Dauðasyndirnar dásamlegu

Það sem mér finnst athyglisverðast við nýju dauðasyndirnar er að það er í raun engin þörf fyrir þær. Þótt ég hafi almennt litlar mætur á kirkjulegu valdi, má Gregorius gamli páfi (eða var það ekki hann sem kom dauðasyndunum í tísku á 6. öld?) þó eiga það að hann náði að dekka nánast allt sem gerir mannskepnuna ógeðfellda með rexinu um dauðasyndirnar.

Dauðasyndirnar voru hroki, öfund, reiði, þunglyndi, ágirnd, ofát og munúðarlíf. Eftir að þunglyndi var skilgreint sem sjúkdómur hafa menn skipt þunglyndinu út fyrir leti og vel má vera að Gregorius og félgar hafi lagt þann skilning í orðið. Með munúðarlíferni virðist átt við hverja þá kynlífsathöfn sem hefur annan tilgang en þann að æxlast. Í dag er það ekki in, enda er frekar talað um hórlífi en munúð.

Mér hefur alltaf þótt undarlegt að skilgreina mannlegar hvatir sem syndir en væntanlega hefur hugsunin verið sú að hroki leiddi til harðstjórnar, öfund til illmælgi, reiði til ofbeldis, þunglyndi til ábyrgðarleysis og ágirnd til þjófnaðar. Og það er rétt. Svo langt sem það nær. Mér finnt líka skrýtið að tengja tvær síðustu syndirnar við verknað en allar hinar við hvatir. Það hefði verið meira samræmi í því að tala um græðgi eða óhófsemi og losta (heldur en ofát og munúðarlíf) enda eru þau orð oft notuð þegar fjallað er um dauðasyndirnar. Mín tilgáta er sú að í þessum tveimur tilvikum hafi Gregorius gamli ómeðvitað lagt áhersluna á verknaðinn af því að hann hafi vitað hvötina upp á sig án þess að finnast hann sjálfur dauðasyndugur :-Þ Eða er þetta öðruvísi í frummálinu? Kannski þýðandanum hafi þótt gott að gúlla í sig feitu keti og sprengja í kellingar.

Nýju dauðasyndirnar munu vera umhverfismengun, erfðabreytingar, tilraunir með fólk, félagslegt ranglæti, auðsöfnun og fíkniefnaneysla. Ég sé ekki alveg til hvers er verið að flokka þetta sem dauðasyndir frekar en ýmis önnur samfélgasböl þar sem auðveldlega má fella allar þessar syndir undir hinar gömlu. Bæði umhverfismengun og erfðabreytingar bera vott um hroka og valdníðslu mannsins sem sér ekkert athugavert við að breyta gangi náttúrunnar. Einnig tilraunir með fólk (og dýr ef því er að skipta) sem bjóða heim hættu á kúgun og ofbeldi. Félagslegt ranglæti (hvernig sem á nú að skilgreina það) stafar beinlínis af ágirnd og valdníðslu. Gengdarlaus auðsöfnun og ágrind haldast í hendur. Auðvelt er að yfirfæra græðgina eða óhófið yfir á fíkniefni eða hverja þá óhófsneyslu sem auðveldlega getur af sér slæmt heilsufar og félagslegan glundroða.

Ég tek undir það með Jónasi að það er undarlegt að sjá ekki barnaníð og reyndar engar birtingarmyndir hórlífisins í þessari upptalningu. Hugmyndin um Gvuð sem lætur erfðabreytingar og auðsöfnun fara meira í taugarnar á sér en kynferðislegt ofbeldi samræmist ekki alveg hugsunarhætti Vesturlandabúa í dag. Það er heldur ekkert við nýju syndirnar sem ég sé í fljótu bragði að rými við öfundina en hún er kannski alltaf eins?

Mér finnst vert að veita því athygli að þessar nýju hugmyndir páfagarðs um dauðasyndir, eiga ekki síður erindi við yfirvöld, auðvaldið og fjölmiðla en við samvisku einstaklingsins. Þegar allt kemur til alls komumst við alls ekki hjá því að menga jörðina. Það eru hinsvegar ákvarðanir stórnvalda varðandi mengandi iðnað og samgöngur sem skipta mestu máli um það hve mikið ullabjakk við látum frá okkur. Þótt ég sé ekkert hrifin af páfagarði yfirhöfuð, fagna ég hverri rödd sem gagnrýnir beint eða óbeint skeytingarleysi gagnvart náttúrunni og almennum mannréttindum.

Ég hef enga trú á tilvist Helvítis, er einnig andvíg dauðarefsingum og þar með get ég ekki skrifað undir þá hugmynd að nokkur hegðun geti flokkast sem dauðasynd. Reyndar eru dauðasyndirnar hvati allra framfara. Hitt er svo aftur augljóst að hroki, öfund, reiði, blandan neikvætt hugarfar-flýlugirni-óvirkni (fremur en þunglyndi), ágirnd, óhófsneysla og kynlífsfíkn eru allt hneigðir sem geta leitt til ógæfu ef maður hefur ekki taumhald á þeim. Enginn mannlegur eiginleiki er í eðli sínu slæmur. Flestir varasamir á einhvern hátt en enginn slæmur.

Það er bitamunur en ekki fjár á hroka og stolti eða sjálfstrausti. Það er sú sannfæring mannsins að hann taki öðrum fram að andlegu og/eða líkamlegu atgervi sem fær hann til að taka stjórnina, gerast leiðtogi og sýna frumkvæði og ábyrgð. Sorrý Stína en á meðan fjöldinn er sofandi sauðahjörð þurfum við leiðtoga.

Öfundin er systir illskunnar; já það er rétt en hún er líka systir metnaðargirninnar. Við kæmumst ekkert áfram nema vegna þess að við berum okkur saman við aðra og viljum fá það sama og aðrir hafa.

Reiðin er stórvarasöm en ef ekki væri fyrir reiðina væri hægt að kúga fólk óendanlega og myndi enginn rísa gegn grimmd og óréttlæti. Reiðin er drifkraftur allra byltinga og flestra félagslegra umbóta.

Þunglyndi er aldrei gott. Depruð, neikvæðni og óvirkni hafa mér sjáanlega engar jákvæðar hliðar. Letin er hinsvegar góð þegar hún birtist í þeim dugnaði að finna lausnir til að fá meiri tíma til að slappa af. Ef ekki væri fyrir letina værum við enn að bera vatn í fötum langar leiðir. Ef við hefðum á annað borð haft döngun í okkur til að smíða fötur.

Ágirnd er heldur ekkert neikvæð fyrr en maður fer að ganga á rétt annarra. Í samfélagi án ágirndar myndi enginn gera meira en að draga fram lífið á lágmarks næringu og ég þekki engan sem þætti það æskilegt.

Græðgin er góð -í hófi. Það er ekkert að því að ofbjóða líkamanum með viðbjóði nokkrum sinnum á ári. Í fljótu bragði dettur mér ekki í hug neitt gott, íslenskt orð sem nær almennilega merkingunni í enska orðingu indulgence sem merkir eiginlega sjálfsdekur eða að láta undan löngun, fremur en það sem við kölum venjulega sukk. Vandinn er auðvitað sá að meta hvenær er nóg komið en það skaðar engan heilbrigðan mann að halda partý við sérstök tilefni. Allt með sykri og rjóma. Kampavín og jónu með ef vill. Bara ekki mjög oft eða mikið í einu.

Hórlífi. Já það er gott. Á meðan allir þátttakendur eru fullorðnir, meðvitaðir um forsendurnar, sáttir við sína hórfélaga og með smokkinn á réttum stað. Eða getur einhver bent mér á manneskju sem hefur skaðast af lauslæti ef þessar reglur eru hafðar í heiðri? Stóra hættan er sú að einhver virði ekki regluna um að forðast og fordæma allt ofbeldi og kúgun, í hvaða mynd sem er. En það á svosem við í öllum samskiptum fólks.

Syndin er góð. Dauðasyndin beinlínis dásamleg. Ef maður er meðvitaður um hættuna og sýnir sjálfum sér, öðrum og umheiminum virðingu. Það er þetta stóra ef.

Uppfært:

Jónas nefnir reyndar aðeins 6 nýjar dauðasyndir og undrast að barnaníð skuli ekki vera á meðal þeirra. En sjá, ég boða yður mikinn fögnuð; barnagirnd er samkvæmt þessu ein hinna nýju dauðasynda og í þessari grein er ekki minnst á tilraunir á fólki, heldur fóstureyðingar. Aukinheldur er það víst dópdreifing en ekki neyslan sem er dauðasynd.

Hér er svo ein útgáfan enn.

Er einhver með netfangið hjá páfanum, svo sé hægt að fá þetta á hreint?

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

55 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

55 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

55 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

55 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

55 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

55 ár ago