Þú skalt velja (þing er haldið)
þau sem talast við
um regluverkið, ríkisvaldið,
réttlæti og frið.
Það góða fólk vill gera drög
að góðri stjórnarskrá
svo brjóta megi betri lög
og brjóta fleirum á.

Auðlindirnar almenningur
eignast skamma stund
sem skríða eins og skafrenningur
skjótt í heimanmund
til AGS sem dregur deyfða
drottna um haf og lönd
svo endi valdið endurdreifða
allt á sömu hönd.

Og verði bannsett biskupsfólið,
blásið af í haust,
hann ræna mun og reka í bólið
ríkið grímulaust.
Það bákn sem vísar börnum veginn
bönnum skirrist við
og rekur oní ræfilsgreyin
ríkiskrosslafið.

Hver á sér meðal þjóða þjóð
sem þannig skilur frið:
einskis vert er írakst blóð
og einskis sjálfræðið?
Samfélagsins sáttmálsörk
mun siða peninginn
og núa saman níð og spörk
í níumenninginn.

Mæra þingið máttarvöld
sem mest því allt er autt,
brotamálmur búsáhöld
og bálið löngu dautt.
Þó má ekkert þessu hamla
þörf er brýn að fá
valdinu að brjóta og bramla
betri stjórnarskrá.

Ólafur Kr. Ólafsson tók myndina

Share to Facebook