Ríkissaksóknari vísaði máli Egils Einarssonar frá og þar sem almenningur veit ekki rassgat um málið þjónar kannski litlum tilgangi að velta fyrir sér réttmæti þessarar frávísunar. Í morgun sá ég umræður á DV (ég sé þær ekki lengur svo DV hefur væntanlega afmáð ummælin) þar sem m.a. kom fram að þótt málið væri ekki metið ákæruhæft bæri ekki að skilja það svo að ekkert refsivert hefði komið fram, það væri bara ekki nóg til sakfellingar. Mér finnst þetta einkennileg hugmynd. Ef sönnun um eitthvað refsivert finnst, þá dugar hún væntanlega til sakfellingar eða hvað?

Nú hafa fjölmiðlar ekki aðgang að rökstuðningi ríkissaksóknara fyrir þessari niðurstöðu en það kemur ekki í veg fyrir umræðu. Í augnablikinu snýst umræðan að verulegu leyti um væntanleg meiðyrðamál, enda þótt Egill hafi mér vitanlega aldrei nefnt opinberlega að hann sé að íhuga meiðyrðamál (fram hefur komið að hann vilji kæra stúlkuna fyrir rangar sakargiftir og óska eftir rannsókn á tildrögum kærunnar en almenningur veit ekkert meira um hans plön varðandi meiðyrðamál en um það á hvaða gögnum ríkissaksóknari byggir frávísun) og fólk grípur feginshendi stórfurðulega sögu hrútleiðinlegs rithöfundar af fermingarbarni í Grindavík. Ef ekki liggja fyrir nægar upplýsingar til að hægt sé að hneykslast á Agli, stúlkunni eða ríkissaksóknara, þá er allavega hægt að ræða soratrantinn á Guðbergi.

Í öllu fárinu yfir dómstól götunnar, nauðganasamþykki réttarkerfisins og elliglöpum Guðbergs, týnist ein lítil yfirlýsing. Yfirlýsing sem þrátt fyrir að vera svo lágstemmd að maður fær á tilfinninguna að viðmælandinn hafi svona tautað ofan í bringuna á sér, æpir hreinlega á mann þegar maður áttar sig á því að munurinn á því hvernig hún var raunverulega orðuð og því hvernig Smugan segir frá henni skiptir máli. Þannig segir Smugan að lögmaður stúlkunnar hafi búist við ákæru. Það sem hann raunverulega sagði var hinsvegar: „Auðvitað hafði maður kannski reiknað með að það yrði ákært“.

Á yfirborðinu virðist ekki mikill munur á því að búast við ákæru og að reikna kannski með henni. En við erum að tala um lögmann kæranda. Og sá lögmaður virðist alls ekki rasandi hneykslaður eða yfir sig bit á þessari niðurstöðu. Hann nefnir ekki fjölda sönnunargagna. Hann segir ekki að þessi niðurstaða sé óskiljanleg, einkennileg eða mikil vonbrigði, nei hann „hafði kannski reiknað með að það yrði ákært.“

Og nú læðist að mér grunur um að lögmaðurinn lágstemmdi hafi hreint ekki reiknað með því.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago