Að reka ræstingarkonur

Fyrir nokkrum vikum sagði Rekstrarfélag stjórnarráðins upp sautján ræstingakonum sem starfað hafa í Stjórnarráðinu. Rekstrarfélagið sér um ýmsan rekstur fyrir þau fimm ráðuneyti sem eiga aðild að því, en það eru fjármála-, mennta- og menningarmála-, innanríkis-, forsætis- og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Eftirtaldir starfsmenn viðkomandi ráðuneyta skipa stjórn Rekstrarfélagsins en það er þetta fólk sem tók ákvörðunina um að reka þessar konur:

Formaður: Sverrir Jónsson, fjármálaráðuneyti
Jens Pétur Hjaltested, mennta- og menningarmálaráðuneyti
Sigurborg Stefánsdóttir, innanríkisráðuneyti
Eydís Eyjólfsdóttir, forsætisráðuneyti
Stefán Guðmundsson, umhverfis- og auðlindaráðuneyti

 

Það eru tæpar tvær vikur síðan ég byrjaði að reyna að fá Sverri formann til að svara nokkrum spurningum um ástæður uppsagnarinnar. Hann svaraði fljótlega upphaflegum spurningum mínum, á þessa leið (eftir svolítinn formála um hagræðingarkröfur í fjárlögum á Rekstrarfélagið):

„Breyting á fyrirkomulagi ræstinga er liður í endurskoðun á rekstri félagsins sem miðar að því að gera hann hagkvæmari.

Breytingin nú felst fyrst og fremst í því að færa ræstinguna úr fyrirkomulagi sem kallast „flatarmæld ákvæðisvinna í eftirvinnu“ í dagræstingu. Að athuguðu máli er einnig sóknarfæri í því að bjóða verkefnið út og það því ákveðið. Það er og í takt við stefnu ríkisins sem gilt hefur um langt árabil, þ.e. að útvista rekstrarverkefnum. Stjórn félagsins hefur forðast að nefna tilteknar fjárhæðir á þessari stundu, enda á eftir að auglýsa útboðið.“

Í framhaldi af þessum svörum Sverris spurði ég hann eftirfarandi spurninga um það sem fram kom í þeim (fyrst koma hér tilvitnanir í svar hans, svo spurningar mínar):

„Að athuguðu máli er einnig sóknarfæri í því að bjóða verkefnið út og það því ákveðið.“

1. Hvers konar athugun var þar um að ræða?

„Það er og í takt við stefnu ríkisins sem gilt hefur um langt árabil, þ.e. að útvista rekstrarverkefnum.“

2. Af hverjum var þessi stefna mótuð og hvar er hægt að sjá gögn um það?

Einnig fór ég fram á við Sverri að fá afrit af fundargerðum og öðrum gögnum hjá stjórn Rekstrarfélagsins þar sem fjallað væri um þetta mál.

Nú skyldi maður ætla að það væri einfalt mál að svara þessum spurningum, úr því að vísað er í að málið hafi verið athugað, og í stefnu ríkisins sem höfð hafi verið að leiðarljósi. En ég fékk engin viðbrögð frá Sverri fyrr en fyrir fjórum dögum, eftir að ég hafði sagt honum að ég hygðist fjalla um málið opinberlega. Eftir fleiri pósta fram og tilbaka fékk ég loksins svar við ofangreindum spurningum, en ég hef enn ekki fengið fullnægjandi svör við augljósum framhaldsspurningum. Sverrir segist ætla að veita þau eftir helgi. Gangi það eftir mun ég væntanlega skrifa nýja grein, en mér finnst nú þegar full ástæða til að segja frá því sem ég hef fengið að vita. Hér er kjarninn í svari Sverris:

Varðandi stefnu í innkaupamálum vísa ég á heimasíðu ráðuneytisins.  Þar er m.a. að finna útvistunarstefnu, undir fyrirsögninni „Útgáfa“.

Varðandi athugunina og sóknarfærið, sem þú spyrð nánar út í, þá er átt við að með útboði skapast aukið svigrúm innan Rekstrarfélagsins til að sinna verkefnum þess m.v. óbreyttar fjárheimildir og mannskap.

Sverrir sendi mér líka fundargerðir um þessi mál. Bitastæðast þar var eftirfarandi, í fundargerð frá 9. apríl í ár:

4. Útboð ræstinga
GHK lagði fram skjal er innihélt lýsingu á viðskiptafæri útboðs á ræstingu. Fram kom að ávinningur væri metinn á 15-20 milljónir árlega og að það væri sennilega vanmat á ávinningnum. [útstrikaður texti] Rekstrarfélagið og ANR [Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið] munu fara í heimsókn til [útstrikaður texti] til að fá frekari upplýsingar. Samþykkt var að halda áfram gerð útboðslýsingar og stefnt skuli á útboð í haust.

Þegar ég bað um að fá skjalið sem GHK (Guðmundur H. Kjærnested, framkvæmdastjóri Rekstrarfélagsins) lagði fram á fundinum fékk ég fyrst óskýr svör, en að lokum skildist mér á Sverri að þar væri um að ræða sama einkafyrirtæki og meiningin væri að fara í heimsókn til, en nafn þess var strikað út eins og kemur fram hér að ofan. Ég spurði Sverri hvaða fyrirtæki þetta væri, en hann vildi ekki svara því. Ég spurði þá af hverju hann vildi það ekki og sagðist hann þá telja það sjálfsagða kurteisi við þriðja aðila (umrætt fyrirtæki) að upplýsa ekki um það nema hafa fyrst samband við það, en að það væri ekki lagaleg skylda að gera það. Þegar ég benti honum á að „kurteisi“ væri varla gild ástæða til að tefja afhendingu upplýsinga sem bæri að afhenda samkvæmt upplýsingalögum sagði hann að hann væri bara ekki viss um hvort mætti afhenda þessi gögn, en ætlaði að kanna það.

Mig grunar sterklega, miðað við hversu laumulega er rætt um þessi mál í fundargerðinni (hún er örstutt og lítið annað í henni en það sem ég birti hér að ofan) og hversu óljósar tölurnar um ætlaðan sparnað eru, að svona liggi í málunum: Ákvörðunin var tekin án þess að gerð hafi verið sannfærandi athugun sem leiddi í ljós að það yrði ódýrara að bjóða vinnuna út til einkafyrirtækja, þótt ekki sé tekið tillit til annars en rekstrarreiknings félagsins. Varðandi stefnu ríkisins í útvistunarmálum, sem ég tengdi á hér að ofan, stendur eftirfarandi í henni:

Útvistun er ætlað að auka skilvirkni í rekstri ríkisins með því að innleiða samkeppni við veitingu þjónustu. Með útvistun er þannig dregið úr kostnaði ríkisins við kaup og veitingu þjónustu.

Það er því alveg ljóst að til að útvista megi verkefnum þarf það að fela í sér sparnað fyrir ríkið. Þótt því sé haldið fram í þessari fundargerð að sparnaðurinn verði umtalsverður leiðir leynimakkið í kringum þetta til þess að eðlilegt er að hafa efasemdir um að hér sé allt sem sýnist. Vonandi fást skýr svör frá Sverri eftir helgi um fyrirtækið sem ekki má nefna, af hverju það var fengið til að gera kostnaðaráætlun og á hverju hugmyndin um 15-20 milljóna sparnað var byggð.

En burtséð frá því hvort þessir „útreikningar“ um sparnaðinn eru réttir er hitt ekki síður alvarlegt ef ekkert tillit er tekið til þeirra fjárhagslegu afleiðinga sem þetta er líklegt til að hafa fyrir hið opinbera, ef einhverjar þessara kvenna verða atvinnulausar í kjölfarið. Jón Daníelsson hefur skrifað ágæta úttekt á því og fleiri hliðum málsins og bent á ýmiss konar kostnað og tekjutap sem skiptir máli fyrir rekstrarreikning ríkisins sem og annarra opinberra aðila.

Það gerir þetta mál svo sérlega sláandi að hér á að reyna að spara svolitla peninga á rekstrarreikningi ríkisins, sem full ástæða er til að efast um að yrðu nema brot af því sem kosta mun að kaupa undir ráðherrana þá nýju bíla sem til stendur, en þeir munu kosta þrisvar til fimm sinnum það sem þokkalegir fólksbílar kosta. Af einhverjum ástæðum þurfti ekki að gera neina „athugun“ áður en farið var í þau bílakaup, og ríkið virðist ekki vera með neina „stefnu“ í því, aðra en að ráðherrarnir fái að velja sér bíla eins og börn í sælgætisverslun, sem óvart hafa farið með veski foreldranna með sér.

Miðað við tregðuna við að veita þær einföldu upplýsingar sem ég bað um, þá liggur beint við að spyrja þessarar spurningar, sem er því miður réttmæt í ljósi reynslunnar á Íslandi: Er kannski þegar búið að ákveða hvaða einkavinir valdsins fái að græða á vinnu þeirra sem ráðnir verða á endanum til að sjá um ræstingarnar í stjórnarráðinu?

Myndskreyting Katrín J. Óskarsdóttir

Einnig birt hér

Deildu færslunni