Auðvitað krefst það hugrekkis að fara þessa leið en kannski er líka hægt að orða það þannig að þeir sem fara þessa leið hafi hvað mestar ranghugmyndir um áhrif sín og hvaða kröfur er raunhæft að gera til sjálfs sín. Haukur talaði alltaf um að hann yrði að „fara að drullast til að gera eitthvað sem skiptir máli“. Það skipti ekki máli að klifra upp í krana því það upprætti ekki stóriðjustefnu. Það skipti ekki máli að tefja ólöglega húsleit í Palestínu af því að það stöðvaði ekki hernámið. Það var kannski klukkustundar kikk að flagga bónusfánanum en það upprætti ekki ítök kapítalista í stjórnmálum. Það skipti ekki máli að hjálpa einum og einum flóttamanni, því það kom ekki í veg fyrir að fólk hrekstist á flótta. Hústaka í Aþenu skipti ekki máli af því að það var aldrei hægt að taka nógu mörg hús til að leysa húsnæðisvanda allra flóttamanna. „Það eina sem getur breytt einhverju er að byrja frá grunni og byggja upp beint lýðræði án ríkisvalds“ sagði hann og fór til Rojava. Og ef það hefði tekist þá hefði það samt ekki verið nóg því það hefði ekki frelsað allan heiminn og það hefði ekki komið í veg fyrir ógeðslega valdabaráttu.
Það er dálítið lýsandi fyrir hugmyndir Hauks um sjálfan sig hvernig hann brást við misskilningi þegar hann tók þátt í Norræna skólahlaupinu, 11 eða 12 ára. Þegar hann og einn annar í skólanum höfðu hlaupið 8,5 km (aðeins þeir tveir ætluðu að hlaupa meira en 5 km) kallaði ég á hann heim í hádegismat. Hann misskildi mig og hélt að tíminn væri útrunninn. Þegar hann áttaði sig á því daginn eftir að hann hefði alveg mátt halda áfram grét hann hástöfum af því að það var „heimsku hans“ og eftirtektarleysi að kenna að Ísland hafði „tapað Norræna skólahlaupinu“. Hann gat fyrirgefið sjálfum sér á meðan hann hélt að hann hefði hreinlega ekki haft líkamlega burði til að ná markmiðinu en að hafa klúðrað því – það var blettur á mannorði hans.
Nokkrum dögum síðar féll hann svo aftur saman af því að hann hafði verið „svo mikill helvítis aumingi að fara að grenja“ í staðinn fyrir að biðja skólastjórann að „hringja í stjórnina og athuga hvort hann gæti fengið annan séns“. Ég hafði auðvitað margsagt honum að þetta væri ekki keppni og það væri fráleit hugmynd að Ísland hefði tapað, hvað þá að það væri einhverjum einum um að kenna en hann meðtók hreinlega ekki þá hugmynd að hann hefði ekki brugðist. Framlag annarra skipti heldur engu máli í þessu sambandi. Haukur hafði ætlað sér að verja heiður Íslands á alþjóðavettvangi en klikkað á því af einskærum aulahætti. Hann hafði fórnað heiðri Íslands fyrir grjónagraut og hann hafði enga trú á því að landinn myndi nokkurntíma bíða þess bætur.