Innflytjendamýta 1 – menningarblöndum leiðir til vandamála

Sú innflytjendamýta sem ég verð mest vör við eru hin viðteknu sannindi:
Innflytjendavandamál skapast þegar ólíkri menningu er blandað saman.

Það er alveg sama hversu oft við tyggjum þessa klisju, þetta er einfaldlega rangt. Innflytjendavandamál skapast fyrst og fremst þegar fólk með ólíkan menningarbakgrunn býr við aðskilnaðarstefnu. Auðvitað væri hægt að skauta fram hjá þeim verkefnum sem skapast við innflutning fólks sem ólíkan menningarbakgrunn með því að hleypa einfaldlega engum útlendingum inn í landið en þar sem það er hvorki raunhæft né réttlátt, stendur valið á milli menningarblöndunar og aðskilnaðarstefnu.

Hvarvetna þar sem aðskilnaðarstefnu er framfylgt með valdboði, eru afleiðingarnar langvarandi stríðsástand, ofbeldi og hatur en jafnvel þótt aðskilnaðarstefna sé ekki opinber getur auðveldlega skapast ástand sem hefur öll einkenni aðskilnaðarstefnu. Þegar það gerist búa tvær eða fleiri þjóðir í landinu. Minnihlutanum er gert erfitt fyrir á allan hátt, hver menningarhópur finnur sig knúinn til að styrkja sjálfsmynd sína með því að dauðhalda í sérkenni sín og berjast fyrir hagsmunum sínum með öllum ráðum. Gagnkvæm fjandsemi verður til þess að menningarblöndun verður lítil en átök mikil. Í slíku landi búa mörg samfélög á sama svæði og aðskilnaðarstefnan kemur fram í hugmyndinni „við“ og „hinir“ fremur en lögbundinni undirokun. Þetta er alger andstæða við fjölmenningarsamfélag.

Fjölmenningarsamfélag einkennist ekki af köldu stríði og þrúgandi umburðarlyndi, heldur af gagnkvæmri tillitssemi, frjálslegum og kurteislegum samskiptum ólíkra hópa og þátttöku ólíkra hópa í menningu hvers annars. Slíku samfélagi verður ekki komið á með því að taka á móti innflytjendum með tortryggni og ótta og skamma þá fyrir að vera öðruvísi, heldur með því að bjóða þá velkomna.

Þegar maður lýsir þessari skoðun fær maður gjarnan svar á borð við:
-Já en menningu okkar stafar hætta af muslimum og öðru fólki með ólíkan menningarbakgrunn.

Afsakið en hvað er íslensk menning og hvaða áhrif hafa valdið mestum breytingum á henni á undanförnum árum? Hafa menn svona miklar áhyggjur af því að Íslendingar fari að borða hummus í staðinn fyrir lifrarpylsu? Eða er meiri hætta á að við munum borða meiri hummus og færri pizzur? Borðum við svona mikið af pizzum vegna ágangs ítalskra innflytjenda? Er hættan sú að í stað íslenskrar harmónikkutónlistar muni taílesk tónlist glymja í útvarpi? Eða eru útvarpstöðvar kannski löngu farnar að spila bandaríska og breska popptónlist í stað íslenskrar harmónikkutónlistar? (Sem er reyndar álíka íslensk og vínarbrauð, byggingarstíll ráðhússins og Nike skór.)

Nei auðvitað stafar íslenskri menningu engin hætta af austurlenskum matsölustöðum eða fólki með viskustykki á hausnum. Ekki frekar en amerískum kvikmyndum eða franskri handsnyrtingu. Menningin þróast, blandast og breytist, við ráðum ekki við það á tímum fjölmiðlafrelsis og falafel vagn á Lækjartorgi drepur sviðasultuna ekki frekar en hamborgarinn.

Þetta er nú bara almenn skynsemi er það ekki? en ponkulitli rasistinn innra með okkur hefur svar á reiðum höndum;
-Jújú, við verðum náttúrulega fyrir áhrifum annarsstaðar frá en það er annað að fá fólk inn í samfélagið en að hlusta á tónlist eða spila tölvuleiki. Vandamálið er að þetta fólk vill bara ekkert aðlagast vestrænu samfélagi svo það verða stöðug átök þessvegna.
Síðan koma sögur af einhverjum Tyrkjakerlingum sem eftir 20 ára búsetu í Danmörku fara varla út úr húsi og eru enn að fylgjast með tyrknesku sjónvarpsefni, muslimi sem vilja ekki að dætur þeirra stundi sundlaugarnar eða kínverskum innflytjendum sem fást ekki til að kalla bandarískan kærasta dóttur sinnar gælunafni. (Já og öll þessi sæmdarmorð, það er náttúrulega það sem menn óttast. Íslensk menning er í stórhættu vegna þess að muslimir munu ala yngri kynslóðina upp í þeirri trú að sæmdarmorð séu góð hugmynd? Drepið mig ekki með ruglinu. Ég mun skrifa meira um sæmdarmorðamýtuna síðar.)

Ég játa. Ég hef búið í Danmörku í rúm tvö ár. Menningin er nánast sú sama og á Íslandi og ég flutti þangað af sjálfsdáðum. Engu að síður hef ég fylgst mun meira með íslenskum fréttum en dönskum á þessum tíma. Ég hélt áramótin hátíðleg með fjölskyldu systur minnar og við borðuðum ekki grænkálsjafning og við horfðum ekki á áramótaávarp drottningarinnar heldur héldum við íslensk áramót. Ég finn enga þörf fyrir að borða rúgbrauð með spægipylsu daglega og ég mun aldrei skreyta heimili mitt með pappaflöggum á afmælinu mínu. Og hvað með það? Hverjum kemur það við? Er ég að skaða Dani eða danska menningu með því að vera Íslendingur í Danmörku?

Sannleikurinn er sá að margir innflytjendur hafa ekki flust til nýja landsins af einskærum áhuga, heldur vegna erfiðleika í heimalandinu. Margir koma hálfnauðugir og konur frá íhaldssamari menningarsvæðum hafa stundum ekkert verið spurðar álits á þeirri ákvörðun. Jafnvel fólk sem flytur af áhuga hefur þörf fyrir að halda í sínar venjur og tungumál og það er hvorki raunhæft né sanngjarnt að ætlast til þess að Pólverji hætti að vera pólskur við það að flytja til Norðurlanda.

Það er auðvitað hægt að gera ákveðnar kröfur til innflytjenda en við getum vel boðið fólk velkomið þótt við höfnum sharía lögunum og öðrum venjum sem brjóta í bága við siðferðishugmyndir okkar. Þær kröfur sem við getum gert til innflytjenda og ættum að gera, er að þeir virði lög nýja landsins (að svo miklu leyti sem þau standast mannréttindi en sú er ekki alltaf raunin) og taki tillit til þeirra menningarþátta sem snerta heimamenn beint. Að öðru leyti ættum við að leggja áherslu á menningarblöndun, fremur en aðlögun innflytjenda. Það er hægt að ætlast til þess af Indverjum að þeir stilli sig um að prútta í íslenskum verslunum (þar sem það snertir okkur beint) en okkur kemur yfirleitt ekkert meira við hvernig þeir haga lífi sínu en það hvort hún Sigga í næsta húsi þvær gardínurnar fyrir jólin eður ei. Við getum hinsvegar gert sambúðina ánægjulegri með því að líta á það sem skemmtilega viðbót við menningarlífið þegar þeir opna matsölustað eða bjóða upp á námskeið í magadansi.

Jú, það væri nú kannski alveg hægt að búa í sátt við nágranna sína þótt þeir hafi sérviskulegan smekk og fínt að fá fleiri veitingastaði en ponkuliti rasistinn er enn ekki viss og slær nú út næsta trompi:
-Sko flestir þeirra vilja ekki einu sinni læra tungumálið og það er ekkert hægt að bjóða sjúklingum og gamalmennum upp á það að enginn sem sinnir þeim tali íslensku.

E-hemmm… Það er einfaldlega ekki rétt að innflytjendur vilji ekki læra tungumálið. Í flestum Evrópuríkjum og í Ameríku er málleysi ein helsta ástæða þess að innflytjendur fá ekki vinnu í samræmi við menntun sína svo það er mikið hagsmunamál fyrir þá að læra málið. Meira en 75% innflytjenda í Bandaríkjunum tala góða ensku eftir 10 ára dvöl í landinu (nánari upplýsingar hér og hér) þrátt fyrir að á mörgum stöðum séu kynþáttaátök stórt vandamál og eftirspurn eftir enskunámi eykst stöðugt. Ég hef ekki tölur um íslenskukunnáttu en ég þekki þó nokkur dæmi um að fólk sem kom til landsins með enskukunnáttu sem nægði ekki einu sinni til að bjarga sér í búðum, hafi á fáum árum lært góða ensku en sáralitla íslensku. Ástæðan er ekki sú að útlendingar vilji ekki læra íslensku, heldur sú að Íslendingar telja víst að enska sé á einhvern hátt eðlilegra mál en íslenskan og grípa strax til ensku þegar þeir tala við útlendinga, jafnvel þegar viðkomandi útlendingur kann ekki ensku.

Til þess að útlendingar læri íslensku þarf tvennt að gerast:
-Það þarf að bjóða þeim upp á íslenskunámskeið sér að kostnaðarlausu um leið og þeir koma til landins, en ekki eftir að þeir eru búnir að eyða mörgum mánuðum í að læra ensku. Auk þess þurfa námskeiðin að standa til boða á þeim tíma dags að fólk geti sótt þau.
-Íslendingar þurfa að nenna að leggja það á sig að tala íslensku við fólk sem er rétt að byrja að læra hana í stað þess að grípa alltaf til enskunnar.

Auk þess þurfum við að tileinka okkur þann hugsunarhátt að tilgangurinn með því að kenna útlendingum íslensku sé sá að auðvelda samskipti en ekki að gera útlendinginn þóknanlegri. Þetta á reyndar ekki aðeins við um tungumálið heldur einnig önnur önnur svið menningarinnar. Við ættum að kenna útlendingum íslenskar venjur með því hugarfari að auðvelda samskipti en ekki því að við séum að kenna þeim að hegða sér „rétt“. Við þurfum að hætta að tala um að útlendingar eigi að „aðlagast“ en skiptast frekar á hugmyndum um það hvernig hægt sé að auðvelda menningarblöndun. Já og fyrir alla muni gætum þess að bjóða innflytjendum til umræðunnar, tölum við þau en ekki um þau.

Nema náttúrlega ef við viljum endilega stríð. Þá skulum við reka aðskilnaðarstefnu og halda áfram að reyna að ala útlendinga upp gegn vilja sínum.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago