Haukur var ekki neinn frístundahippi, hann lifði og dó sem aðgerðasinni, anarkisti og frelsisunnandi. Hann aðhylltist stjórnleysisstefnu í pólitík og í helgaði líf sitt pólitískum aðgerðum og aðstoð við þá sem minna mega sín. Hann hafði lítil álit á „sófaaktívisma“ og fannst falskur tónn í málflutningi þeirra sem krefjast umbóta en gera lítið annað sjálfir en að deila undirskrifalistum á samfélagsmiðlum. Frelsi var í huga Hauks meira en bara það að vera laus við afskipti ríkisvaldsins. Hann aðhylltist einnig frjálsar ástir, framúrstefnu í listum og umfram allt stjórnmálahugmyndir sem hafa frelsi, jafnrétti og þátttöku almennings að leiðarljósi.

Margt af því sem Haukur gerði í hversdagslífinu var í senn einhverskonar andóf gegn kapítalisma og viðleitni til frelsis og sjálfstæðis. Hann batt sig ekki í vinnu nema nokkra mánuði í senn; rétt nægilega lengi til þess að geta ferðast og komist af næstu 2-6 mánuði. Hann sótti mat og aðrar nauðsynjar í ruslagáma, bjó í yfirgefnum húsum sem hann, í félagi við vini sína gerði íveruhæf og lét það ekkert stoppa sig þótt hann kynni ekkert til verka. Hann gaf hvern þann hlut eða peninga sem hann gat komist af án og mætti fyrstur á staðinn þegar einhver þurfti aðstoð. Markmið hans var að vera eins frjáls og óháður öllu yfirvaldi og mögulegt væri. Hann leitaðist þannig við að lifa utan hagkerfisins að svo miklu leyti sem það er raunhæft. Í því skyni tók hann upp á ýmsu sem ekki er hægt að mæla með, t.d. gekk hann berfættur til að koma sér upp siggi á iljarnar og prófaði að sofa á götunni í Kaupmannahöfn þótt hann ætti þar samastað, bæði til þess að herða sig og til þess að fá betri innsýn í hugarheim heimilislausra. „Lesa sem mest, væla sem minnst“ var hans venjulega svar þegar hann var spurður hvað hann stefndi á að gera í framtíðinni. Og við það stóð hann.

Mynd: Geiri

Share to Facebook