Einar Steinn Valgarðsson skrifar


Dengbêjinn. Há, tregafull rödd. Hæg. Hljómþýð. Orð bindast orðum. Orðaflóð. Eða rósagarður. Hvert vers líkist rauðri rós. Hvert orð eins og blómknappur. Rósagarður við rætur þessa stolta og kveinandi fjalls. Einstök sameining raddanna: gnauðið í vindi og stormum, kveinstafir Ararats, snark eldiviðarins og tónar dengbêjsins. Hinir, máttarstólpar uppreisnarinnar, sem hafa sigrast á Ararat og þekkja fjallið eins og lófann á sér. Ákafan hjartslátt setur að Memduh. Hann vaggar upp og niður eins og bátur á opnu hafi sem rekur hægt burt. Með hverju andartaki andar hann að sér ögn af frelsi, hann situr við uppsprettu þess.

– Mehmed Uzun, Skuggi ástarinnar (þýð. Einar Steinn Valgarðsson)


Rithöfundurinn Mehmed Uzun (1953 – 2007)

Á þessum degi fæddist kúrdíski rithöfundurinn Mehmed Uzun (1953 – 2007) í Siverek í Şanlıurfa-héraði í Suðaustur-Anatólíu í Tyrklandi. Hann ritaði sjö skáldsögur, orti ljóð og var höfundur fjölda ritgerða ásamt því að ritstýra menningar- og safnritum. Hann lagði mikið að mörkum við að móta kúrdísku sem bókmenntamál og endurvekja sagnahefð Kúrda. Hann var pólitískur flóttamaður og dvaldi í tæplega 30 ár í útlegð í Svíþjóð. Árið 2005 var hann gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Þýðing mín á ritgerð hans, ,,Harmi aðskilnaðarins“, er væntanleg í febrúarhefti Tímarits Máls og Menningar og ég hef einnig þýtt skáldsögu hans, Skugga ástarinnar, og leita mér nú að útgefanda.

Þýðingu skáldsögunnar vil ég tileinka minningu Hauks Hilmarssonar (1986- 2018) og fjölskyldu hans, auk minnar eigin fjölskyldu og minningu ömmu minnar, Jórunnar Viðar (1918 – 2017) og föður míns, Valgarðs Egilssonar (1940 – 2018).

Innilegustu þakkir færi ég mínum góða frænda Einari Thoroddsen sem las þýðinguna yfir í handriti. Ráðleggingar hans og ábendingar, hvatning hans og smekkvísi voru mér ómetanlegar. Sömuleiðis móður minni Katrínu Fjeldsted, en ég las kaflana fyrir hana á vinnslustigi og hún veitti mér einnig góða endurgjöf.

Kúrdískir uppreisnarmenn við Ararat. Fyrir miðju í fremri röð er herforingi þeirra, Ishan Nuri.

Skuggi ástarinnar er áhrifarík, afar vel skrifuð og ljóðræn söguleg skáldsaga af grimmum örlögum, sterkum ástríðum og þrá. Sögulegt baksvið hennar er uppreisn Kúrda við Ararat gegn Tyrkjum 1927-1930, sem skipulögð var af Khoyboun-hreyfingunni undir forystu Memduhs Selîms, Ekrems Cemilpasha, Celadets Bedirkhans og bróður hans Khamurans. Herforingi uppreisnarmannanna var Ishan Nurî. Þeir koma allir við sögu í skáldsögunni en Memduh Selîm er aðalpersóna hennar.Í örlagasögu þessa útlæga kúrdíska menntamanns og frelsisbaráttumanns endurspeglast jafnframt örlagasaga Kúrda, saga undirokaðrar þjóðar og baráttu hennar fyrir að halda í menningu sína, tungu og réttindi. Memduh Selîm stendur frammi fyrir sígildri glímu, milli persónulegrar hamingju og hugsjóna, milli ástarinnar til stúlkunnar sem hann elskar og ástarinnar til þjóðar sinnar. Heimur fegurðarinnar tekst á við valdatafl stjórþjóðanna. Memduh Selîm er fagurkeri sem kennir til í stormum sinnar tíðar og spurningin sem hann og höfundur glíma við er spurningin um hvernig njóta skuli hamingju þegar fólkið manns þjáist og hvernig einstaklingarnir geti haft áhrif á gang sögunnar fremur en að verða örlögunum að bráð. Umfram allt er höfundurinn talsmaður mennskunnar.

Til hægri: Memduh Selim (1880 – 1976), útlægur kúrdískur menntamaður, einn af stofnendum Khoybouns, þjóðfrelsishreyfingar Kúrda gagnvart tyrkneska lýðveldinu. Aðalpersónan í skáldsögu Mehmeds Uzuns, Skugga ástarinnar.

Í fremri röð: Memduh Selîm, Celadet Bedirkhan og Kamûran Bedirkhan. Í aftari röð: Yadîn Beg og Sadıyê Talha.
Ónefnd sjerkesk yngismær, einhvern tímann 1870 -1880. Feriha, ástkona Memduhs Selîms í Skugga ástarinnar, er einmitt sjerkesi.
Stofnfélagar Khoybouns, þjóðfrelsishreyfingar Kúrda gegn tyrkneska lýðveldinu.
Herforingi kúrdísku uppreisnarmannanna við
Ararat, Ishan Nuri og kona hans, Wildan Khanim

Mehmed Uzun átti um síðir kost á að flytjast aftur heim til Tyrklands og þar lést hann langt fyrir aldur fram úr krabbameini. Þúsundir voru viðstaddar útför hans í Diyarbakir.

Vanvatnið, heimaslóðir Memduhs Selîms (1880 – 1976), aðalpersónu Skugga ástarinnar eftir Mehmed Uzun (1953 – 2007).

Verk Uzuns lifa áfram og eiga skilið að rata til íslenskra lesenda. Af öðrum verkum hans hef ég sjálfur lesið ritgerðasafnið Granatäppelblommning (,,Harmur aðskilnaðarins“ hefur einnig birst þar á sænsku), endurminningarnar Själens regnbåge og skáldsöguna Ljus som kärleken, mörk som döden, og hef áhuga á að þýða þær allar, finni ég útgefanda. Ég hef sömuleiðis verið í bandi við erlenda þýðendur og vonir standa til þess að fleiri verka hans megi koma út á norrænum málum og/eða ensku, en í seinna tilvikinu liggur hann enn óbættur frá garði fyrir utan nokkrar ritgerðir og textabrot. Það veltur svo aftur á útgefendum hvernig það fer.

Share to Facebook