Allt efni

Vestræn klæði

Svo margt sem vekur athygli okkar þennan fyrsta dag okkar í Kampala. Karlar flytja ótrúlegustu byrðar á reiðhjólum og vélhjólum. Konur bera stórar ávaxtakörfur á höfðinu. Börn leika sér að ónýtum reiðhjóladekkjum í drullunni en hér er lítið um malbik eða steypar gangstéttar og flísar, allsstaðar þessi rauði, fíngerði leir sem verður að leðju í rigningu.

Það sem kemur okkur þó mest á óvart er tvennt: Annarsvegar það að að þrátt fyrir alla drulluna og þrátt fyrir að við vitum að margir hafi ekki aðgang að rafmagni og því síður þvottavél, virðast allir svo hreinlega til fara. Hvernig í ósköpunum tekst fólki að halda sér hreinu við þessar aðstæður? Hinsvegar kemur okkur það verulega á óvart að þrátt fyrir fátæktina sjáum varla nokkra hræðu í afrískum fatnaði. Hér eru allir klæddir að vestrænum sið, bæði konur og karlar og einnig þau börn sem á annað borð eru í fötum.

Þessi hreinu og snyrtilegu börn

búa hér

Eins og svo margar aðrar þversagnir Úganda skýrist klæðaburðurinn að nokkru leyti af vestrænum kapítalisma. Vestræn fyrirtæki hasla sér völl í þriðja heiminum. Ráða ódýrt vinnuafl til að fjöldaframleiða fatnað (gjarnan úr bómull sem þrælar hafa tínt) fyrir Vesturlönd. Við kaupum svo 10 sinnum fleiri flíkur en við komumst yfir að nota og samt sem áður sitja framleiðendur og verslanir uppi með miklar birgðir af óseljanlegum fatnaði og annarri vefnaðarvöru. Umframbirgðir eru sendar til Afríku auk óendanlegs magns af notuðum fatnaði sem við losum okkur við af því að við nennum ekki að gera við saumsprettu eða festa tölu. Nú eða bara af því að flíkin er ekki lengur í tísku. Hjálpin kemur sér vel. Fátæklingar fá fatnað og geta jafnvel opnað eigin verslanir. En þessi góðmennska okkar hefur samt sem áður óæskilega aukaverkun. Hjálparstarf hefur nánast gengið af innlendum fataiðnaði dauðum. Nýr fjöldaframleiddur kjóll úr dýrustu túristabúð kostar aðeins þriðjung af því sem klæðskerinn þarf að taka til að standa undir sér.

Fátæklingar þurfa fatnað en það síðasta sem Úganda þarf er atvinnuleysi heillar stéttar og það á við um fleiri Afríkuríki. Ég hef velt því fyrir mér hvort væri kannski réttast að leggja þróunarhjálp niður og láta Afríku bara í friði. Leiðtogar Afríkuríkja hafa haldið því fram að ef Vesturlönd borguðu sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindum, og gæfu þriðja heims löndum aðgang að mörkuðum, gætu þeir ráðið við sínar þróunaráætlanir á eigin spýtur. Ég held að það sé rétt hjá þeim; þeir gætu vel ráðið við það. Hvort leiðtogar Afríku myndu skyndilega afspillast og taka upp sérstaka umhyggju fyrir sínum minnstu bræðrum, það efast ég aftur á móti um. En á hinn bóginn efast ég líka um að allt þetta fólk, sem svíður í nískupúkann vegna þeirra smáaura sem við verjum til neyðarhjálpar og þróunarsamvinnu, væri tilbúið til að afsala sér þeim gæðum sem ódýrt vinnuafl og auðlindarányrkja Vesturlanda hefur fært okkur.

Deila færslunni

Eva Hauksdóttir

Share
Published by
Eva Hauksdóttir

Recent Posts

320 dögum síðar

Benjamin Julian tók myndina Sennilega hefur mér aldrei orðið minna úr verki en árið 2018.…

54 ár ago

Góðra vina fundur

Mér finnst þessi mynd svo táknræn. Katrín Jakobsdóttir í snertifæri við bæði Theresu May og Erdoğan.…

54 ár ago

Fjórum mánuðum síðar

Í dag er ársfjórðungur síðan fréttist að bandamenn okkar í Nató hefðu drepið Hauk í…

54 ár ago

My Reply to Turks’ Hatemail

Dear Erdoğan worshippers who have been sending me hate mail Do you really think that…

54 ár ago

Svar mitt við haturspóstum Tyrkja

Originally published in English Kæru Erdoğandýrkendur sem hafið sent mér haturspósta Haldið þið virkilega að…

54 ár ago

Yfirlýsing vegna fánabrennu

Kallað hefur verið eftir skýringum á því tiltæki að brenna tyrkneska fánann framan við Utanríkisráðuneytið…

54 ár ago