Allt efni

Ávarp Steinunnar á Austurvelli 9. júní 2019

Haukur
þú sem ert okkur týndur.

Er rökrétt að tala um þig, hér á þessum stað, í þátíð við fólkið þitt á meðan þú ert enn svo ljóslifandi í hugum okkar? Neistandi, logandi, skarpur, glettinn, svartur.

Hvernig er hægt að lýsa þér og eiginleikum þínum án þess að það hljómi sem krýning á hetjukrúnunni sem þú forðaðist meira en brennheitan eldinn? En þig prýða svo margir eiginleikar hetjunnar … En þú lékst aldrei hetju – þú lékst á flautu – þú samdir ljóð – þú dansaðir – söngst – þú kuklaðir – lékst þér með vinum – og hlóst – hlóst svo mikið að valdinu, samfélaginu, andófinu, okkur, sjálfum þér – þú ert / varst / ert / varst svo djöfullega fyndin, með þér var alltaf gaman. Skarpskyggni fugl – vopnaði krabbi – eldtígur. Fram í fingurgóma sáttasemjari og friðarsinni – en ekki pasifisti:

Ég kasta ekki skít – ég kasta grjóti

Þú kveiktir marga elda í hugum annara með neistunum sem skutust af þér – þessi heimur heimsku og valdníðslu skyldi niðurbrenna. Og þú bjargaðir líka mannslífum, mörgum. En auðvitað talaðir þú aldrei um það þannig.

Fyrir löngu baðstu mig um að húðflúra hring utanum um hryggjarliðinn á þér þar sem háls mætir búki – þann hryggjalið sem skilur milli lífs og dauða sé hann brotinn. Ég las í það þannig að þú skildir hvað væri í húfi en að þú óttaðist ekki dauðann – og lífsorkan ólgaði undir skinninu. Þú sem mast frelsið svo mikils, anarkíið kaosið, ástina, vináttuna, sannleiksleitina.

Þegar ég gantaðist með að við yrðum gömul saman þá varðstu alvarlegur og sagðir: „ég verð ekki gamall, annaðhvort mun ég deyja á meðan ég sit af mér langan fangelsisdóm eða falla í bardaga.“ Ég óttaðist skyggni þessara orða því ég vissi að þér var alvara með því sem þú varst að gera. Hugsjónirnar í hjarta þínu voru þinn áttaviti og þeim fygldirðu, nú spyr ég mig: Gafstu þeim þig og allt sem þú elskaðir?

Haukur, við höfum leitað svo lengi að þér en finnum hvorki þig né nokkuð sem nærir vonina. Týndurtýndurtýndur og hugsanlega tröllum gefinn … Og eftir stöndum við lostin eldingu.

Það er hægt að deyja úr sorg. En ef maður lifir þunga eldingarinnar af verður maður aldrei samur eftir. Allt verður nötrandi og hrátt; blóðið í æðunum, loftið í lungunum, hatrið, reiðin, sorgin, gleðin, draumarnir og ástin.

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Do I?

3 ár ago

Þremur árum síðar

Í dag eru liðin 3 ár síðan ég varð að leggja bílnum mínum vegna þess…

3 ár ago

Dáinn, ekki grafinn, en gleymdur?

Nú á laugardag, þann 6. mars, verða liðin 3 ár frá því að við fengum…

3 ár ago

Balkan Bandið – janúar 2015

Haukur fór í tónlistarnám á fullorðinsaldri, lærði á þverflautu og spilaði með skólahljómsveit. Þetta myndband…

3 ár ago

Um Skugga ástarinnar

Einar Steinn Valgarðsson skrifar Dengbêjinn. Há, tregafull rödd. Hæg. Hljómþýð. Orð bindast orðum. Orðaflóð. Eða…

3 ár ago

Riff Raff

Haukur hefur líklega verið í 9. bekk þegar við horfðum á Rocky Horror Picture Show…

3 ár ago