X

Leynivinur á ljóðakvöldi

Átti ekki von á að hitta hann á ljóðakvöldi en þarna er hann og lítur mig samsærisaugnaráði; við eigum leyndarmál. Hann leikur hlutverk sitt af kostgæfni, tekur í hönd mína og kynnir sig eins og hann sé að hitta mig í fyrsta sinn.

Skrýtið að vita að engan viðstaddan rennir í minnsta grun um að við þekkjumst, hvað þá um það sem hefur farið okkur á milli. Ég lít beint framan í bróður Húsasmiðsins, ekki einu sinni hann hefur hugmynd um það. Ég velti því fyrir mér hvað hann segði ef hann vissi að við þekkjumst. Líklega héldi hann að við hefðum sofið saman.

Hugsa til þess tíma þegar við hittmst fyrst. Ég fann strax að eitthvað var öðruvísi. Eitthvað við það hvernig hann horfði á mig, ástúðlega en samt einhvernveginn ástríðulaust.

-Ég er einhvernveginn öðruvísi en ég veit ekki almennilega hvernig, sagði hann.
-Ertu ekki bara hommi? sagði ég
-Nöjts. Ég er ekkert svoleiðis, ég hef aldrei gert neitt með strák.
-Halló elskan, þú ert í brjóstahaldara, hvað segir það okkur?
-Kannski er ég klæðskiptingur?
-Kannski já en sefurðu hjá stelpum?
-Jájá, eða ég hef alveg gert það sko. Oft.
-Fullur og að þeirra frumkvæði?
-Ég er kannski ekkert mikið fyrir það þannig, en mér finnst það samt ekkert ógeðslegt eða neitt.
-Mér þykja snúðar heldur ekkert ógeðslegir. Ef þú kaupir snúð handa mér eru allar líkur á að ég borði hann en ég hugsa aldrei um snúða og ég hef ekki keypt mér snúð síðan ég var 15 ára.
-Þú orðar þetta skemmtilega en ég er samt ekki hommi.
-Eða getur ekki viðurkennt það af því að þetta guðdómslið myndi ekki fíla það?
-Þau eru gott fólk.
-Gott fólk hefur stundum rangar skoðanir.
-Ég er samt ekki hommi.

Við spiluðum scrabble og hann var lélegur í því en það var samt gaman. Hann bar fyrir mig innkaupapoka, sló lóðina, mataði mig á pasta og lá með mér í hláturskrampa af því að það er fyndið að mata einhvern á pasta. Ég bauðst til að mála hann en hann afþakkaði feimnislega, mátaði hinsvegar nærfötin mín, lakkaði neglurnar á mér, lá í kjöltunni á mér og hlustaði með mér á Jethro Tull, greiddi á mér hárið og kyssti mig góða nótt ástúðlega en ástríðulaust. Ég bauð honum að deila með mér rúmi en hann valdi að sofa í stofunni.

Og hér stendur hann sposkur á svip, og enga af þessum guðdómlegu sálum dettur í hug að ég eigi leynivin á meðal þeirra. Ekki einu sinni bróður Húsasmiðsins.

Eva Hauksdóttir:
Related Post