Nú er ríkisstjórnin búin að lofa því að ég muni greiða skuldir einhverra labbakúta sem tóku lán fyrir kampavíni og einkaþotum. Svo ætlar ríkisstjórnin að klóra yfir sitt eigið fjármálaklúður og Seðlabankans með því að taka fleiri lán sem ég á líka að borga. ÉG, sem á enga einkaþotu og ekki einu sinni eitt lítið dagblað, hvað þá fjölmiðlasamsteypu, á semsagt að borga rúmar 4,5 milljónir miðað við gengið í dag, vegna fjárhættuspils manna sem ég ber enga ábyrgð á. Synir mínir, sem 8 ára gamlir kunnu að spara með því að skoða kílóverð á osti og kjöti og eru búnir að tapa stórum hluta af sparifé sínu, vegna hagstjórnar Geirs Haarde, hagfræðings, eiga líka að taka á sig rúmar 4,5 milljónir hvor.

 

Ekki nóg með að við; foreldrar, börn, afar og ömmur, sitjum uppi með skuldir þessa spillingarliðs, heldur vorum það líka við sem stóðum straum af kostnaði við rekstur fjármálaeftirlits, seðlabanka og alþingis. Og jújú minnihlutinn ber líka ábyrgð, þetta fólk er í fullri vinnu við að sinna aðhaldi og eftirliti með gloríum ríkisstjórnarinnar.

Nú hefur þessi sama ríkisstjórn kynnt stórkostlegar björgunaraðgerðir til að koma í veg fyrir að stór hluti þjóðarinnar lendi á vergangi. Að vísu felst hjálpin að vanda í því að auka skuldasöfnun og auk þess á aðeins að hjálpa þeim sem eru ekki komnir í vandræði ennþá!

Einhverntíma um daginn las ég ósköp fallegan bloggpistil um nauðsyn þess að hjálpast að á erfiðum tímum. Ég get tekið undir það sjónarmið. Ég er hinsvegar ekki sammála höfundi um að samhjálpin eigi að felast í því að hlaupa undir bagga með þeim sem eiga ekki fyrir afborgunum af lánunum sínum. Í fyrsta lagi þá er það bjarnargreiði að lána fólki peninga sem það sér ekki fram á að geta endurgreitt og það hefur lagt margar fjölskyldur og vinasambönd í rúst. Að gefa fólki peninga er ekki hótinu skárra því sá sem þiggur ölmusu hefur alltaf á tilfinningunni að hinn aðilinn eigi eitthvað inni hjá honum. Þar fyrir utan þá eru of margir sem sjá sjálfir fram á að lenda í fjárhagsvandræðum, til að raunhæft sé að veita vinum og ættingjum vaxtalaus lán.

Það er til miklu betri leið til að standa með þeim sem eru að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna þeirrar glórulausu hagstjórnar sem hefur komið okkur í þessar ógöngur. Leið sem auk þess er öflug mótmælaaðgerð, án nokkurrar hættu á meiðslum, eignatjóni eða handtökum. Það eina sem við þurfum að gera er að sameinast um að hætta að borga.

Hættum, öll sem eitt að greiða af húsnæðislánum, námslánum og öllum öðrum skuldum við ríki og banka. Allsherjar greiðslustræk ætti að sannfæra ríkisstjórnina um að við sættum okkur ekki við að nokkrir leynimakkarar ákveði einhliða að almennir borgarar taki að sér að greiða skuldir sem þeir hafa ekki ábyrgst og hefðu fæstir samþykkt og víst er að ráðamönnum þykir mun óþægilegra að fá öngva aura en að frétta af þúsundum manna sem mæta á Austurvöll og frábiðja sér meiri spillingu af stökustu kurteisi.

Við erum ríkið og við höfum ekki samþykkt að greiða skaðann vegna Icesave og við höfum heldur ekki samþykkt að taka margra milljarða lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, Rússum, Pólverjum eða neinum öðrum. Við ákváðum ekki ósiðlega há laun bankastjóra. Við höfum ekki samþykkt að bæta 4,5 milljónum við skuldahala hvers einasta mannsbarns í landinu. Við höfum ekki samþykkt hækkun stýrivaxta, verðtryggingu á öll útlán eða það að fólki sem er þegar komið í vandræði verði neitað um aðstoð. Fáir Íslendingar eiga skuldlaust húsnæði og þeir sem eiga það eru flestir með einhverjar aðrar skuldir í bönkum. Það er hægt að kúga einstaklinga, en það er ekki hægt að bera 300.000 manns út af heimilum sínum og gera meirihluta þjóðarinnar gjaldþrota.

Við getum ekki borgað skuldir allra sem eru í vandræðum. Ekki frekar en að við ráðum við að borga skuldir auðmanna. En við getum sýnt samstöðu okkar með því að borga ekki og við getum líka knúið fram hverjar þær aðgerðir sem okkur bara sýnist, með því að sameinast um að borga ekki krónu fyrr en hlustað hefur verið á kröfur okkar. Kröfur um að seðlabankastjóri víki, að fjármálaeftirlitið víki, að ríkisstjórnin víki og að allt þetta fólk, auk útrásarvíkinganna sjálfra, verði látið axla ábyrgð á afglöpum sínum og spillingu.

Hættum að borga og krefjumst réttlætis. Krefjumst þess að í stað þess að grafa undan láglaunafólki með svokallaðri greiðslujöfnunarvísitölu, verði laun bankastjóra og ráðherra lækkuð verulega, þingmönnum fækkað og kjör þeirra skert, sendiráð víðast hvar lögð niður, allt bruðl-að-geðþótta-ráðherra-fé tekið af ráðuneytum og allt sem kallast risna á vegum hins opinbera afnumið.

Hvort sem við erum í fjárhagsvandræðum eða ekki, stöndum saman um að senda ráðamönnum skilaboð sem þeir skilja, með því að sjá til þess að þann 1. desember fari eins lítið fé inn í bankakerfið og ríkiskassann og mögulegt er. Hættum að borga.

 

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago