Jón Gnarr ritar ágæta hugleiðingu um anarkisma í Fréttablaðið þann 20. júní. Hann andmælir stjórnleysishugtakinu, bendir á nokkur tengsl milli lýðræðis og anarkisma auk þess að aftengja anarkisma og ofbeldi. Ég fagna því að anarkisminn fái jákvæða og gagnorða kynningu. Engu að síður er rétt að gera nokkrar athugasemdir.

Anarkismi er ekki krydd

Jón Gnarr heldur því fram að anarkismi sé „eitt af innihaldsefnunum í lýðræðinu‟ líkt og krydd í súpu. Að mínu viti er nær lagi að líkja honum við allt hráefnið og lýðræðinu við vatnið sem þynnir það út. Allt það besta í lýðræði eru útþynntar hugsjónir anarkismans. Þær hafa ávallt verið almenningi innblástur til baráttu og byltinga, svo lengi sem þær svara til óheflaðra og óheftra hvata hins frjálsa huga. Þær breytast hins vegar í kæfandi leiðinleg kúgunartæki þegar ríkisvaldið hefur klínt á þær sínum þversagnakenndu fyrirvörum.

Þetta eru hugsjónir sem frægustu stjórnarskrár heims stæra sig af: Frelsi einstaklingsins, jafnrétti, mannhelgi, skoðana- og trúfrelsi, ferðafrelsi og svo framvegis.

Í meðferð ríkisvalds, líka stjórnarskrárbundins þingræðis, afskræmast þau. Fólk hefur ferðafrelsi með fyrirvara um rétt ríkisins til að vísa því úr landi. Það hefur sjálfræði en verður að velja fulltrúa til að stjórna sér. Það er ekki anarkisminn heldur lýðræðisríkið sem er undirorpið gallaðri hugmyndafræði og innri mótsögnum.

Jón nefnir sjálfur eitt slíkt dæmi úr eigin stjórnmálahugsun; að yfirvöld eigi ekki að taka ábyrgð af einstaklingnum nema þegar þeir skjóta sér undan ábyrgð eða „í undantekningartilfellum‟. Undantekningarnar eru ekki tilgreindar. Svo virðist sem Jón viðurkenni hér þörfina á yfirvöldum og að þau hafi meðal annars það hlutverk að taka ábyrgð af einstaklingum, enda er ljóst að einhverjir munu alltaf reyna að koma sér undan ábyrgð.

Þetta gengur í berhögg við grunnstef anarkismans: að yfirvald sé ekki aðeins óþarft heldur hreinlega skaðlegt. Fyrirvari Jóns er hársbreidd frá því að réttlæta tilvist valdbeitingarstofnana og kallar á endurskoðun.

Samfélagsform?

Í niðurlagi greinarinnar bendir Jón á þversagnir sem hann var ofurseldur sem stjórnmálaleiðtogi. Hann tilgreinir hugmyndir taóismans og Tolstoys sem dæmi um þær „mjúku‟ stjórnunaraðferðir sem hann beitti í starfi sínu sem eitt viðkunnanlegasta yfirvald Íslandssögunnar. Þær bera óneitanlega keim af anarkískri hugsun en eiga það sameiginlegt með Jóni að forgangsraða friði og stöðugleika ofar algeru frelsi. Ég fíla Bókina um veginn, en það er til lítils að smyrja anarkistastimplinum á hugmyndir sem stíga skrefið ekki til fulls og andæfa yfirvaldi – öllu yfirvaldi, í eitt skipti fyrir öll.

Jón segir að anarkisminn sé ekki fullkomið samfélagsform. Þetta tek ég undir. Hann er hreint ekkert samfélagsform. Anarkísk hugsun er ekki háð breytni annarra. Tilgangur hennar er að ná stjórn á aðstæðum sínum og lifa lífinu á eigin forsendum. Yfirvald getur vel haft praktískt gildi í undantekningartilfellum, en tilvist þess stendur óhjákvæmilega í vegi anarkismans og þeim markmiðum sem anarkistar leitast við að ná.

Niðurstaða

Jón er frjálshuga (e. libertarian) lýðræðissinni, en ekki anarkisti. Sem slíkur er hann hluti af skástu mögulegu útgáfunni af stjórnlyndu samfélagi, en það stjórnarform er ekki anarkískt markmið. Ótti við aðstæður sem við látum ríkið venjulega leysa úr, hvort sem við gætum sjálf kljáðst við þær eða ekki, heftir framgang anarkismans. Að forðast þær heldur hugsjónum hans í klakaböndum ríkisfyrirkomulagsins.

Haukur Hilmarsson, Júní 2015:

Share to Facebook