Að vera borinn
til bjargar smáðum
er byrði þung og band.
Það ok þú tókst
með þeli kærleikans.
Heið er hugrakks lund.
Hvar sem þér mætti
meinsemd valds
og níðingsverka náköld slóð.
Nóg var þér boðið
og bjóst til varna.
Hugur var heillar elsku.
Með hetjulundu
og hjarta ljósi
hófst þig yfir hópsálir.
Fjöldans þýlyndi æ fyrirleizt.
Þín köllun þjáðum að sinna.
Enginn þér reyndist
of hár ranglætis
auðvalds víggarður
yfir að stíga
ef áttir þú vin þinn að verja.
Skömm er okkur
við skemil límdir
skörungsskap þínum
ei skarpar fylgja
og vitja ei varna.
Hægt er heimasætið.
Heiman réðist
með hjarta brostið.
Fjörs er flelsisþráin.
Áþján ófrelsis
vildir af létta
kúgaðri Kúrdaþjóð.
Sárt syrgjum
son hugdjarfan
er frelsinu fórnaði lífi.
Ljós hans lifir
hjá lýðum gæzku.
Náttar hjá góðum sá gefur.
Þorkell Ágúst Óttarsson tók myndina