Síðustu nótt gerðist það, í fyrsta sinn á þessari öld, (eða það ætla ég að vona) að lögreglan í Hafnarfirði hafði afskipti af galdraiðkunum. Það var sonur minn Byltingin sem komst í kastið lögin eða öllu heldur verði laganna því hann var ekki að gera neitt ólöglegt.

Hann ætlaði að nýta þessa fyrstu tunglfyllingu eftir vorjafndægur til að kasta auðgunargaldri og kom sér þægilega fyrir á auðu bílaplani. Mjög lítil umferð var um bæinn og veitingahús í nágrenninu lokað. Hann var ekki drukkinn. Ekki nakinn. Ekki með grímu. Hann kveiki ekki eld. Hann gólaði ekki, dansaði ekki eða hafði yfirhöfuð í frammi nokkurt það athæfi sem með góðum vilja mætti flokka sem óspektir.

Galdurinn fór þannig fram að hann sat á bílaplaninu og raðaði í kringum sig smásteinum. Við þessa iðju var hann ónáðaður, ekki af einum, heldur fjórum lögregluþjónum. Lögreglunni hafði borist ábending um mann sem hefði í frammi „óvenjulegt háttarlag“ og þótti það víst nógu alvarlegt til að senda tvo lögreglubíla á staðinn.

Látum það vera. Kannski hefur tilkynnandinn haldið að hann væri að hluta sundur lík. Það ótrúlega er að þegar minn maður gaf þá skýringu á veru sinni á bílaplaninu að hann væri að fremja auðgunargaldur, var hann beðinn um skilríki og símanúmer, auk þess sem hann var spurður hvort hann væri ekki í andlegu jafnvægi.

Fyrir nokkrum mánuðum var 15 ára telpa í fóstri hjá mér í Hafnarfirði. Hún var í fíkniefnaneyslu og á afbrotabraut. Hún fór á vergang, hafðist við meðal misyndismanna og ógæfufólks og neitaði að gefa upp dvalarstað sinn. Í heila viku stóð ég í stríði til að reyna að fá lögregluna til að leita að henni eða a.m.k. að auglýsa eftir henni. Málið var ekki talið nógu alvarlegt til að sóa tíma lögreglunnar í slíkan tittlingaskít, enda taldi barnaverndarnefnd ekki að hún væri í lífshættu. (E.t.v. þyrfi barnavernarnefnd Hafnarfjarðar að fá fræðslu um afleiðingar óhóflegar fíkniefnaneyslu.)

Þessu máli sá lögreglan í Hafnarfiði ekki ástæðu til að skipta sér af, en ef fréttist af ungmenni að leika sér að smásteinum á almannafæri, þá eru tveir bílar sendir á staðinn?

Er þetta eðlileg forgangsröð? Er eðlilegt að lögreglan hafi afskipti af allri hegðun sem víkur frá norminu? Eru í gildi einhver lög gegn sérvisku?

Þess má geta að Haukur hefur áður komið við sögu lögreglunnar. Aldrei vegna ofbeldis, skemmdarverka, þjófnaðar, meðferðar vímuefna eða nokkurs annars sem lög mæla gegn. Öll hin skiptin sem lögreglan hefur ónáðað Hauk, var það vegna þátttöku hans í friðsamlegum mótmælum umhverfisverndarsinna gegn stóriðjustefnunni. Lögreglumenn hafa gramsað í vösum hans. Engin vopn hafa fundist á honum, engin fíkniefni eða neitt vafasamt en einhverju sinni var penninn hans gerður upptækur án skýringa.

Eftir reynslu fjölskyldunnar af lögreglunni síðusta árið, læðist æ oftar að mér grunur um að raunverulegur tilgangur lögreglunnar sé ekki fyrst og fremst sá að vernda hinn almenna borgara, heldur fremur sá að halda í skefjum fólki með hugmyndir sem ekki eru stjórnvöldum að skapi.

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago