Seint hefði mig grunað að Svíar yrðu helstu níðingar krúnustríðsins. En veruleikinn blasir við, það er yfirlýst stefna stjórnvalda að beita lágmarks varúðarráðstöfunum og stefnt er að því að í lok apríl verði búið að sýkja helming þjóðarinnar. Þessi ákvörðun byggir á því að sænskir sérfræðingar séu svo frábærir að þeir hljóti að vita hvað þeir eru að gera og sænskurinn ku vera svo löghlýðinn og leiðitamur yfirvöldum að það á svona í megindráttum að duga til að koma í veg fyrir katastrófu.

Í megindráttum gengur sænska leiðin út á það að halda sem mestu opnu en áhættuhópum er ráðlagt að forðast samneyti við aðra. Með þeim varúðarráðstöfunum eiga Svíar eiga að vera undanþegnir hárri dánartíðni enda bara hraustir sem veikjast og mynda því hjarðónæmi öðrum til verndar.

Tölurnar gefa þó enga vísbendingu um að áhættuhópar séu sérstaklega vel verndaðir í Svíþjóð. Þvert á móti minnir ástandið frekar á skipulegar hreinsanir úr hópi eldri borgara en sérstaka verndarstefnu gagnvart þeim. Þrátt fyrir meinta löghlýðni Svía hefur veiran náð að breiðast út á tugum hjúkrunarheimila og um 250 íbúar þeirra smitaðir. Nokkur fjöldi fólks undir þrítugu á gjörgæslu virðist heldur ekki vekja ótta um að fórnarkostnaðurinn verði óbærilegur. Þegar þetta er skrifað eru 309 látnir af völdum kórónusýkingar í Svíþjóð og brátt hlýtur að reyna á þolmörk heilbrigðiskerfisns ef ekki hægir á útbreiðslu.

Almenningur virðist bara taka þessari stefnu vel og treysta því að engin hætta sé á að þessi brjálsemislega ónæmisaðgerð fari úr böndunum. Ólíkt öðrum borgum Evrópu, sem nú minna helst á höll Þyrnirósar, iðar mannlíf í stærstu borgum Svíþjóðar sem aldrei fyrr. Ég velti því fyrir mér hvort venjulegur Andersson í Stokkhólmi sé bara sáttur við að fá pest sem í mörgum tilvikum leiðir til lungnabólgu eða hvort hann telji víst að hann sjálfur sleppi. Orðið Stokkhólmsheilkenni fær alveg nýja merkingu.

Nú er alveg hugsanlegt að þetta fari allt saman vel í ríki Svía. Við vonum það auðvitað, ekki síst þau okkar sem eiga þar aðstandendur og vini. En það verður þá ekki vegna þeirrar stefnu að halda sem flestum smitleiðum opnum heldur þrátt fyrir hana. Fyrir mörgum árum tók vinur minn að sér að keyra bílinn minn á milli landshluta. Eftir á stærði hann sig af því að hafa komið honum í 150 km/klst. Þegar ég fölnaði hló hann og þegar ég svo hellti mér yfir hann sagði hann mér að róa mig. Hann hefði alveg vitað hvað hann var að gera og það væri nú ekki eins og einhver hefði slasast. En sá ungi heimskingi myndi ekki hegða sér svona í dag. Og stjórnvöld í Svíþjóð hafa sér það ekki til málsbóta að vera 18 ára.  

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago