Morfís eða málefni?

Sonur minn 17 ára fylgist með Morfís keppninni af áhuga. Það sem honum finnst svona áhugavert við þessa keppni, er það undur að til sé fólk sem þrátt fyrir að vera komið á framhaldsskólaaldur, skuli hafa þvílíkt yndi af fullkomlega tilgangslausum þrætum að það láti leiða sig út í aðra eins vitleysu og þá að keppa um það hvort liðið sé færara í þeirri list að fá fólk til að greiða atkvæði með „málefnum“ sem jafnvel ræðumaðurinn sjálfur telur röng og skaðleg.

Honum finnst ekki síður merkilegt að fólk greiði ræðumanni atkvæði, jafnvel þótt það sé ósammála því sem hann segir, bara vegna þess hve vel hann kemur fyrir sig orði.

Syni mínum, 17 ára, finnst það í raun stórfurðulegt að halda uppi ástríðufullri umræðu, ekki í þeim tilgangi að komast að sameiginlegri niðurstöðu, kynnast skoðunum annarra eða sannfæra einhvern um sín eigin viðhorf, heldur eingöngu til að vinna.Í gær kom hann heim og sagði mér að hann hefði malað vinkonu sína í rökræðum.

-Og hvað voruð þig að rökræða, spurði ég.

-Við vorum að rökræða það hvort okkar hefði rangt fyrir sér, svaraði hann. Þetta fannst honum bráðfyndið þrætuepli.

Mér verður hugsað til Morfís keppninnar þegar ég sé hér á annálnum, samræður fullorðins fólks sem virðist ekki hafa sérstakan áhuga á að kynnast hugsunargangi og skoðunum viðmælenda sinna og veit mæta vel að það er tilgangslaust að reyna að fá þá á aðra skoðun. Tilgangurinn virðist hvorki vera sá að koma skoðunum áleiðis, né kynna sér skoðanir annarra, heldur eins og í Morfís keppninni að vinna. Ég hélt að ég sjálf hefði ríflega meðalslatta af þrætugirni en það gengur gjörsamlega fram af mér að sjá þennan síendurtekna sandkassaleik hjá fullorðnu fólki. Og það væri nú kannski allt í lagi ef menn væru að þræta um ný og ný málefni en þegar þræturnar eru endalaust tilbrigði við sama stefið; trú og trúleysi, fer maður að velta því fyrir sér hvort hlutaðeigandi séu fremur innblásnir af heilögum eldmóði eða bara ósköp venjulegir vitleysingar.

 

 

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

55 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

55 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

55 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

55 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

55 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

55 ár ago