörf fyrir félagsskap heldur af því að ég lít á það sem helgispjöll að henda mat. Reyndar hef ég gaman af því að fá gesti þegar þeir eru á annað borð komnir en tilhlökkunin snýst um undirbúninginn. Það er bara eitthvað svo notalegt við að elda þegar maður hefur nægan tíma til þess.