Þann 8. október 2008, aðeins tveimur dögum eftir að Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland, efndi Bubbi Morthens til mótmæla- og samstöðutónleika á Austurvelli. Þetta voru fyrstu mótmælin sem haldin voru eftir hrun og kom þar ásamt Bubba fram hljómsveitin Buff og einhverjir fleiri.

Eitthvað fannst okkur nokkrum þessi umskipti Bubba helst til snögg og tækifærissinnuð — hann hafði jú selt sig með heilmiklum stæl á árunum fyrir hrun, en virtist nú fjúka stefnulaus sem laufblað í pólitískum vindum og veðurbreytingum — og mættum því á tónleikana með nokkur skilti sem við föndruðum og á voru skrifuð „torkennileg skilaboð,“ eins og sagði í umfjöllun Fréttablaðsins. Skiltin voru þrjú og á þeim stóð: „Antí-Bubb“ — „Buffumbubb“ — og „Þú áttir aldrei jeppann!“

Mörgum fannst þetta skrýtið — skilaboðin absúrd og óskiljanleg og þar að auki út í hött að við værum að amast í Bubba og ákalli hans um samstöðu — en okkur þótti þetta auðvitað stórkostlega fyndið, ekki síst viðbrögðin. Sævar Marinó Ciesielski heitinn var einnig á staðnum og var, ásamt okkur, öðrum gestum til töluverðra trafala — en sló svo eftirminnilega í gegn þegar hann steig óboðinn á svið undir lok dagskrárinnar og söng tregafullan blús án undirleiks.

Tvö skiltanna komust á síður blaðanna: annað í fangi Hauks birtist í Mogganum og hitt í Fréttablaðinu. Þriðja skiltið, sem okkur fannst að mig minnir einna skemmtilegast, átti svo að lokum stórkostlega endurkomu í heimildamynd Helga Felixsonar um hrunið, Guð blessi Ísland — en í henni er Evu meðal annarra fylgt eftir og Hauki bregður nokkrum sinnum fyrir. Skiltið birtist í senu þar sem Eva er að taka til í Nornabúðinni og undirbúa lokun hennar, um leið og hún segir frá áætlunum sínum um að flytja af landi brott.

Og þó fáir hafi eflaust veitt skiltinu athygli — hvað þá áttað sig á skilaboðunum! — var þarna ákveðnu markmiði náð: að koma heilagri þrenningu skilaboða okkar til Bubba og samfélagsins til skila.

Spurning hvort skiltin leynist nú einhverstaðar?

Share to Facebook