Haukur Hilmarsson skrifaði í Kvennablaðið 20. nóvember 2014

Næsta sunnudag standa Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna (MFÍK) fyrir málþingi um málefni flóttafólks sem nefnist Farðu burt. Þingið fer fram í Iðnó frá kl. 10–17, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Meðal ræðumanna verða Helga Vala Helgadóttir lögmaður, Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur, Haukur Már Helgason heimspekingur og Toshiki Toma, prestur innflytjenda. Gera má ráð fyrir beinskeyttri gagnrýni á útlendingaeftirlitið og fjörugum umræðum.

Athygli vekur að þrátt fyrir að málaflokkurinn standi beinlínis í ljósum logum þessa dagana virðast þar til kölluð stjórnvöld ekki hafa minnsta áhuga á að mæta og svara þeim fjölmörgu athugasemdum sem fyrirsjáanlega verða gerðar við störf þeirra. Meðal stofnana sem boðið var á þingið eru innanríkisráðuneytið, Útlendingastofnun og fjölskyldu- og félagssvið Reykjanesbæjar. Sú síðastnefnda hefur þrátt fyrir margar áskoranir ekki svarað kallinu en hinar tvær hafa afþakkað boðið.

Skýr skilaboð

Það er óneitanlega aumkunarvert að sjá þessar stofnanir hrökklast undan samtökum á borð við MFÍK en þó fulllkomlega skiljanlegt í ljósi aðstæðna. Nærtækasta skýringin er sú að málstaður þessara stofnana sé svo óverjandi að þær megni ekki að mæta andstæðingum hans á málefnagrundvelli og kjósi heldur að þaga þingið í hel. Þetta er skammarleg afstaða sem aðeins festir ömurlega arfleifð þeirra enn frekar í sessi.

Þótt þeirra verði sárt saknað á sunnudaginn hvet ég lesendur engu að síður til þess að mæta á málþingið og sýna samstöðu með flóttafólki.

Dagskrána má nálgast hér.

Höfundur er áhugamaður um pólitík