Mikið tala menn þessa dagana um friðsamleg mótmæli og eiga þá venjulega við fundi þar sem fámennur hópur skipuleggur dagskrá og setur fjölanum reglur um það hvernig hann eigi að hugsa og hegða sér. Þeir sem ganga lengra en að klappa á réttum stöðum og hugsanlega halda ræðu þar sem réttar skoðanir eru settar fram af ákveðni, sem þó er ekki fylgt eftir með gjörðum, eru þar með andstæðingar hinna friðsömu.

Aðgerðasinnar, fólkið sem trúir því ekki að árangur náist með því að horfa á Alþingishúsið eða skamma ráðamenn í fjarveru þeirra, fólkið sem hefur hugrekki og frumkvæði til að raska ró þeirra sem verið er að mótmæla, hljóta þar með að vera ófriðarsinnar og ofbeldismenn. Tekið skal fram að aldrei hafa aðgerðasinnar fordæmt hefðbundna mótmælafundi, heldur mæta þeir í stórum hópum á Austurvöll á laugardögum, þrátt fyrir að þar sé ekkert nýtt að heyra, til þess eins að sýna samstöðu. Það er hálf sorglegt að talsmaður fjöldans skuli hafa það í sér að fordæma aðgerðir annarra, ég hefði haldið að það ætti bara að vera nóg fyrir hann að reyna að stjórna 7000 manns sem vilja láta stjórna sér og láta þessar 300 hræður, sem vilja það ekki, í friði.

Ég hef ríflega 40 ára reynslu af því að vera jaðarmanneskja. Eða eins og margir myndu kalla það ‘öfgamaður’, ‘geðsjúklingur’ eða ‘stór furðuleg’. Það er auðvitað ekkert normalt við það að spyrja óþægilegra spurninga eða gera það sem aðrir láta sér nægja að hugsa. Ég get alveg fullvissað ykkur um að það getur tekið á taugarnar að hafa skoðanir sem meðaljóninn hefur ekki velt fyrir sér og athyglin sem undarleg viðhorf og uppátæki hafa í för með sér getur bæði orðið óþægileg og eins er hætt við að sérstakur karakter fái meiri athygli en skoðanir hans og gjörðir.

Ástæðurnar fyrir því að margir aðgerðasinnar hylja andlit sitt við mótmælaaðgerðir eru tvær:

  1. Þeir vilja ekki persónugera skoðanir eða aðgerðir. Þeir vilja ekki að fólk líti á þá sem leiðtoga eða hlusti ekki á það sem þeir hafa að segja af því að þeir séu ekki í réttum búningi. Þeir vilja líka vera lausir við bögg eins og hótunarsímtöl og rúðubrot.
  2. Þeir vilja geta ögrað ramma laganna í baráttu sinni gegn valdhöfum sem hafa allan rétt sín megin, hversu illa sem þeir misbeita valdi sínu, án þess að það leiði í öllum tilvikum til þess að þeir verði handteknir og hugsanlega barðir.

Nú reynir sá góði maður Hörður Torfason að fá aðgerðasinna sem bera grímur til að taka þær niður. Ég veit að það er af góðum hug. Hörður er að reyna að afla sinni ópólitísku byltingu (hvað sem það nú er; nýtt fyrirbæri í mannkynssögunni) fjöldafylgis, og hann telur að meintir ofbeldismenn hindri fólk í að lufsast niður á Austurvöll til að hlusta á endalaust tilbrigði við sömu ræðuna.

Ég segi nú bara, ef fólk er svo hrætt við almenningsálitið að það getur ekki látið sjá sig á Austurvelli af ótta við að einhver haldi að það sé sérlegir stuðningsmenn grjótkasts og skemmdarverka, þá er lítið gagn í því að hafa slíkt fólk í liði með sér. En ég hef náttúrulega aðra sýn á pólitík en Hörður, og ég hef ekki trú á því að fólk sem er svo vitlaust að halda sig heima á þeirri forsendu, kjósi yfir okkur hæft fólk og skynsamlega stjórnarhætti hvort sem er. Mig grunar líka að Hörður hafi orðið fyrir miklu skítkasti vegna aðgerða aktivista og jafnvel vegna þessa steins sem á að hafa lostið lögreglumann á gamlaársdag og sé að reyna að bregðast við af ‘ábyrgð’.

Annar augljós hvati að ósk Harðar er ótti um að eftir því sem fleiri bera grímu, því auðveldara verði að fremja ofbeldisglæpi og komast upp með það. Ég skil þann ótta en rökin eru slæm. Þetta er alveg eins og að segja að menn ættu ekki að aka mótorhjólum með hjálm á hausnum af því að þá geti glæpamenn sem einnig eru á hjólum blandað sér í hóp þeirra og framið glæpi í skjóli búningsins.

Hörður er ekki, frekar en ég, þú eða nokkur annar einstaklingur, fulltrúi þjóðarinnar. Fólk sem stendur í pólitísku andófi er ekki ráðið eða kjörið til þess. Mótmælendur eru ekki fulltrúar neins nema sjálfs sín og bera ekki ábyrgð á neinum nema sjálfum sér. Hörður Torfason hefur ekkert vald yfir öðru fólki og þ.a.l. ber hann enga ábyrgð á hegðun þess heldur. Hörður Torfason getur ekki gefið skipanir, og því getur hann ekki komið í veg fyrir að óeirðir brjótist út, hversu mikið sem hann finnur til ábyrgðarkenndar.

Hörður hefur sennilega ekki hugsað út í það að um leið og hann biður aðgerðasinna að taka niður grímuna, er hann að biðja þá að setja sjálfa sig í þá aðstöðu að geta aldrei tekið áhættu á að vera einir á ferð í myrki. Hann hugsar líklega ekki út í það að grímulausir aktivistar geta þurft að leyna dvalarstað sínum og símanúmeri. Mér finnst það með ólíkindum þar sem ég veit að Hörður sjálfur, sem þó hefur ekki gengið fram af nokkrum manni með harklegum aðgerðum eða öfgakenndum skoðunum, hefur oft orðið fyrir ónæði af völdum vitleysinga.

Hörður hefur sennilega ekki hugsað út í það heldur að eftir því sem aðgerðir verða róttækari, því eðlilegri verður hugmyndin um að standa með skilti á Austurvelli (ja eða regnhlíf) en það er ekki langt síðan það þótti bara kjánalegt.

Aðgerðasinnar munu ekki taka niður grímurnar. Það er engin ástæða til þess. Þvert á móti ættu allir sem styðja aðgerðir þeirra að verða sér úti um dökka peysu og góðan klút eða lambhússhettu til að bera á mótmælum, bara til að sýna samstöðu, enda þótt þeir ætli sér ekki að gera neitt sem gæti verið á gráu svæði.

Annars langar mig að lýsa eftir vitnum og sönnunum fyrir atriðum sem mér finnst undarlegt hvað lítið heyrist um.

Voru einhver vitni að því þegar mótmælendur við Hótel Borg veittust að hagfræðingi Seðlabankans og bróður hans á gamlaársdag?

Eru til einhverjar myndir af öllu þessu slasaða starfsfólki Stöðvar 2 sem Sigmundur Ernir talaði um? Eða var það kannski jafn mikið slasað og myndavélarnar?

Sá einhver mann eða konu kasta múrsteini í andlit lögreglumanns? Eru til myndir af því atviki? Eru til myndir af áverkanum?

Ég tek fram að ég hef samúð með hverjum þeim sem verður fyrir líkamsárás og aldrei hef ég mælt grjókasti bót. En mér finnst einkennilegt hvað lítið hefur heyrst um þetta mál og að mér læðist sá grunur að fleira hangi á spýtunni.

Er hugsanlegt að grjótkastið tengist pólitík ekkert eða lítið? Átti grjótkastarinn eitthvað sökótt við umræddan lögreglumann (ekki svo að skilja að það réttlæti neitt, ég er bara að leita skýringa)? Veit löggan eða einhver fjölmiðlamaður hver kastaði steininum en hefur hagsmuni af því að halda því leyndu? Var múrsteinninn moldarköggull? Mig langar mikið að vita þetta allt.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago