Er gott að gera heimspeki að skyldufagi í grunnskólum?

Ég efast ekki um að sum börn hefðu gaman af því að læra heimspeki og að mínu mati er ekkert fráleitara að bjóða íslenskum börnum upp á heimspeki en þjóðsögur Gyðinga. Hvort er einhver ástæða til að skylda öll börn til að læra allt sem boðið er upp á er meira álitamál og þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar í þingsályktunartillögunni sem sagt er frá hér eru verulega vafasamar.

Sérstaklega er vísað til 8. bindis skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Af skýrslunni má draga þann lærdóm að nauðsynlegt sé að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Það á að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla að gagnrýnni hugsun.

Áður en Alþingi fer að skipta sér af innra starfi skólanna og setja jafnvel lög um tímafjölda í hverri námsgrein, á þeirri forsendu að efla þurfi siðferði landans, er rétt að leita svara við nokkrum spurningum. Þær fyrstu sem mér koma í hug eru eftirfarandi:

  1. Hvað bendir til þess að fólk sem hefur heimspekiþekkingu sé á siðferðilega hærra plani en annað fólk?
  2. Er heimspekikennsla besta leiðin til að innræta börnum siðareglur? Væri hægt að gera það með öðrum aðferðum og hugsanlega áhrifameiri og ódýrari leiðum?
  3. Í hvaða greinum á að skera niður kennslu til þess að koma heimspekinni að?
  4. Hvaða göfugmenni eiga að taka að sér kennslu sem hefur það að markmiði að lyfta þjóðinni á hærra plan siðferðislega?
  5. Hvernig er reynslan af kennslu í öðrum greinum, verða nemendur sem læra kristin fræði t.d. kristnir af skólagöngu sinni og ef svo er, hvernig samræmist þá kristnifræðikennsla ákvæðum stjórnarskrár og laga um trúfrelsi? Hefur landafræðikennsla þau beinu áhrif að fólk ferðist meira eða hefur þekking sem troðið er upp á börn með valdboði kannski takmörkuð áhrif á hegðun þeirra á fullorðnisárum?
  6. Ef Alþingi ákveður hversu mikla kennslu börn eigi að fá í heimspeki, mun það þá ekki líka setja reglur um fleiri greinar? Hversu mikla miðstýringu erum við sátt við?

Margra fleiri spurninga mætti spyrja en sú sem mér finnst áleitnust er þó spurningin um það hversu langt eigi að ganga í því að troða ábyrgðinni á barnauppeldi upp á skólana. Það er nánast sama hvaða vandamál er til umræðu, alltaf skal einhver viðra þá hugmynd að skólarnir eigi bara að sjá um það. Skólarnir skuli sjá um vímuefnaforvarnir, umferðarfræðslu, trúaruppeldi (dulbúið sem fræðigrein), kynfræðslu, brunavarnir, fjármálauppeldi, lýðræðisfræðslu, rasismavarnir, sjálfsvirðingareflingu, umhverfisvernd, menningaráhuga, leikræna tjáningu og einhliða kynhyggjuáróður svo eitthvað sé nefnt. Allt skal þetta kennt á „sjálfbærum lýðræðisgrundvelli“.

Sjaldan er spurt hvort kennarar séu yfirhöfuð í stakk búnir til þess að bæta við sig greinum, hvað þá hvort allir kennarar séu haldnir sömu lýðræðisdýrkun og sjálfbærniást og höfundar aðalnámskrár. Því síður eru foreldrar spurðir álits, þegar teknar eru inn greinar sem hafa beinan uppeldistilgang og stuðla jafnvel að póltískri og/eða trúarlegri innrætingu.

Kennslan skal svo einkennast af virðingu og umburðarlyndi fyrir öllum hugsanlegum frávikum á sama tíma og aðstæður til að mæta sérþörfum eru víðast hvar gagnrýnverðar. Kennslan skal aukinheldur miðuð við þarfir einstaklingins en matið á því hvernig til tekst skal nú samt vera samræmt. Tvískinnungurinn virðist ekki eiga sér nein takmörk og afskipti Alþingis af skólastarfi felast fremur í því að auka kröfurnar en að gera skólunum fært að mæta þeim sem þeir þegar eru að basla við að framfylgja.

Það er gott markmið að hvetja nemendur til gagnrýninnar hugsunar og það er fínt að skólarnir bjóði upp á fjölbreytta kennslu bæði hvað varðar námsgreinar og kennsluaðferðir. En ef tilgangurinn með því að gera heimspeki að skyldufagi í skólum er sá að koma í veg fyrir framleiðslu bankabófa og uppræta spillingu í stjórnkerfinu, þá ættum við kannski fyrst að skoða hversu mikla heimspekiþekkingu hrunverjar hafa í samanburði við meðalmanninn. Flestir þeirra hafa ágæta menntun, t.d. á sviði lögfræði, stjórnmálafræði og viðskiptafræði en allt eru þetta greinar sem skarast við heimspeki. Eru iðnaðarmenn, verkafólk og þeir sem hafa menntun á sviði raunvísinda virkilega minni siðverur en lögfræðingar og viðskiptafræðingar?

Þegar upp er staðið voru það einkum tvær siðareglur sem brotnar voru í hruninu:
þú skalt ekki stela og þú skalt ekki ljúga. Það er alger óþarfi að innleiða þá hugsun að þetta sé eitthvað flóknara og að áralanga menntun þurfi til að kenna fólki að eitthvað sé athugavert við slíka hegðun.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago