Í fyrradag, þann tuttugasta janúar, voru tíu ár síðan Búsáhaldabyltingin hófst. Margir virðast halda að það hafi verið degi síðar en það var þennan dag sem Alþingi kom saman eftir langt og aðgerðarlaust jólafrí í miðju hruni og hélt að hægt væri að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Þingfundur hófst klukkan 13:30 – ég var handtekin rúmu korteri síðar.

Ég hef lítið tjáð mig um þessa handtöku opinberlega og frekar lítið talað um þennan dag. Mér líður að minnsta kosti þannig.
Í starfi mínu í fjölmiðlum hef ég svo frekar viljað gera lítið úr þátttöku minni í mótmælum í tengslum við hrunið. Þátttaka mín hefur enda orðið tilefni greinaskrifa löngu löngu síðar þar sem reynt er að draga úr trúverðugleika mínum sem blaðamaður. Sverta mannorð mitt og bera upp á mig lygar, mótmælaaðgerðir sem fóru yfir mín mörk á sínum tíma og sem ég tók ekki þátt í. Takk Viðskiptablaðið. En ég mótmælti m.a. 20. janúar af því ég var reið sautján ára stelpa sem sá fram á að vera af kynslóð sem þyrfti að bera hitann og þungann af endurreisn eftir hrun sem við kusum ekki yfir okkur, áttum engan þátt í og vorum algjörlega valdalaus gagnvart. Sú spá hefur algjörlega gengið eftir. Kaupmáttur ungs fólks hefur aukist minnst. Launin okkar hækkað minnst. Ekkert var byggt fyrstu árin upp úr hruni og það erum við, unga fólkið, sem berum því hitann og þungann af húsnæðisvandanum. Við höfum enga leiðréttingu fengið vegna þessa en kynslóðin fyrir ofan, íbúðaeigendur, fengu bæði leiðréttingu og seldu svo íbúðirnar sínar með gígantískum gróða. Ég er ekki reið fullorðin kona í dag en kannski mátti ég alveg vera reiður unglingur.

En þessi póstur er eiginlega um Hauk. Ég tjáði mig ekki þegar Haukur Hilmarsson hvarf í Sýrlandi í mars á síðasta ári. Ég tjáði mig ekki því mér leið eins og þarna væri ókunnugur maður sem hvarf. Eins og ég væri að hossa mér á hvarfi hans ef ég færi að skrifa einhver minningarorð á þeim tímapunkti. Og það vildi ég ekki gera. En staðreyndin er sú að Haukur var vinur minn í hruninu. Við borðuðum saman pizzu, sátum með fætur undir okkur í hippalegri stofu í miðbænum og brenndum reykelsi, rökræddum um anarkismann hans sem ég hafði ekki trú á og rökræddum sósíalismann minn, skrýtna stjórnlyndið sem ég aðhylltist með flokknum mínum þá. Hann bauð mér skrýtna smóka sem ég afþakkaði. Ofboðslega var mér hlýtt til þessa stráks sem bæði gat verið svo hlýr en svo fjarlægur á sama tíma.

Og undanfarna tvo daga hef ég ekki getað bægt honum frá mér. Málið er að þennan dag bjargaði hann mér.

Mynd: Ólafur Kr. Ólafsson

Óeirðalögreglan vildi rýma Alþingisgarðinn. Ég stóð fremst við plastskildina og þegar ég fann þá byrja að ganga hægum skrefum fram til að koma skrílnum út úr garðinum sneri ég baki í skildina, lagði á allan minn þunga og ýtti til baka. Ég hrópaði á fleiri að gera slíkt hið sama enda erfitt fyrir einfalda röð lögreglumanna að ráða við þúsundir sem allir ýttu í gagnstæða átt. Áður en ég vissi af opnuðust skildirnir fyrir aftan mig á örskots stundu og ég hrundi aftur fyrir mig, var gripin af tveimur lögregluþjónum og keyrð á maganum í jörðina. Fann skóna detta af, hettuna á úlpunni rifna og brjóstahaldarann springa í sundur að framan. Það er mannlegt eðli að berjast á móti sé maður beittur líkamlegu valdi og ég barðist um á hæl og hnakka þar til ég heyrði í Hauki. Auðvitað var hann þarna, lögreglan vildi tryggja að vandræðagemsinn Haukur Hilmarsson væri tekinn úr umferð fyrstur. Líklega var hann einn þarna. Ég númer tvö. „Slakaðu alveg á. Hættu að slást. Gerðu þig eins máttlausa og þú getur Snærós. Það er miklu erfiðara. Hættu að berjast,“ sagði Haukur rólega og ég hlýddi. Þyngdi mig og leyfði því óumflýjanlega að gerast. Ég hafði aldrei verið handtekin áður en Haukur hafði oft verið í þessari aðstöðu.
Okkur var komið fyrir gegnt hvoru öðru í Alþingisgarðinum, handtekinn eitt, handtekin tvö. Og ef þið rýnið í myndina af mötuneytiskonunum, sem þurftu að koma pönnukökunum yfir í þingflokksherbergin sama hvað tautaði og raulaði, má sjá bera fætur Hauks við mína fætur.
Dagurinn var langur, Haukur kenndi mér hvernig átti að haga sér í haldi. Hélt mér rólegri. Hló með þegar ég gerði lítið úr löggunni og var jafnreiður þegar lögreglan hóf að handtaka enn yngri börn. Ellefu ára strákur með skíðahjálm var í haldi. Allar reglur voru mölbrotnar. Við Haukur vorum saman í liði gegn ofríkinu.

Fljótlega fengu foreldrar mínir veður af meðferðinni á mér. Mamma braut sér leið inn til mín og skipaði mér að koma með sér en var næstum handtekin fyrir vikið og þurfti frá að hverfa. Samt var ég bara sautján ára. Og þau fóru að hringja símtöl. Ég held að þau hafi hringt í alla yfirmenn lögreglunnar á landinu, sem þau mögulega komust yfir símann hjá, til að fá hópinn færðan inn. Staðreyndin var sú að við vorum orðin ansi mörg í haldi í Alþingisgarðinum, það var snjókoma, það rigndi yfir okkur grjóti, hellusteinum og flugeldum sem sprungu við fætur okkar. Ef lögreglan hefði misst stjórn á fólkinu hefðum við troðist undir því í járnum á maður helvíti erfitt með að standa upp. Þetta var bara stórhættulegt ástand.

Eftir þrjá, fjóra tíma vorum við færð inn. Annað hvort þeirra hafði náð í Geir Jón löggu sem svo vill til að er einhversstaðar í ættinni. Við tók löng og ömurleg seta í bílakjallara Alþingis. Á einum tímapunkti var mig farið að verkja alvarlega í bakið eftir að hafa verið í járnum fyrir aftan bak í rúmar fimm klukkustundir. Ég vildi fá að standa upp en valdasjúkasti lögregluþjónninn skipaði mér að setjast. Ég neitaði kurteisislega, sagðist vera að drepast í bakinu vegna handjárnanna og þá sparkaði hann undan mér fótunum. Gamall verkur í rófubeini tók sig upp. Mamma hélt áfram að hringja símtöl og fékk að vitja mín með Steingrími J Sigfússyni í bílakjallaranum. Hún kom að mér liggjandi á maganum eftir sparkið því bakið verkjaði svo rosalega. Ég bar mig samt vel og bað hana að fara.

Um átta var ákveðið að flytja þyrfti hópinn á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Ég mun aldrei gleyma því sem ég sá þegar upp var komið. Lögreglumenn voru algjörlega búnir að missa stjórn. Slógu í allar áttir með kylfunum að alls konar fólki og þegar við komum inn í lögreglubíl heyrðist í talstöðvunum að nú mætti beita öllum meðulum til að kveða mótmælin niður. Þeir voru þreyttir, eins og við.

Það síðasta sem ég sá af Hauki þennan dag var þegar lögregluklefanum var lokað á eftir honum. Ég fór aldrei í klefa, neitaði að skrifa undir lögreglusátt um að ég hefði brotið lög og beið eftir lögmanni til að ganga frá skýrslu og yfirlýsingu af minni hálfu á efri hæðinni.

Næstu daga tók ég ekki neinn þátt í mótmælum. Ég var fárveik eftir setuna úti á köldum janúarmorgni.

Mynd: Ólafur Kr. Ólafsson

Löngu seinna kom út skýrsla frá lögreglunni um Búsáhaldabyltinguna. Móðir Hauks, Eva Hauksdottir, sótti það fast að almenningur fengi að sjá skýrsluna. Löggan klúðraði málum, birti skýrsluna þannig að nöfn voru greinanleg, og Haukur var á flestum síðum. Hann var enda óvinur ríkisins númer eitt þennan vetur sem hrunið varð. Ungur maður sem hafði engin völd og bar enga ábyrgð í íslensku samfélagi. Einn af okkur sem höfðum ekkert með hrunið að gera.

Nafn mitt var hins vegar hvergi að finna í skýrslunni enda var höfundur hennar þessi fjarskyldi frændi minn, sem nefndur er hér að ofan, og á þeim bænum er sko ekki verið að leggja nöfn frænku sinnar við jafn alvarlegan glæp og skrílslæti við Alþingishúsið. Nei hún Snærós, hún mótmælti aldrei.