Illugi Jökulsson skrfar á Stundinni

Illugi Jökulsson hefur alltaf borið djúpa virðingu fyrir sjálfstæðisþrá og þolgæði Kúrda

Þegar þetta er skrifað á miðvikudegi er ekki fullljóst hvort fréttir um fall Hauks Hilmarssonar séu sannar, þótt allar líkur virðist því miður á því. Óhætt er að segja að saga hans sé mögnuð. Eftir að hafa ævinlega barist fyrir málstað þeirra sem minnst máttu sín steig hann það ótrúlega skref að ganga í alþjóðlega hersveit sem barist hefur með Kúrdum í Sýrlandi gegn hryllingssamtökunum ISIS og nú síðast gegn Tyrkjum. Það er erfitt fyrir vopnlausan Íslending að ímynda sér það skref að ganga sjálfviljugur í her til að berjast upp á líf og dauða en ég verð þó að segja að þótt ég þekki nánast ekkert til Hauks, þá ber ég ósvikna virðingu fyrir vali hans á málstað til að hætta lífinu fyrir.

Kúrdar hafa í aldir barist fyrir sjálfsákvörðunarrétti og sjálfstæði en hafa alltaf mátt glíma við öflug stórveldi sem hafa ráðið löndum þeirra og örlögum. Það er sama hvaða stórveldi hafa tekist á og í nafni hvaða hugmyndafræði eða trúarbragða þau hafa rist sinn blóðvöll, alltaf hafa þau getað sameinast um að halda niðri Kúrdum. Og oft hefur sjálfstæðisviðleitni Kúrda verið mætt með skefjalausu ofbeldi og morðárásum þar sem engum hefur verið hlíft.

Í fjöllunum upp af Efrat og Tígris

Í von um að Íslendingar öðlist nokkurn skilning á því fyrir hvaða þjóð og hvaða málstað Haukur Hilmarsson virðist nú hafa fórnað lífinu, þá verður hér og í næstu grein eftir tvær vikur sögð saga kúrdísku þjóðarinnar.

Í grófum dráttum má segja að Kúrdar búi í fjallahéruðunum austur og norður af hinni fornu Mesópótamíu sem nú kallast Írak. Í fornöld var Mesópótamía eitt frjósamasta svæði jarðar, vökvað af stórfljótunum Efrat og Tígris, og þar reis fyrsta sannkallaða menningarsvæði sögunnar. Súmerar, Babýloníumenn, Assyríumenn og síðar Persar gerðu þar garðinn frægan. Í fjöllunum bjuggu svo ýmsir ættbálkar og þjóðir, stunduðu hjarðmennsku og sóttu stundum niður í ríkidæmið á sléttunni.

Afkomendur Meda?

Kúrdar sjálfir telja sig vera afkomendur Meda sem voru írönsk þjóð sem upphaflega bjó í norðvesturhluta Írans og náði miklum löndum á svæðinu, þar á meðal efri hluta Mesópótamíu um tíma. Ríki Meda stóð með mestum blóma um árið 600 fyrir Krist og upphaf tímatals Kúrda var raunar miðað við árið 612 en þá lögðu Medar og fleiri þjóðir undir sig höfuðborg hinna hötuðu Assyríumanna, Níníve, þar sem nú er borgin Mósúl. Veldi Meda féll svo um 100 árum seinna þegar ein af undirþjóðum þeirra, Persar, brutust til áhrifa og stofnuðu stórveldi sitt um mestöll Mið-Austurlönd.

Fræðimenn eru raunar fæstir á því að Kúrdar geti í raun tengt sig beint við hina fornu Meda. Ekki sé hægt að bera kennsl á Kúrda sem afmarkaða þjóð fyrr en í fyrsta lagi 1.200 árum síðar eða komið var fram á miðaldir. Í heimildum frá fornöld er að vísu stundum minnst á ættbálka eða þjóðir sem bera nöfn er svipar til nafns Kúrda en tengsl þeirra við Kúrda nútímans eru þó óviss og heldur hæpin.

Arabar ráðast til atlögu

Í byrjun 7. aldar eftir Krist var svæðið þar sem Kúrdar búa nú á mótum Austurrómverska ríkisins (Býsans) og Persaveldis. Þá komu Arabar sunnan af Arabíuskaga askvaðandi, felldu Persaveldi, tóku Mesópótamíu og skertu mjög hlut Býsansmanna. Arabarnir höfðu nýja trú í farteski sínu, íslam, og á endanum gerðust svo til allir hinir nýju þegnar þeirra múslimar. Í Mesópótamíu fóru menn aukinheldur að tala hina arabísku tungu innrásarmannanna og teljast síðan vera Arabar þar niðri á sléttunni, en í fjöllunum norður af héldu flestir áfram að tala ýmsar íranskar tungur, sem og í Persíu sjálfri eða Íran.

„Kúrdi var sem sagt lýsing á samfélagsgerð frekar en þjóðerni“

Tjaldbúar

Og næstu aldirnar fer loks að verða óhætt að tala um Kúrda sem slíka. Nafnið þýðir „hirðingi“ eða „tjaldbúi“ og var að líkindum upphaflega notað af Persum sem heiti á ýmsum þjóðflokkum uppi í fjöllunum sem flökkuðu flestir um með kindahjarðir sínar. „Kúrdi“ var sem sagt lýsing á samfélagsgerð frekar en þjóðerni. Raunar telja margir fræðimenn að sú þjóð sem við köllum nú Kúrda hafi eiginlega runnið saman úr nokkrum ættbálkum í fjalllendinu, frekar en að þeir eigi sér allir sameiginlegan uppruna. Hvað sem því líður er hægt að tala um Kúrda frá og með 9. öld en þá er vitað að þeir tóku þátt í uppreisn gegn hinum arabíska kalífa Abbasída-veldisins í Bagdad.

Kúrdíska er indó-evrópskt mál

Kúrdíska sem tungumál var þá orðin til en hún er af írönskum og þar með indó-evrópskum ættum og þótt málið hafi að sjálfsögðu orðið fyrir ýmsum áhrifum frá arabísku gegnum tíðina þá tala Kúrdar enn í dag eingöngu sitt eigið tungumál.

Þarna á 9. öldinni virðast Kúrdar hafa aðhyllst einhvers konar sambland af kristindómi, íslam og zóróaster-trú Persa, ekki ósvipað og Jasídar gera enn í dag. Fyrsti nafngreindi uppreisnarforingi Kúrda, Mir Jafar, er reyndar ýmist talinn hafa verið Jasídi eða Kúrdi. Hann hafði bækistöðvar í Mósúl og varð vel ágengt um tíma en að lokum sneri kalífinn Mutassim vörn í sókn, knésetti Kúrda árið 841 og drap fjölda þeirra en Mir Jafar svipti sig lífi með því að drekka eitur.

Þetta gerðist sem sé um svipað leyti og Ísland var að byggjast.

Ólíkir þættir í íslam

Eftir að þessi uppreisn Kúrda var kveðin niður gerðu kalífar Abbadísa átak í að útbreiða íslam meðal þeirra. Það tókst ágætlega en Kúrdar hafa þó gjarnan þótt nokkuð blendnir í sinni einu sönnu trú og ýmis afbrigði íslams eiga sér töluvert fylgi meðal Kúrda, auk sérstakra trúarbragða eins og Jasídisma og Jarsanisma. Síðari trúarbrögðin aðhyllast allt að 3 milljónir Kúrda, einkum í Íran, en þau eru runnin frá zóróaster-trúnni í bland við íslamska dulhyggju og ýmislegt annað. Þar má víst jafnvel finna þræði aftan úr hinni ævafornu míþra-trú.

Kúrdísk smáríki skjóta upp kolli

Á 10d. öld fór þróttur Abbasída-ríksins í Mesópótamíu mjög þverrandi. Ýmsu var um að kenna, ekki síst innbyrðis erjum fursta á hinum ólíku svæðum sem Abbasídar réðu og svo vaxandi ásókn Tyrkja úr Mið-Asíu. Þá fóru að skjóta upp kollinum í fjöllunum ýmis smáríki og furstadæmi sem kölluð eru kúrdísk. Sum þeirra, eins og ríki Hasanvahída og síðan Annazída, stóðu í áratugi í vesturhluta Írans. Hazaraspídar réðu suðvesturhluta Írans í 200 ár og kúrdískar furstaættir réðu líka lengi í bæði Armeníu og Aserbædsjan. Og þaðan var einmitt ættaður sá mesti foringi sem Kúrdar hafa enn eignast, An-Nasír Salah ad-Din Júsúf ibn Ajjúb, eða Saladín eins og hann er yfirleitt kallaður á Vesturlöndum.

Samtímamaður Þorláks helga

Saladín fæddist í Tíkrit í norðurhluta Íraks eða Mesópótamíu árið 1137. Hann var sem sé samtímamaður Þorláks biskups helga á ofanverðum dögum íslenska þjóðveldisins. Ajjúb-fólkið voru kúrdískir höfðingjar frá borginni Dvín á mótum Armeníu og Aserbædjan þar sem ættbálkur Ajjúbanna, Ravadídar, höfðu ráðið ríkjum frá því á miðri 10. öld. Ravadídarnir þóttu þá vera orðnir nokkuð arabískir í huga og máli en Saladín ólst þó upp við kúrdísku og mun hafa litið á sig sem Kúrda – þótt ekki sé víst að skipting í þjóðerni hafi þá skipt fólk í Mið-Austurlöndum jafn miklu máli og okkur Evrópumönnum er á seinni tímum tamt að trúa. Þótt ríki Abbasída væri orðið lítið annað en nafnið tómt og kalífinn frekar trúarleg silkihúfa en veraldlegur leiðtogi, þá töldu múslimar á svæðinu sig tilheyra einu íslömsku menningarsvæði þótt oft væri ákaft barist um áhrif, völd og landamæri einstakra ríkja og furstadæma.

Krossfarar ráðast til atlögu

Tæpri hálfri öld áður en Saladín fæddist höfðu gerst þau tíðindi að róstusamur söfnuður mætti til Mið-Austurlanda og vildi hrifsa til sín helga staði kristindóms í Palestínu. Þetta voru kristnir krossfarar frá Evrópu og þeir náðu Jerúsalem árið 1099 og stofnuðu svo nokkur svonefnd krossfararríki fyrir Miðjarðarhafsbotni. Vegna innbyrðis sundrungar múslima dróst mjög á langinn að hrinda krossförum burt en eftir að Saladín hafði komist til æðstu metorða sem vesír í Egiftalandi og síðan tekið þar öll völd 1171, þá hófst hann handa um hvorttveggja: Að ná aftur Jerúsalem og sameina sem mest af hinum forna veldi Abbasída undir sinni stjórn.

Hinn dáði Saladín

Saladín náði Jerúsalem 1187 og þótt Ríkarður Ljónshjarta Englandskóngur og fleiri stórfurstar úr Evrópu reyndu hvað þeir gátu til að ná borginni á ný, þá reyndist Kúrdinn þeim ofjarl. Þótt krossfarar biðu einlægt ósigur gegn Saladín fylltust þeir reyndar aðdáun á göfgi hans og riddaramennsku og varð þessi kúrdíski soldán – sem var tignarheiti hans – rómaður um öll Vesturlönd fyrir „örlæti sitt, guðhræðslu, víðsýni og umburðarlyndi, frjálslyndi og kurteisi“, eins og það var orðað á einum stað. Honum gekk líka bráðvel gegn múslimskum keppinautum sínum og þegar Saladín dó 1193 réði hann efri hluta Mesópótamíu, Sýrlandi, Palestínu, Egiftalandi, Líbýu, Arabíuströndum og Jemen.

Kúrdistan kemur til sögunnar

Ajjúba-veldið skrimti í nokkra áratugi eftir andlát Saladíns en hin kúrdísku tengsl voru brátt úr sögunni, enda réðu Tyrkir og fleiri þá mestöllum þeim svæðum norður af Mesópótamíu og í hinu núverandi Tyrklandi þar sem Kúrdar sjálfir bjuggu en persneskir furstar höfðu kveðið þá Kúrda í kútinn í Íran.

Vart er hægt að segja að ríki Saladíns hafi verið kúrdískt í raunverulegum skilningi þótt hann hafi sjálfur verið Kúrdi. Um það leyti sem ríki hans féll var hins vegar farið að nota heitið Kúrdistan um svæðið sem kúrdískir ættbálkar byggðu. Og Kúrdar urðu fljótlega annálaðir fyrir tvennt, dugmikla hermenn og litríkar sterkar konur. Þeir flökkuðu um fjöllin með hjarðir sínar af kindum og geitum, mynduðu yfirleitt ekki stór samfélög eða bæi en undu glaðir við sitt eins og þar stendur.

Sjálfstæðisþrá kviknar

Árið 1501 stofnaði Ísmaíl nokkur nýtt og öflugt ríki í Persíu sem kallast Safavída-veldið. Það varð bæði auðugt og blómlegt en átti við þá ógæfu að stríða að einmitt um sama leyti var Ottómana-veldi Tyrkja upp á sitt besta og áttu þessi stórveldi í stöðugum erjum og styrjöldum. Ekki síst var barist um Kúrdistan sem skipti margoft um eigendur. Ísmaíl var meðal annars af kúrdískum ættum en það kom ekki í veg fyrir að Kúrdar voru lítilsmetnir í ríki hans. Þeir gerðu þegar uppreisn í samvinnu við Jasída en hún var bæld niður.

Drekkt í blóði

Í byrjun 17. aldar gerðu Kúrdar svo aðra og mun umfangsmeiri uppreisn gegn Safavídum og ljóst er af kúrdískum heimildum að ástæða uppreisnarinnar var fyrst og fremst andstaða Kúrda gegn erlendum yfirráðum, bæði Persa og líka Tyrkja sem þeir börðust jafnframt gegn. Í Dimdim-kastala við Urmia-vatn í Íran, skammt frá hinum núverandi landamærum að bæði Tyrklandi og Írak, þar vörðust 10.000 kúrdískir stríðsmenn miklu fjölmennara og betur útbúnu liði Safavída-keisara í níu mánuði. Að lokum sáu Kúrdarnir sitt óvænna og 10.000 manna eftirlifandi varnarlið kastalans gafst upp fyrir herforingjum Abbas keisara.

Abbas skipaði svo fyrir að fangarnir skyldu allir drepnir. Sjálfstæðisbrölt Kúrda skyldi drekkt í blóði.

Eins og ætíð síðan.

frh.

Share to Facebook