Fram, fram, aldrei að víkja

Þegar stóra Vantrúarmálið gegn Bjarna Randver kom upp, langaði mig að skrifa um það. Samúð mín var með Vantrú. Það varð ekkert af því að ég skrifaði pistil um málið, enda voru Matthías Ásgeirsson og Harpa Hreinsdóttir greinilega einfær um að halda umræðunni um þetta eina mál gangandi og rúmlega það, ekki vikum saman heldur í margamarga mánuði og svo enn fleiri mánuði. Ég hafði engu við að bæta og efast um að þeir séu margir sem hafa úthald til að lesa öll samskipti Matta og Hörpu gaumgæfilega.

Ég hef mikla samúð með baráttu Vantrúarmanna gegn trúboði og gagnrýnislausri umfjöllun um gervivísindi. Ég er oftast sammála þeim skoðunum sem settar hafa verið fram í nafni Vantrúar. Mér finnst þeir sem súpa hveljur yfir hranalegum yfirlýsingum Matthíasar Ásgeirssonar yfirleitt ekkert kurteisari en hann, þótt þeir vefji útúrsnúninga og persónulegar árásir í umbúðir, og reyndar efast ég um að samfélagsumræða eigi endilega alltaf að vera kurteisleg. Það er algerlega fráleitt að tala um að Vantrúarfólk hafi ráðist gegn akademisku frelsi Bjarna Randvers með því að skjóta málinu til siðanefndar.  Það er eitthvað gruggugt við afstöðu háskólafólks til akademísks frelsis, ef það flokkast sem ofsóknir að nýta ferli sem er sérstaklega til þess ætlað að fá úr því skorið hvort kennari hefur gerst sekur um ófagleg vinnubrögð og má einu gilda hversu mikla andúð kærandinn hefur á viðkomandi kennara.

Kærunni til siðanefndar var vísað frá. Háskólakennarar eru samkvæmt því í fullum rétti með að líkja gagnrýni á kirkjuna við gyðingahatur. Þeir sem vilja nýta stöðu sína til þess að útmála grasrótarhreyfingar sem herskáa öfgamenn undir yfirskini vísinda, þurfa því ekki að hafa áhyggjur af akademisku frelsi sínu. Þessi niðurstaða vekur margar spurningar, t.d. hvort kennari í stjórnmálafræði sé þá ekki líka frjáls að því að fjalla um Samtök hernaðarandstæðinga sem ofstækisfulla kommúnistahreyfingu og líkja hörðum dómum þeirra um Nató við gyðingaofsóknir.

Vantrúarmenn voru í fullum rétti með að kæra Bjarna Randver til siðanefndar. Leiða má rök að því að það flokkist sem þjófnaður að afrita gögn af lokuðu vefsvæði og þeir eru líka í fullum rétti með að fá úr því skorið hvort sú túlkun stenst. Rétt eins og hver sá sem telur að sér vegið með ruddalegu orðfari er í fullum rétti með að kæra Matta í Vantrú fyrir ærumeiðandi ummæli. Ég hef þó litla trú á að nokkur myndi vinna slíkt mál gegn Matta enda í langflestum ef ekki öllum tilvikum um gildisdóma að ræða. Tjáningarfrelsið á Íslandi er sem betur fer nógu mikið til að þeir sem taka þátt í opinberri umræðu verða að vera menn til að taka móðgandi ummælum.

Á sama hátt þarf engum að koma á óvart þótt lögreglan vísi þjófnaðarkærum Vantrúar frá.  Hvað sem líður orðabókarskilgreiningu á þjófnaði, tekur réttarkerfið tillit til þess hvaða tilgang hinn brotlegi lagði upp með. Ég hygg að flestir hafi skilning á því að maður sem verður var við verulega neikvæða umræðu um einstakling sem er honum kær, hafi fyrir því að afrita umræðuna og koma gögnum til þess sem í hlut á. Ekki síst ef fyrir koma ummæli sem má túlka sem áform um að gera honum verulega skráveifu.

Ég skil vel að Vantrúarmenn séu ósáttir við niðurstöðu siðanefndar. Í hina röndina finnst mér Vantrú minna dálítið á naut í flagi og ég efast um að það sé hreyfingunni til framdráttar að halda málinu áfram með ásökunum um þjófnað á trúnaðargögnum.

Sjálfsagt er þetta prinsippmál, Vantrú er ekki í neinni vinsældasamkeppni og það er nú eitt af því sem ég kann að meta við þetta félag. En ef prinsippið er svo mikilvægt, þá ættu meðlimir Vantrúar heldur ekki að móðgast þótt þeir séu kallaðir ofstækismenn. Því satt að segja; þegar átök grasrótarhreyfingar við einstaklinga fá meira vægi en markmið hennar og hugmyndafræði; þegar það er orðið prinsipp að leyfa andstæðingnum aldrei að halda haus og hreyfingin keyrir áfram á viðhorfinu fram, fram, aldrei að víkja; þá þurfa meðlimir hennar ekkert að undrast það að vera álitnir herskáir.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago