Forvirkar rannsóknarheimilidir á Svandísi

Ég biðst afsökunar á því að hafa fagnað því þegar Ögmundur tók við embætti mannréttindaráðherra. Ég taldi að hann myndi vinna ötullega að mannréttindamálum enda hefur hann alltaf gefið sig út fyrir að vera mannréttindasinnaður. Mér skjátlaðist.

Annars þarf Ögmundur náttúrulega ekkert að standa undir mannúðarsinnamerki-miðanum meir enda ekkert mannréttindaráðuneyti til lengur. Það var bara of stór áskorun fyrir hægri sinnaða vinstri menn á Íslandi að gera mannréttindi að jafn sjálfsögðu máli og efnahagsstjórn og menntamálum.

Forvirkar rannsóknarheimildir eiga að sjálfsögðu aðeins að beinast gegn glæpagengjum. Samt er um að ræða forvirkar heimildir, þ.e.a.s. það þarf enginn glæpur að liggja fyrir til að þeim sé úthlutað. Nú þyrfti Ögmundur að svara því hvernig á að skilgreina glæpagengi ef ekki sem hóp sem hefur framið glæpi. Væntanlega sem hóp sem yfirvöldum finnst líklegt að hafi áhuga á að fremja glæp en hann mun áreiðanlega orða það á smekklegri máta. Og næsta víst að mikill fjöldi bjána muni gleypa kúkinn ef hann er innpakkaður í karamellubréf.

Sennilega verða mótorhjólasamtök fyrstu hóparnir sem verða fyrir forvirkum rannsóknarheimildum. Næst verða það aðgerðasinnar. Aðgerðarsinnar eru fólk sem grípur til beinna aðgerða, stundum ólöglegra, í þeim tilgangi að vekja athygli á meiriháttar ranglæti. Fólk sem hefur þá afstöðu að nauðsyn brjóti lög og að mannréttindi séu lögum æðri. Fólk sem er tilbúið til að fremja glæpi á borð við að trufla vinnu og standa á gangstétt á Laufásveginum með pappaspjald til þess að fá yfirvöld til að hlusta. Sumir aðgerðasinnar brjóta lög og það er því auðvelt að skilgreina þá sem glæpagengi.

Það getur vel verið að Ögmundur hafi engan áhuga á pólitísku andófsfólki. Ég treysti honum að vísu ekki fyrir horn lengur en það er svosem alveg hugsanlegt að hann ætli ekki að gefa leyfi til persónunjósna gagnvart neinum nema hórmöngurum og dópsölum. Ég er hinsvegar nokkuð viss um að hægri stjórnin sem kemur næst, velur innanríkis/dómsmála/mannréttindaráðherra, sem hefur mikinn áhuga á að njósna um hvern þann sem mótmælir yfirvöldum eða er líklegur til þess.

Við skulum ekki gleyma því að jafn venjulegur pólitíkus og Svavar Gestsson sætti persónunjósnum á sínum tíma. Maður sem hryðjuverkasamtök og glæpagengi myndu líta á sem algeran lúða og hefur sennilega aldrei framið stærri glæp en þann að leggja ólöglega, ef þá það. Bláa höndin njósnaði um Svavar, ekki af því að hann væri grunaður um glæp, heldur af því að hann var grunaður um að þekkja einhvern sem þekkti einhvern sem þekkti einhvern sem þekkti glæpagengi. Nánar tiltekið Stasi.

Hversu langt er þar til einhver sem þekkir einhvern sem þekkir Birgittu Jónsdóttur verður sviptur einkalífi sínu, af því að Bandaríkjamenn hafa skilgreint Wikileaks sem hryðjuverkasamtök? Verður það í tíð Ögmundar? Eða kannski ekki fyrr en eftir nokkur ár?

Ég fagnaði þegar Ögmundur varð mannréttindaráðherra. Ég krossaði mig þegar Össur varð utanríkisráðherra og er ég þó ekki einu sinni kristin. Össur sýndi þó þá döngun að taka mál Sakine Ashtiani upp við sameinuðu þjóðirnar. Mér fannst svolítið neyðarlegt að sjá samfylkingarskrípil standa sig betur í mannréttindamálum en mannréttindaráðherra sem ég hafði alltaf haft mætur á en það var þó bara neyðarlegt. Þetta nýjasta útspil Ögmundar er ekki neyðarlegt, það er sjúkt og rangt. Jafn sjúkt og rangt og ef Svandís Svavarsdóttir byði trukkaköllum að halda torfærukeppni á Þingvöllum.

Ég spái því að lögreglan eigi eftir að fá heimildir til að fylgjast með tölupósti Svandísar Svavarsdóttur. Þegar allt kemur til alls hefur hún tengsl við náttúruverndarsamtök (og hver er svosem munurinn á umhverfissinnum og hryðjuverkamönnum?) en auk þess er pólitísk óþekkt í ættinni hennar. Ögmundi finnst ætternið kannski ekki tilefni til njósna en þegar sjallarnir komast aftur til valda verða það meira en nógu góð rök. Og ef það dugar ekki til þá hlýtur bróðir hennar að þekkja einhvern sem þekkir gaur sem á mótorhjól.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago