Í dag mun ég í fyrsta sinn bera grímu í mótmælaaðgerð. Ég mun bera slíka grímu hér eftir í aðgerðum, nema andlitið á mér þjóni sérstökum tilgangi.

Á morgun kem ég fram í þætti Sverris Stormskers á útvarpi Sögu og ræði aktivisma og anarkisma. Á fimmtudag kem ég fram á opnum Borgarafundi í Iðnó og tala um borgaralega óhlýðni og ábyrgð mótmælenda. Eftir það mun ég ekki tjá mig um mótmæli aðgerðasinna undir nafni, nema þá með því að vísa í eitthvað sem ég hef þegar sagt.

Ástæðurnar fyrir því að ég tek upp grímu og nafnleysi eru eftirfarandi.

-Ég dreg of mikla athygli frá aðgerðunum -og það gæti einnig virkað öfugt

Ég hef hingað til komið fram grímulaus sem talsmaður beinna aðgerða. Ég hef ekki komið fram sem talsmaður ákveðinna hópa nema í þeim tilvikum sem ég sjálf hef stofnað lítinn hóp í kringum eina tiltekna aðgerð, enda get ég ekkert talað fyrir hundruð manna sem ég þekki lítið eða ekkert, en fólk virðist ekki skilja muninn á þessu tvennu. Málgleði mín hefur orðið til þess að fólk álítur mig foringja og heldur að ég hafi vald til að gefa skipanir. Margir telja einnig að mínar skoðanir endurspegli skoðanir ‘hópsins’ jafnvel þótt hópurinn sé stundum 2-3 hundruð manns úr ýmsum áttum, sem eiga ekkert sameiginlegt annað en að vilja spillinguna burt.

Í hvert einasta sinn sem ég er með í, eða viðstödd aðgerð koma fjölmiðamenn til mín og vilja fá mig til að tala. Mér lætur vel að tala en ég tel neikvætt að persónugera aðgerðir á þennan hátt og ætla ekki að gefa frekari tilefni til þess. Ég vil ekki að eitthvað sem ég hef einhverntíma sagt eða gert, verði til þess að fólk hætti að hugsa um merkingu aðgerðarinnar og fari þess í stað að velta sér upp úr einkalífi mínu. En það er líka önnur og eigingjarnari hlið á þessu. Ég hef sterkar skoðanir og mikla tjáningarþörf. Ég skrifa mikið og tala mikið og þótt ég sé upptekin af pólitík í augnablikinu hef ég líka ástríðu gagnvart ýmsu öðru. Ég vil gjarnan geta komið fram opinberlega án þess að það fyrsta og kannski eina sem fólki detti í hug sé ‘mótmælandi’.

 

-Ég þarf að gæta að öryggi mínu og annarra sem tengjast mér.

Fólk sem hefur róttækar skoðanir og framfylgir þeim, eignast bæði stuðningsmenn og óvini. Ég þoli nafnlaus sms og ógnandi tölvupóst ágætlega en ég veit ekki hversu vel ég myndi þola alvöru árásir og það má búast við að hvítliðar fari fljótlega að láta á sér bera.

Jafnvel þótt ég þyldi það sjálf, get ég ekki boðið fjölskyldu minni og nágrönnum upp á að gera þau eða heimili þeirra að skotmörkum fyrir geðbólgu einhverra vitleysinga. Ég get heldur ekki boðið mínum nánustu upp á að óttast stöðugt um öryggi mitt og ég vil ekki þurfa að gera sérstakar varúðarráðstafanir ef ég fer út að kvöldlagi.

 

-Ég bý í eftirlitssamfélagi og vil ekki gefa nýjum aðgerðasinnum ástæðu til að halda að það sé æskilegt að vera eins áberandi og ég hef verið.

Sannleikurinn er sá að ég hef farið mjög óvarlega.  Að bera grímu í aðgerðum og leyna nafni sínu þegar maður tjáir róttækar skoðanir, er eins og að nota hjálm á mótorhjóli. Ég hef ekki gert það og afleiðingin er sú að ég get reiknað með að lögreglan viti ALLT um mig, jafnvel sálræna hluti sem ég geri mér ekki grein fyrir sjálf.

Sá sem er áberandi í mótmælum getur gert ráð fyrir því að allt sem skiptir máli í lífi hans verði skráð og skeggrætt og þeir sem hann umgengst geta einnig orðið rannsóknarefni. Við höfum enga ástæðu til að ætla að símahleranir hafi verið aflagðar síðan á dögum kalda stríðsins eða að öðrum tegundum persónunjósna sé ekki beitt. Það er orðið of seint fyrir mig að komast hjá því að sæta eftirliti en það er engin ástæða til að fleiri taki áhættu á því.

Á morgun kl 13 tek ég þátt í aðgerð við Landsbankann í Austurstræti, til að þrýsta á um að Elín Sigfússdóttir verði látin víkja. Við fáum að fylgjast með táknrænum gjörningi í boði alvöru aktivista, fólks sem talar ekki bara um hlutina heldur framkvæmir líka. Þótt þetta sé áhættulaus og fjölskylduvæn aðgerð, mun ég setja upp grímu, og hvet alla þá sem vilja að beinar aðgerðir verði áfram hluti af mótmælamenningu á Íslandi, jafnvel þótt þeir stundi þær ekki sjálfir, til að mæta með klúta, trefla eða grímur fyrir andliti, til að sýna stuðning sinn.

Ég mun ekki hætta að taka þátt í aðgerðum og ég mun ekki hætta að rífa kjaft. Það eina sem breytist er að ég mun ekki koma fram með andliti og undir nafni.

Lýkur svo hér með nafngreindum skrifum mínum um aktivisma á Íslandi, góðar stundir

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago