Ég játa á mig kæruleysi og sofandahátt gagnvart reikningum. Ég skoða þá sjaldan og véfengi þá enn sjaldnar. Ef eitthvað kemur mér spánskt fyrir sjónir (sem gerist sjaldan þar sem ég skoða reikningana mína sjaldan af því að ég hef svo sjaldan ástæðu til þess að véfengja þá) er það fyrsta sem mér dettur í hug að ég hafi gert mistök, yfirsést eitthvað eða gleymt einhverju.

Í gær skoðaði ég símareikninginn minn, aldrei þessu vant og komst þá að raun um að á hann er skráð gsm númer sem ég kannast ekkert við. Af því hef ég greitt 650 kr á mánuði mjög lengi. Ég hugsaði, pældi og þvældi en kom því ekki fyrir mig hvaða númer þetta gæti verið. Í morgun hringdi ég í þjónustuver Satans og bað um skýringu. Fékk það svar að þetta væru posanúmer, sem er rökrétt því ég sagði upp allri annarri þjónustu hjá þessu skítafyrirtæki fyrir margt löngu. Einnig fékk ég að vita að annað posanúmerið (þetta sem ég kannast ekki við) væri greinilega ekki í notkun -sem er líka rökrétt því ég er bara með einn posa, hef aldrei haft fleiri en einn posa og hef ekkert með annan að gera. Bað því um að óvirka posanúmerinu yrði lokað og mér endurgreitt það sem ég hef borgað af því. Þá var mér sagt að til þess að hægt væri að loka númerinu yrði ég að tala við VISA því síminn rukkaði eingöngu fyrir posanúmer sem kortafyrirtækin hefðu skráð hjá hans sataníska þjónustuveri. Mér finnst undarlegt að ég geti ekki lokað posanúmerinu í gegnum Símann þar sem ég þurfti ekkert að tala við VISA til að láta loka því þegar ég sagði Satni upp í október í fyrra. Kannski hafa reglurnar breytst.

Nú jæja, ég hringi í VISA. Nema hvað -númerið er ekki einu sinni á skrá hjá þeim, hvað þá að þau hafi beðið Símann að rukka mig. Strákurinn sem ég talaði við sagðist samt ætla að skoða öll gögn til að ganga úr skugga um hvort hefðu einhversstaðar orðið mistök hjá þeim.

Eina skýringin sem mér dettur í hug er sú að þegar ég flúði frá Satni þá vissi ég ekki að OgVodafone væri ekki með posaþjónustu. Neyddist því til að biðja þjónustuver þess andskota Símans að virkja posanúmerið aftur. Ég spurði hvort væri hugsanlegt að við þá breytingu hefðu orðið einhver mistök og ég væri rukkuð fyrir númer sem ég hafði sagt upp stuttu áður (vegna klúðurs hjá Símanum) en bæði Síminn og VISA aftaka það. Ég hef einu sinni lent í vandræðum með posann. Þá voru svörin hjá Símanum einmitt þau að ég skyldi bara kvarta við VISA. Svörin hjá VISA voru hinsvegar þau að líklega væri vandamálið hjá Símanum en þau skyldu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að aðstoða mig. Sem þau og gerðu. Vandamálið var hjá Símanum. Ég hef líka iðulega fengið rangar upplýsingar þar á bæ. Eitthvað hefur þjónustan samt skánað því ég er búin að hringja í þjónustuverið tvisvar í morgun og fékk í bæði skiptin samband mjög fljótlega. Meiri samkeppni takk.

Tjásur

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago