Nú á laugardag, þann 6. mars, verða liðin 3 ár frá því að við fengum þær fréttir að Hauks Hilmarssonar væri saknað eftir loftárás Tyrkja á Afrín í Sýrlandi. Hann hafði farið til Sýrlands til þess að taka þátt í vopnaðri baráttu Kúrda gegn Íslamska ríkinu í Raqqa og farið þaðan til Afrín í von um að geta hjálpað Kúrdum að tefja árásir Tyrkja á meðan beðið væri eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins. Sú aðstoð kom aldrei.
Ég er ekki búin að lesa hryðjuverkaskýrslu Þjóðaröryggsráðs. Sá bara í Fréttablaðinu að Þjóðaröryggisráð hefur víst steingleymt fyrsta Íslendingnum í sögu lýðveldisins sem féll sem hermaður í stríðsátökum. Fólk hlýtur að fyllast sérstakri öryggiskennd við að sjá þetta æðruleysi.* En við sem þekktum Hauk gleymum aldrei 6. mars 2018. Við munum hversvegna hann dó og við munum líka hvernig hann lifði. Við munum eftir baráttu hans gegn stóriðju, þátttöku hans i hústökuhreyfingunni, stúdentahreyfingunni Öskru og heimssambandi verkafólks og kannski umfram allt samstöðu hans með flóttafólki.
(*Uppfært: Ráðuneytið hefur beðist afsökunar á því að hafa gleymt Hauki og ætlar að láta breyta skýrslunni)
Þann 6. mars 2019, réttu ári eftir að við fengum fréttirnar af falli Hauks, voru tveir af samherjum hans, No-Borders liðarnir Jórunn Edda og Ragnheiður Freyja, dregnar fyrir dóm, ákærðar fyrir að sýna flóttamanni samstöðu sína með því að standa upp í kyrrstæðri flugvél og tala máli hans. Mál Jórunnar og Heiðu minnir óneitanlega á flugvallarhlaup Hauks Hilmarssonar og Jasons Slade, sumarið 2008. Auk þess vekur málið að því leyti hugrenningartengsl við aktívisma Hauks að maðurinn sem þennan dag var sendur úr landi með valdi hafði flúið Boko Haram, glæpasamtök sem starfa undir merkjum sömu hugmyndafræði og Íslamska ríkið.
Fyrir tveimur árum hvatti ég þá sem vildu minnast Hauks þann 6. mars að gera það með því sýna Jórunni og Heiðu samstöðu með því að mæta í héraðsdóm. Nú, tveimur árum síðar er því miður ennþá ástæða til að minnast Hauks með því að styðja Jórunni og Heiðu. Landsréttur komst nefnilega að þeirri grátlegu niðurstöðu í nóvember síðastliðnum að samstaða með fórnarlömbum heimsvaldasinnaðra trúarnöttara, sem drepa og pynta allt sem fyrir þeim verður, sé einmitt glæpur. Auk þess sem þær fengu skilorðsbundinn fanelsisdóm sitja þær uppi með ríflega tveggja milljón króna málskostnað.
Hafin er söfnun sem ég vona að sem flestir taki þátt í (sjá tengil hér að ofan) Það er fullkomlega ömurlegt að samstaða með fórnarlömbum mannréttindabrota skuli vera afgreidd á sama hátt og ölvunarakstur eða þjófnaður. Fáir sýna samstöðu á þann hátt sem þessar konur hafa gert en við hin getum í það minnsta sýnt samstöðu með því að taka þátt í málskostnaði.
Hér er gamalt viðtal Harmageddin við Eze og Hauk sem skýrir þær aðstæður sem Jórunn og Heiða voru að bregðast við, þegar þær stóðu upp og báðu honum griða. Ég veit ekki hvar Eze Okafor er niðurkominn í dag en ef ég ætlaði að komast að því myndi ég ekki spyrja Þjóðaröryggisráð. Því fólki er hann áreiðanlega gleymdur.