Haukur og Eva skrifuðu í sameiginingu Opið bréf í DV , sem aftur gerði úr því frétt.

„HROTTA­SKAPURINN Í GARÐ ÞESSARAR KONU ER SVO YFIR­GENGI­LEGUR“

Mæðgin gagnrýna innanríkisráðuneytið og ritstjóra Fréttablaðsins harðlega

„Án þess að spyrja hana álits upplýsir fréttamaður að hún sé fórnarlamb mansals, gerir heyrinkunnan orðróm um að Tony eigi íslenska unnustu, sakar Evelyn um lygar, dregur faðerni barnsins hennar í efa og tilkynnir alþjóð að hún verði skikkuð í faðernispróf þegar barnið fæðist. Hrottaskapurinn í garð þessarar konu er svo yfirgengilegur að öllum sem lesa fréttina hlýtur að vera ljóst að samúð og virðing fyrir fórnarlömbum mansals koma þarna hvergi nærri.“

Þannig skrifa mæðginin Eva Hauksdóttir og Haukur Hilmarsson í opnu bréfi til Ólafs Þ. Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, sem birtist í DV í dag. Þar er trúnaðarbrot innanríkisráðuneytisins gagnvart hælisleitendunum Evelyn Glory Joseph og Tony Omos gagnrýnt harðlega auk þess sem því er haldið fram að Fréttablaðið sé samsekt með því að birta gagnrýnislaust mótsagnakenndar fullyrðingar sem virðast koma fram í minnisblaði ráðuneytisins. Þar er því bæði haldið fram að Tony sé grunaður um mansal og að unnt sé að senda hann úr landi í ljósi þess að rannsókn á aðild hans í umræddu mansalsmáli sé lokið.

Meginefni fréttarinnar er að innanríkisráðuneytið gruni Nígeríumanninn Tony Omos um aðild að mansali og líti á það sem rök fyrir brottvísun hans frá Íslandi. Þetta er sannarlega krassandi frétt, einkum ef litið er til þeirrar undarlegu ákvörðunar að vísa svo hættulegum manni úr landi, en Fréttablaðið virðist ekki hafa gert sér far um það. Annaðhvort er ráðuneytið að sleppa kynferðisbrotamanni og þrælahaldara, spilla rannsóknarhagsmunum, særa fórnarlömb hans og leggja þau í háska eða þá að ásakanirnar eru ósannar og þar með er ráðuneytið sekt um mannorðsmorð. Með því að birta málflutninginn gagnrýnislaust er Fréttablaðið orðið samsekt. Þetta er í daglegu tali kallað „að skíta á sig“,“ skrifa Eva og Haukur sem bæði hafa tekið hafa virkan þátt í starfi mannréttindasamtakanna No Borders undanfarin ár og skrifað pistla um málefni hælisleitenda.

Hér má sjá bréf þeirra í heild:

Ágæti Ólafur

Sem ritstjóri mest lesna dagblaðs á Íslandi berð þú ábyrgð sem þú ert ekki öfundsverður af. Þann 20. nóvember síðastliðinn skrifaði fréttamaður á þínum vegum, Erla Björg Gunnarsdóttir, þversagnakennda forsíðufrétt byggða á skjölum sem innanríkisráðuneytið lak í fjölmiðla. Í greininni er vegið að mannlegri reisn tveggja flóttamanna sem ekki eru í aðstöðu til að verja sig.

Meginefni fréttarinnar er að innanríkisráðuneytið gruni Nígeríumanninn Tony Omos um aðild að mansali og líti á það sem rök fyrir brottvísun hans frá Íslandi. Þetta er sannarlega krassandi frétt, einkum ef litið er til þeirrar undarlegu ákvörðunar að vísa svo hættulegum manni úr landi, en Fréttablaðið virðist ekki hafa gert sér far um það.

Annaðhvort er ráðuneytið að sleppa kynferðisbrotamanni og þrælahaldara, spilla rannsóknarhagsmunum, særa fórnarlömb hans og leggja þau í háska eða þá að ásakanirnar eru ósannar og þar með er ráðuneytið sekt um mannorðsmorð. Með því að birta málflutninginn gagnrýnislaust er Fréttablaðið orðið samsekt. Þetta er í daglegu tali kallað „að skíta á sig“.

Fréttin kemur í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um mál Tonys og er til þess fallin að sverta mannorð hans í huga almennings og slá á reiðina vegna brottvísunarinnar en unnusta Tonys, Evelyn Glory Joseph, sem einnig er flóttamaður, er komin átta mánuði á leið með að ala honum barn.

Enn ógeðfelldari eru þó þær „upplýsingar“ sem blaðið birtir um persónulega hagi Evelyn. Án þess að spyrja hana álits upplýsir fréttamaður að hún sé fórnarlamb mansals, gerir heyrinkunnan orðróm um að Tony eigi íslenska unnustu, sakar Evelyn um lygar, dregur faðerni barnsins hennar í efa og tilkynnir alþjóð að hún verði skikkuð í faðernispróf þegar barnið fæðist. Hrottaskapurinn í garð þessarar konu er svo yfirgengilegur að öllum sem lesa fréttina hlýtur að vera ljóst að samúð og virðing fyrir fórnarlömbum mansals koma þarna hvergi nærri.

Þrátt fyrir að Fréttablaðið hafi riðið á vaðið með þessa eldheitu frétt hefur það engan veginn fylgt henni eftir. Helstu fréttir blaðsins það sem eftir lifði vikunnar voru um málefni neytenda þrátt fyrir að ýmislegt hafi gerst í málinu frá umræddri birtingu. Evelyn lýsti strax óánægju sinni með fréttaflutninginn og umræður sköpuðust á netmiðlum sem ekki höfðu tekið þátt í ófrægingarherferðinni. Sama dag var haldinn mótmælafundur við innanríkisráðuneytið þar sem aðstoðarmaður ráðherra, Gísli Freyr Valdórsson, gaf mótsagnakenndar yfirlýsingar um mögulegar ástæður lekans. Hann hefur bæði fullyrt að ráðuneytið leki ekki upplýsingum en einnig að það geti vel verið að það hafi gerst í þetta skipti. Hann hefur gefið í skyn að lágt settir starfsmenn gætu verið ábyrgir en síðar kom fram að aðeins hátt settir starfsmenn höfðu aðgang að þessum upplýsingum.

Lögmenn eru æfir, sem og mannréttindasamtök, aðstandendur flóttamanna og prestur innflytjenda. Þingmenn hafa hvatt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til að biðjast afsökunar og bregðast við lekanum en hún hefur enn ekki séð ástæðu til þess að svara einni einustu spurningu opinberlega. Í netheimum hefur krafan um afsögn hennar fengið nokkurn hljómgrunn. Yfirheyrsla yfir ráðherranum hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fer fram í næstu viku.

Þetta er alvarlegt mál. Ráðuneytið virðist ætla að þagga það í hel og Fréttablaðið lætur eins og ekkert hafi í skorist. Nú krefjumst við svara við eftirfarandi spurningum:

1) Hvernig stendur á því að Fréttablaðið birtir svo viðkvæmar upplýsingar, hvaða erindi eiga einkahagsmunir Evelyn við almenning og hvers vegna voru þversagnarkenndar yfirlýsingar ráðuneytisins ekki útskýrðar og gagnrýndar í fréttinni?

2) Hvenær og hvernig ætlið þið að fylgja eftir þeim andstyggilega fréttaflutningi sem þið berið ábyrgð á? Varla er það ætlun blaðsins að taka þátt í þöggun ráðuneytisins?

3) Hvenær verður Evelyn beðin afsökunar og hvernig verður komið í veg fyrir að þetta endurtaki sig hjá blaðinu?

4) Hver ber ábyrgð á þessum fréttaflutningi, er það blaðamaðurinn eða ritstjórnin? Hver mun axla ábyrgðina á þessum vinnubrögðum og hvernig?

5) Getum við treyst því að þegar mansalsákæran fær meðferð af hálfu ríkisvaldsins verði umfjöllun um hana fylgt eftir hjá Fréttablaðinu? Verður það t.d. kynnt sérstaklega ef Tony verður hreinsaður af áburði um mansal?

Við væntum svara stax og óskum þér allra heilla á þessum ömurlegu tímum í sögu Fréttablaðsins.

Share to Facebook