Kennum börnum að nota tarotspil

Uppeldishlutverk grunnskólans verður æ mikilvægara og sífellt fleiri námsgreinar eru teknar upp. Það hlýtur að teljast undarlegt í meira lagi að enn hefur ekki frést af neinum áformum um að kenna spádómslist tarotpilanna í skólum landins. Ég hef spurt fjölda manns hvað þeim finnist um þá hugmynd að kenna tarot í skólum og mér til undrunar eru viðbrögðin á einn veg; fólk álítur að fé skattgreiðenda væri betur varið til þess að kenna eitthvað hagnýtt, t.d. fjármálastjórnun, og hefur auk þess áhyggjur af því að námsgreinar á borð við tarot feli í sér innrætingu siðferðisgilda og trúarlegra hugmynda sem börn eigi fyrst og fremst að kynnast heima hjá sér og eigi jafnvel ekki erindi við börn.

Sjálfri finnst mér sjálfsagt mál að verja fé og tíma til þess að kenna skólabörnum að þekkja og nota tarotspil til spásagna. Margvísleg rök liggja þar að baki.

Tarotspilin eru vinsælasta spádómakerfi í heimi og þau hafa sögulega sérstöðu gagnvart annarri spásagnahefð. Fjöldi manns hefur fundið huggun í þeim á erfiðum stundum og tarotspáfólk sem starfar um allt land, gegnir hlutverki sálfræðings í lífi fjölmargra. Tarotspilin og sú speki sem býr að baki þeim hefur haft gífurleg áhrif á hugsun, viðhorf og jafnvel breytni fólks, auk þess sem myndmál þeirra og þær goðsagnir sem þau sýna (og spákonan eða spámaðurinn túlkar með tilliti til spyrjandans), eru sígilt viðfangsefni myndlistarmanna og rithöfunda.

Tilgangurinn með því að kenna notkun tarotspila í skólum yrði auðvitað fyrst og fremst fræðilegs eðlis en alls ekki trúarlegs. Börnin fengju sjálf að ráða því hvort þau tækju mark á spádómunum og nýttu sér þá í daglegu lífi. Ef börn yrðu gerð læs á myndmál tarotspilanna myndu þau skilja betur alla þá listsköpun, stjórnmálaumræðu, trúarumræðu og almennt tungutak sem sækir með beinum eða óbeinum hætti til trúarlegs bakgrunns, siðferðis, myndmáls og goðsagna spilanna. Það hjálpar þeim einnig að mynda sér trúarskoðun og velja spádómskerfi sem hentar þeim.

Þar sem tarotspilin boða í raun ákveðin siðferðisleg viðmið og ganga út frá því að kærleiksríkt lífsviðhorf eigi að móta allar gjörðir mannsins er börnum ekki annað en hollt að kynnast þeim viðhorfum og fara að þeim ráðum sem spilin gefa hverju sinni.

Þar sem trúfrelsi og skoðanafrelsi ríkir í landinu er engin hætta á því að tarotspil yrðu misnotuð til þess að koma inn ranghugmyndum hjá börnum, kúga þau eða stýra afstöðu þeirra til spádóma.

Þessi rök eru mjög svo í takt við þau rök sem liggja að baki því að kristindómur (ekki aðeins kristnifræði) er kennd í skólum, sjá t.d. hér . Því þá ekki alveg eins tarot?

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago