Nokkrar spurningar til séra Baldurs

Í kjölfar fréttar af íslenskum presti sem gerðist svo smekklegur að ljóstra upp gömlu fjölskylduleyndarmáli, fyrst í líkræðu og svo á blogginu sínu, hafa heitar umræður farið fram, m.a. í skotgröf DV þar sem ég, séra Baldur og fleiri hafa skipst á skoðunum um þetta sérstaka mál.

Séra Baldur lítur svo á að í þessu tilfelli hafi trúnaðarskylda ekki átt við. Einhver þurfi að tala fyrir þá sem ekki eru einfærir um að gæta hagsmuna sinna, sem munu í þessu tilfelli felast í því að ljót saga sé reifuð á internetinu. Séra Baldur virðist ekki vita að það er einmitt þessvegna sem barnaverndaryfirvöld voru fundin upp en kirkjunnar menn virðast reyndar almennt fremur illa upplýstir um muninn á verksviði geistlegra yfirvalda og veraldlegra. Séra Baldur virðist heldur ekki gera sér grein fyrir muninum á því að ræða viðkvæm mál við þá sem hugsanlega gæti komið málið við, t.d. yfirvöld og nánustu aðstandendur og því að setja það á internetið.

Þar sem séra Baldur virðist ekki sjá neitt athugavert við þetta framtak sitt, enda hafi konan ekki borið ábyrgð á ofbeldinu sjálf og það eigi því ekki að vera henni til neinnar hneisu að ræða það, langar mig að spyrja hann nánar út í stefnu sína í þessum efnum.

Kæri séra Baldur

Nú vill svo til að ég á vinkonu sem fyrir mörgum árum fór frá manninum sínum. Hann var nefnilega búinn að lemja hana svo oft og illa að hún þoldi ekki lengur við. Þetta hjónaband setti mark á hana til lífstíðar, hún hefur t.d. aldrei þorað að giftast eða fara í sambúð aftur. Nú er þetta ofbeldi vitanlega ekki hennar sök en engu að síður hefur hún kosið að ræða þetta ekki við aðra en nánustu vini sína.

Ef þú færð það verkefni að skrifa líkræðu fyrir þessa vinkonu mína og bróður hennar finnst allt í lagi að þetta komi fram, muntu þá segja kirkjugestum að vinkona þeirra hafi verið lamin eins og harðfiskur og birta svo líkræðuna á blogginu þínu?

Vinur minn varð fyrir því að kærastan hans hélt fram hjá honum með besta vini hans. Þegar hann komst að því var hún orðin ólétt. Hún fór frá honum og kenndi vininum barnið enda þótt vinur minn væri þess fullviss að hann væri pabbinn. Þetta varð honum mikið áfall, hann fór að drekka óhóflega og hefur verið fremur gæfusnauður síðan. Hann nefnir þetta aldrei við nokkurn mann og aðeins fáir vita af þessu.

Ef þú jarðar þennan vin minn muntu þá ræða þetta mál við útför hans? Og setja það svo á netið?

Önnur vinkona mín er með stómíu. Af einhverjum ástæðum er það henni mikið feimnismál en það er vegna læknamistaka sem hún þarf á þessu hjálpartæki að halda. Hún þjáist fyrir þetta og þar sem hún varð að gefa upp á bátinn glæstan feril sinn sem nærfatafyrirsæta, hefur þetta haft afgerandi áhrif á líf hennar.

Ef hún deyr og þú verður beðinn að jarða hana, mun líkræðan þá snúast um þetta slys og áhrif þess ef systur hennar finnst það viðeigandi? Muntu setja mynd af stómíunni á bloggið þitt?

Myndirðu svara einhverju ofangreindra dæma á annan hátt ef viðkomandi væri geðveikur?
Telur þú að geðsjúkdómar létti þagnarskyldu af prestum?

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago