The Guardian greindi frá því í gær að ekki færri en sjö manns hafi látist og 119 særst í þremur sprengjuárásum í Kabúl síðustu daga. Fyrsta sprengjan sprakk við jarðarför þegar einn mótmælenda sem létu lífið í mótmælum gegn stjórnvöldum núna á föstudag var borinn til grafar. Tvær sjálfmorðssprengjuárásir fylgdu í kjölfarið. Meira en þúsund manns voru þar samankomnir og talið er líklegt að tilkynningar um fleiri særða eða látna eigi eftir að berast.

Frétt The Guardian má lesa hér.

Að undanförnu hafa hryðjuverk í Evrópu vakið óhug og í netheimum sér maður tillögur um lausnir á vandamálinu. Efla öryggisgæslu – að vísu er vandséð hvernig öryggisgæsla á að koma í veg fyrir að menn noti ökutæki í árásarskyni en lausnin er kannski sú að halda úti herliði hvar sem bílaumferðar má vænta. Loka landamærum – reyndar eru hryðjuverkamenn oftar en ekki búsettir í landinu, jafnvel fæddir og uppaldir í nágrenni við staðinn þar sem voðaverkið á sér stað. Þeir eru fáir en þó til sem leggja til að redda málunum með því að vísa öllum múslímum úr landi.

Líklegt verður að teljast að þeir sem stóðu fyrir þessari hryðjuverkaárás í Kabúl játi Islam. Þetta er ekki í fyrsta, annað eða tíunda sinn sem Afganir verða fyrir hryðjuverkaárás af völdum islamista. Lausnin er augljóslega sú að vísa öllum múslímum frá Afghanistan.

Í Bretlandi einu saman búa hátt í 3 milljónir múslíma. Flestir þeirra eru venjulegt fólk sem þrátt fyrir að sniðganga svínakjöt og klæðast kuflum og klútum er ekkert hættulegra en aðrir nágrannar okkar. Í hverfinu mínu í Glasgow býr fjöldi múslíma, ég mæti konum sem hylja hár sitt í hvert einasta sinn sem ég fer út úr húsi, margar þeirra hylja andlit sín líka. Ég hef aldrei fundið fyrir minnsta ótta vegna þess. Að vísa þeim úr landi eða að hindra ættingja þeirra í því að flytja til Bretlands væri jafn klikkað og að ætla að meina unglingsstrákum aðgang að skólum vegna hættunnar á skotárásum í skólum.

Það er eðlilegt að hryðjuverk í London snerti okkur Íslendinga dýpra en röð sprengjuárása í Kabúl. Mörg okkar eiga vini og ættingja í London. Mörg okkar hafa komið þangað og þó nokkuð margir Íslendingar hafa búið þar. Það er eins og atburðirnir verði raunverulegri þegar við sjáum fyrir okkur staði sem við þekkjum og andlit ástvina.

En missir fólksins í Kabúl er ekkert frábrugðinn missi Evrópubúans. Afganskt barn grætur jafn sárt og breskt barn þegar það missir handlegg. Eða foreldra sína.

 

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago