Sérlegur fulltrúi Lúsífers

Gunnar í Krossinum hefur tekið að sér að vekja athygli fjölmiðla á tengslum mínum við myrkraöflin.

Og jájá, ef Satan sjálfur er eitthvað líkur þeirri ímynd sem Bulgakov gefur honum í Meistaranum og Margarítu, þá skal ég stolt taka að mér að vera fulltrúi hans.

Í bók Bulgakovs heimsækir Satan Moskvu, ásamt föruneyti sínu. Hann tekur að sér að fletta ofan af svikum, eiginhagsmunapoti og valdhroka stjórnmálamanna og yfirstéttarinnar. Mestu skíthælarnir standa að lokum naktir sem skemmtiatriði í sirkus. Og jáójá, ég er bara alveg til í að vera með þessháttar myrkrahöfðingja í liði.

Fréttablaðið setti mynd af mér við þessa grein en ekki mynd af Gunnari. Ætli það sé af því að ég er líkari Satni heldur en Gunnar eða finnst blaðamanninum ég bara sætari?

Eva norn fulltrúi hins illa afls

„Öfl myrkursins eru komin á afturlappirnar, stíga villtan dans. Hrunadansinn er þess dans,“ segir Gunnar Þorsteinsson, trúarleiðtogi í Krossinum.

Gunnari í Krossinum þykir það furðu sæta að það hafi nánast farið fram hjá fjölmiðlum að á laugardag fyrir viku komu saman sjö hundruð biðjandi sálir við Austurvöll. En fyrsta frétt var að sjö manns voru handteknir við Alþingishúsið. Sjálfur er Gunnar léttur á því, segir að þó að kreppa sé í hinu veraldlega ríki eigi hið sama ekki við um Guðsríki.

„Mér finnst menn standa þetta furðuvel af sér. Andrúmsloftið frekar vera að léttast. En þegar desember er liðinn fáum við að sjá veruleika sem við eigum erfitt með að horfast í augu við.“

Þegar Fréttablaðið náði tali af Gunnari var hann nýkominn af bænastund þar sem saman voru komnir forstöðumenn og leiðtogar ýmissa kristinna safnaða.

„Mönnum finnst ástæða til að kristin viðhorf og kristin bæn komi víðar við í ljósi þess að hin myrku öfl hafa nú gert sig gildandi í samfélaginu. Eins og nornin við stjórnarráðið, ásatrúarmenn að reisa níðstangir, dúkkur stungnar með prjónum og myndir af leiðtogum þjóðarinnar brenndar.“

Eva Hauksdóttir norn var stödd í miðjum mótmælum þegar blaðið náði tali af henni, hjá ríkissaksóknara þar sem Hörður Torfason var að leggja fram kæru. Hún lét sér hvergi bregða nema síður sé þegar hún var spurð hvernig henni litist á að vera fulltrúi hinna myrku afla í huga Gunnars.

„Þetta þykja mér góðar fréttir. Ég trúi á hið illa afl sem gerir gott. Þetta sem boðað er í bók Búlgakovs Meistaranum og Margaritu: Fulltrúi þess illa afls sem flettir ofan af spillingu og rís gegn valdníðslu. Það gleður mig að Gunnari í Krossinum og hans líkum sé uppsigað við mig. Gunnar er einhver mesti rugludallur landsins og þetta þýðir að ég er að gera eitthvað rétt,“ segir Eva norn. – jbg

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago