Valgarður Guðjónsson skrifar í Kvennablaðið

Ég hef séð nokkuð miður skemmtilegar athugasemdir á samfélagsmiðlum um það hvort íslensk stjórnvöld eigi að vinna að því að fá svör við því hvað kom fyrir Hauk Hilmarsson.

Ég hef nánast fullkomna skömm á þeim ummælum þar sem hvatt er til að stjórnvöld og stofnanir sleppi því að vinna í málinu … ég næ ekki almennilega að koma orðum að því hvað ég ber litla virðingu fyrir fólki sem sýnir algjöran skort á samúð í svona aðstæðum.

Burtséð frá því hvað okkur finnst um ákvarðanir Hauks – sem virðist hafa ákveðið að berjast fyrir sjálfstæði þjóðar sem er ofsótt svo að jaðrar við þjóðarmorð, í umhverfi þar sem ekki fæst betur séð en að hafi verið mjög áhugaverðar tilraunir við mjög erfiðar aðstæður að skapa samfélag sem byggir á þeim grunnhugmyndum sem flestum okkar þykja góðar og gildar – og burtséð frá því að ég efast um að þeir sem gagnrýna ákvörðun hans hefðu gagnrýnt ákvörðun Íslendings að berjast með bandamönnum í seinni heimsstyrjöldinni.

Sem sagt, gefum okkur, umræðunnar vegna, að ákvarðanir hans hafi verið „heimskulegar“, jafnvel „glórulausar“, og skoðum aðeins betur.

Gildir þá það sama um einstakling sem veður illa undirbúinn á fjöll? Einstakling sem fer vel undirbúinn í fjallgöngu þar sem vitað er að grjóthrun getur verið lífshættulegt? Einstakling sem fer í borgarhluta erlendrar stórborgar þar sem vitað er að glæpatíðni er há og ferðamenn eru skotmörk? Einstakling sem fer sér að voða á ferðalagi eftir neyslu vímuefna? Einstakling sem ekur eins og vitleysingur og slasar sig? Einstakling sem fer út á vatn (eða sjó) án þess að gá til veðurs og týnist? Einstakling sem fer í gönguferð án nauðsynlegs búnaðar?

Væru svörin alltaf, „nei, íslenska ríkið á ekki að eyða skattpeningunum mínum í að aðstoða fólk sem tekur heimskulegar ákvarðanir“? Eða er þetta eingöngu sjónarmið í þessu ákveðna tilfelli vegna þess að viðkomandi eiga erfitt með að skilja ákvörðunina?

Jafnvel þó að við gæfum okkur að ekki sé ástæða til að aðstoða einstakling í þessari stöðu (sem ég er aftur fullkomlega ósammála, en skoðum aðeins nánar) þá snýst þetta ekki síst um aðstoð við aðstandendur, fjölskyldu, vini og kunningja. Hvað sem fólki finnst um ákvarðanir viðkomandi einstaklings, þá hefur þetta fólk ekkert til saka unnið, ekki tekið neinar „heimskulega“ ákvörðun og á ekki annað skilið en að við aðstoðum eftir bestu getu.

Að einhverju leyti minnir umræðan á þá sem halda því fram að ekki eigi að hjálpa eiturlyfjafíklum vegna þess að þeir beri sjálf ábyrgð á sínum ákvörðunum og eigi ekkert annað skilið en að taka afleiðingunum. Þeim sem helst halda þessu á lofti finnst samt sjálfsagt að samfélagið hjálpi þeim sem hafa farið sér að voða og tapað heilsu á reykingum, áfengisneyslu, óhollu mataræði, hreyfingarleysi, óundirbúnu fjallarápi, glæfraakstri … svo ég nefni einhver dæmi.

Kannski eru þetta að einhverju leyti til varnarviðbrögð, mögulega er fólk að styrkja sig í að telja sér trú um að svona nokkuð komi nú ekki fyrir sig.

Áður en þið slengið fram heimskulegum athugasemdum og vanhugsuðu skítkasti á samfélagsmiðlum … hugsið, þið gætuð þekkt eða verið skyld næsta einstaklingi sem þarf aðstoð.

Og gott og vel, líkurnar á að hann sé enn á lífi, jafnvel í haldi Tyrkja, eru kannski hverfandi, en á meðan þær eru einhverjar og á meðan ekki fást skýrs svör … þá er það auðvitað skylda íslenskra stjórnvalda að krefjast svara.

Share to Facebook