X

Af umhyggju Geirþrúðar

Screensaver stóðst væntingar og rúmlega það. Gjörsamlega frábær sýning. Táknmálið yndislegt en ég er óvön því að túlka verk sem eru algerlega án orða, þarf að fara oftar á dans- og myndlistarsýningar. Og dansarar eru svoooo fallegt fólk. Kostar ofboðslega vinnu býst ég við og ekki myndi ég leggja það á mig. Sætti mig frekar bara við það sem sjálfsagt mál að vera óttaleg rassmína við hliðina á þessum álfakroppum.

Ég hitti Geirþrúði Jarmlen eftir sýninguna. Á alltaf jafn erfitt með að líta þá konu réttu auga. Held að tíðar leikhússetur hennar hafi frekar stuðlað að því að ýkja hennar eigin ofleik á sjálfri sér en að þroska auga hennar fyrir góðum leik. Satt að segja sé ég ekkert áhugavert í henni, nema þá helst hvað hún ber gervipelsinn einstaklega illa og skökk strikin uppi á miðjum augnlokum draga vissulega að sér athygli. Hún spurði frétta og ég sagði eins lítið og ég komst upp með án þess að vera dónaleg. Maður hellir ekki ísnálum niður í hálsmálið hjá kerlingarvæflu um sextugt bara af því að hún notar ósmekklega perlufesti og hefur gaman af slúðri.

-Hvað segirðu, ertu virkilega að vinna hjá honum, Guð hann er svo mikill sjarmör, ískraði hún og hló af meiri tilgerð en lélegasta leikkona. Ég þagði
-Í alvöru Eva, finnst þér hann Víkingur ekki sætur?
-Hann er myndarlegur maður, viðurkenndi ég en annars vil ég, mannorðs míns vegna sem minnst ræða skoðanir mínar á karlmönnum við þá konu og reyndi því að snúa talinu að öðru. Hún lét sig ekki.
-Veistu, þú ættir nú bara að reyna að krækja í hann ha. Vera soldið svona glöð og kókett og setja eitthvað sætt í hárið á þér.
-Fyrirgefðu, en ertu að ráðleggja mér að daðra við hótelstjórann milli uppþvottagrinda? sagði ég og fann að gætti urrs í röddinni.
-Jáh. Af hverju ekki? Hann er bæði sætur og fyndinn og svo á hann fullt af peningum, sagði hún og lagði frá sér bolla, klíndan brunabílsrauðum varalit allan hringinn.
-Já og svo á hann líka gullfallega kærustu, sagði ég, ég gæti kannski fengið hana í kaupbæti.

Hún horfði á mig eins og ég hefði tilkynnt sviplegt andlát nákomins púddelhunds.
-Æ, elskan. Mikið var það leitt að heyra.
-Leitt? Af hverju? Er ekki bara gott mál ef hann hefur fundið eigulega konu? spurði ég og reyndi að átta mig á samhenginu.
-Nei sko, þín vegna meina ég. Það hefði verið svo kjörið fyrir þig að krækja í hann Víking. Tími til kominn, eins og þetta er nú allt búið að vera erfitt hjá þér.

Ég forðaði mér áður en hún næði sér á flug í tragedíurunkinu og hafði ekki einu sinni fyrir því að fræða hana á því að það væri ekki minn stíll sem böðuls að „krækja í“ eitt eða neitt. Hún hefði örugglega lagt sig fram um að ráðleggja mér eitthvað í þeim efnum.

Best er að deila með því að afrita slóðina

Eva Hauksdóttir:
Related Post