Píslarvættisblæti þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs hefur farið fyrir brjóstið á fjölskyldu og vinum Hauks. Markmið hans var ekki að deyja fyrir málstaðinn heldur að leggja honum lið og koma svo heim og klára mannfræðina. Hann var tilbúinn til að hætta lífi sínu en hann var ekki með neinar hugmyndir um það tryggði honum aðgang að Himnaríki enda hafði hann sömu ímugust á því ímyndaða ríki og öðrum einræðisríkjum. Hann var heldur ekkert stálmenni. Hann var þvert á móti óvenju viðkvæmur. Hann var ekki óttalaus en hann neitaði að láta stjórnast af ótta.
Áróðurs- og píslarvættismenningin sem fylgir stríði, og ekki síst í þessum heimshluta, er óhjákvæmilega þáttur í þeim veruleika sem Haukur gekkst inn á þegar hann tók þá ákvörðun að fara til Sýrlands. Þótt þetta myndband sé gert í áróðursskyni og sú staðreynd gleðji fjölskyldu Hauks ekki hið minnsta, er samt engin ástæða til að ætla annað en að kúrdískir, tyrkneskir og grískir félagar Hauks sem börðust við hlið hans í Sýrlandi sakni hans og vilji í einlægni heiðra minningu hans með þessu myndbandi. Það er því við hæfi að birta það hér eins og minningargreinar og aðrar kveðjur.