Ég hef farið hörðum höndum
helming alls sem ég hef snert,
ljóð mín vafið böguböndum
brotið lög, mitt orðspor svert.
Hollráð vísra haft að spotti
hunsað sektir, gróða skert.
Þræla reynt með þöglu glotti
þrálátt marið hold mitt bert.

Lifa til að leika og herja
hart á verði laganna.
Taka hús
og timbur ferja
duga og vinna dagstund hverja.
Frelsið verja,
valdið berja,
dansa á ösku daganna.

Höndum mildum, hins þó vegar
hef ég leikið smærri menn.
Elskað stúlkur stórfenglegar
stundum fleiri en eina í senn.
Heimskum hlíft og hlúð að þjáðum,
hlýt ég lengi að verja enn
hörðum, mjúkum höndum báðum
heim þann sem ég fyrir brenn.

Lifa til að leika og herja
hart á verði laganna.
Hlaupa, klifra
kné sín merja,
gáma mat og moldina erja.
Frelsið verja,
valdið berja,
dansa á ösku daganna.

Haukur 2017

Ólafur Kr. Ólafsson tók myndina

Share to Facebook