Hvert ætlar þú að hringja ef einhver ógnar þér?

Það stendur ekki á lögreglunni að handtaka fólk og yfirheyra þegar glæponarnir þvælast fyrir verktökum í Gálgahrauni eða fara í taugarnar á starfsmönnum Bandaríska sendiráðsins. Það stendur ekki á þeim þegar fréttist af hálfu grammi af hassi einhversstaðar, þá er rokið til -sérsveitin send á staðinn og húsleit gerð og ekki endilega beðið dómsúrskurðar.

En þegar almennir borgarar búa við ofsóknir ofbeldismanna, þá verðum við lítið vör við áhuga lögreglunnar á málinu. Jafnvel þegar stórhættulegur maður hefur mörg hundruð sinnum brotið nálgunarbann og til eru feykinógar sannanir fyrir því, þá aðhefst lögreglan ekki. Líklega eru þeir of uppteknir við að ganga um götur og hnusa eftir kannabisplöntum.

Mál konunnar á Þórshöfn sem fjallað var um í Kastljósinu í gær er að því leyti sjokkerandi að það sýnir glögglega að lítil takmörk eru fyrir því hversu langvinnar ofsóknir eru umbornar. En því miður er það ekki einstakt að lögreglan skipti sér ekki af hótunum. Ég þekki þó nokkuð mörg mál þar sem almennir borgarar hafa lagt fram myndir, sms og önnur gögn sem sýna svo ekki verður um villst að þeir hafa góðar ástæður til að óttast um öryggi sitt. Svörin eru ávallt á þá leið að þar sem ekkert ofbeldi hafi átt sér stað sé ekkert hægt að gera. Það er auðvitað helber lygi því samkvæmt 233. grein almennra hegningarlaga eru hótanir sem eru til þess fallnar að vekja ótta, refsiverðar í sjálfu sér.

 233. gr. Hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum …1)eða fangelsi allt að 2 árum.

Í máli Ásdísar Viðarsdóttur á ekki aðeins þessi grein við heldur 232. grein líka:

232. gr. [Ef maður brýtur gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að 2 árum.]1)

En auðvitað þýðir ekkert fyrir blaðamenn að reyna að ganga á eftir svörum. Yfirvaldið getur nefnilega alltaf skýlt sér bak við það að starfsmenn opinberra stofnana geti ekki tjáð sig um einstök mál.

Þegar ég gagnrýni lögregluna bregst það varla að einhver hugsuðurinn spyr „í hvern muntu hringja ef einhver ætlar að meiða þig eða drepa?“
Og mitt svar er: Að minnsta kosti ekki lögregluna því það er fullkomlega tilgangslaust.

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago