Ég er orðin hundleið á málfarsfastisum sem heimta að fólk eyði ómældum tíma í að læra flókin og forneskjuleg málkerfi í stað þess að sætta sig við eðlilega þróun tungumálsins.

Það er tímafrekt að vera Íslendingur í dag. Fyrir utan fulla vinnu þarf maður að horfa á 5-6 raunveruleikaþætti á viku, til að vera viðræðuhæfur um það sem er að gerast í samfélaginu. Svo þarf að fara í ræktina til að sporna gegn þeirri offitu sem eðlilega fylgir aukinni velmegun og framþróun í tækni og vísindum. Það er fráleitt að ætlast til þess að venjulegur Íslendingur hafi tíma til að eltast við tittlingaskít eins og bera fram ð í ógeðslega geðveikt eða segja ólst upp, þegar er miklu einfaldara að segja aldist upp.

Málfasistar leggja á sig gríðarlega vinnu til að finna upp nýyrði og orðalag sem fáir skilja og enginn notar. Mörg dæmi tengjast tölvum og netnotkun. Hvort er t.d. þægilegra í beygingu, gegnsærra og hljómar eðlilegar; url eða slóð? Hví ætti nokkur maður að leggja á sig vinnuna við að segja gefðu mér slóðina, þegar hann getur allt eins sagt ka´r´addna urlið?

Tengisnobbið er kapítuli út af fyrir sig. Fasistaliðið gengur svo langt að vera með tengla á vefbókunum sínum í stað linka eins og venjulegt fólk. Um daginn hitti ég málfarsfasista sem sagði; Ég er með netfangið þitt. Má ég ekki tengja þig við spjallrásina mína?

Því miður er þessi maður ekkert sá eini sem sóar tíma sínum á þennan hátt. Í stað þess að nota hið þjála og einfalda orð e-mail, ver hann ómældri orku í uppskrúfaða snobbyrðið netfang. Í stað þess lipra og fljótlega orðalags að adda þér á msnið, notar tengifasistinn illskiljanlegan bókmenntafrasa.

Einföldun málsins er brýnt mál og nauðsynlegt. Við málþróunarsinnar höfum þó engu að kvíða. Framþróunin verður ekki stöðvuð.

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago