Þórey Vilhjálmsdóttir, sem enn er aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem enn er innanríkis-(en ekki dóms- og lögreglumála-, en samt hælisleitendamála)ráðherra, hefur stefnt tveim blaðamönnum DV fyrir meiðyrði. Ástæðan er að þeir héldu því fram að Þórey væri „starfsmaður B“, sem nefndur var í dómi héraðsdóms í lekamálinu. Örfáum klukkutímum eftir að þetta ranghermi birtist í DV var það leiðrétt, og beðist afsökunar, og blaðamennirnir sendu þar að auki strax fréttatilkynningu til fjölmiðla til að tryggja að ranghermið fengi ekki meiri útbreiðslu.

Blaðamennirnir, Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson, höfðu sem sagt skrifað frétt þar sem haldið var fram að „starfsmaður B“ væri Þórey, en leiðréttu það strax þegar þeir komust að því að þar var átt við hinn aðstoðarmanninn, Gísla Frey Valdórsson, sem nú sætir ákæru í lekamálinu.

Þórey hugsaði sig vel og lengi um, eins og kemur fram í yfirlýsingu frá henni um stefnuna. Niðurstaða þessarar vönduðu ígrundunar hennar var að eðlilegt sé að ummælin skammlífu verði dæmd „dauð og ómerk“ og að blaðamennirnir greiði henni þrjár milljónir króna vegna þess miska sem þetta nokkurra klukkustunda ranghermi hefði valdið henni.

Þetta er þó ekki nóg, finnst Þóreyju. Hún komst að þeirri niðurstöðu, þegar hún hafði hugsað málið vandlega, að eðlilegt væri að blaðamennirnir sætu í fangelsi í eitt ár vegna þessa.

Nú vill svo til að í sjálfri stefnunni, sem birt hefur verið opinberlega, eru rangfærslur um það sem blaðamennirnir skrifuðu um þetta mál. Í stefnunni stendur meðal annars:

„Sú umfjöllun náði svo hámarki með þeim ummælum sem krafist er ómerkingar á þar sem beinlínis er fullyrt að stefnandi hafi lekið minnisblaðinu án þess að þær staðhæfingar eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum.“

Eins og sjá má af upphafi stefnunnar, þar sem þau ummæli eru talin upp sem krafist er ómerkingar á, er hvergi „fullyrt að stefnandi hafi lekið minnisblaðinu“. Einnig segir í yfirlýsingu Þóreyjar:

„Ýjað var að því í nokkra mánuði að ég hafi lekið trúnaðargögnum þar til að blaðamennirnir bitu höfuðið af skömminni með því að birta umræddar ásakanir sem sannaðar staðhæfingar í blaðinu þann 20. júní sl.“

Þetta er líka rangt; því er hvergi haldið fram í blaðinu að um sé að ræða sannaðar staðhæfingar þess efnis að Þórey hafi lekið skjalinu.

Þórey ber sem sagt rangar sakir á blaðamenn í stefnunni, sakir sem vega að starfsheiðri þeirra, og þær ásakanir hefur hún enn ekki dregið tilbaka, mörgum dögum eftir að þær birtust. Þeir Jón Bjarki og Jóhann Páll munu þó ekki ætla að stefna Þóreyju fyrir meiðyrði, né heldur krefjast þess að hún dúsi í svartholinu í heilt ár.

Þórey hefur reyndar oftar en einu sinni sagt ósatt um lekamálið, þótt ástæðulaust sé að telja það allt upp einu sinni enn. Þess má hins vegar geta að þegar ég spurði hana, í tölvupósti, hvort hún hefði haft lekaskjalið eða eitthvert svipað skjal undir höndum svaraði hún, þann 7. janúar í ár, að hún hefði ekki haft það. Miðað við það sem kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. apríl er hins vegar ljóst að hún hafði fengið skjalið í tölvupósti þann 19. nóvember. Hér eru spurningarnar sem ég spurði Þóreyju:

Hér að neðan er texti minnisblaðs sem virðist vera það sama og fjallað var um í fréttum Fréttablaðsins/Vísis og Morgunblaðsins fyrir nokkrum vikum. Að gefnu tilefni spyr ég þig eftirfarandi spurninga:

1. Hefur þú haft þetta minnisblað, eða minnisblað með svipuðum texta, undir höndum?

2. Hefur þú afhent aðilum utan ráðuneytisins þetta minnisblað eða minnisblað með svipuðum texta um mál Tony Omos?

Og svar hennar:

Nei ég hef ekki haft þetta minnisblað og því augljóslega ekki sent það heldur.

Þórey Vilhjálmsdóttir vill að blaðamenn sem leiðréttu ranghermi um hana fáum klukkustundum eftir að það birtist verði dæmdir til að greiða henni nokkrar milljónir, og látnir sitja í fangelsi í ár. Sjálf segir hún hins vegar ósatt um blaðamennina á opinberum vettvangi, og í starfi sínu sem háttsettur starfsmaður ráðuneytis.

einar

Recent Posts

Veiran leggst á fréttafólk á furðulegan hátt

Veira gengur nú ljósum logum um heimsbyggðina og veldur ýmiss konar usla og hörmungum. Hún…

55 ár ago

Kóvitar, sérfræðingar og óvitar

Það er best að taka fyrst fram eftirfarandi: Ég hef enga sérfræðiþekkingu á faraldursfræði, veirufræði…

55 ár ago

Um breytingar á nálgunarbannslögunum – og skilvirka leið til að tryggja frið

Opið bréf til þingmanna Sæl, þið sem flytjið tillögu um breytingar á nálgunarbannslögunum (meira…)

55 ár ago

Eru Píratar kerfisflokkur?

Borgarfulltrúi Sósíalistflokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, lýsti því yfir í gær að hún hygðist ekki taka…

55 ár ago

Of margar konur í borgarstjórn?

Í borgarstjórnarkosningunum um helgina náðu fimmtán konur og átta karlar kjöri. Konurnar eru því 65%…

55 ár ago

Hvaða þingmaður fær þrjá nýja bíla?

Sá þingmaður sem mest fékk greitt fyrir aksturskostnað í fyrra fékk 4.621.144 krónur, fyrir að…

55 ár ago