Sláandi tölur um Háskóla Íslands

Ég hef fjallað í nokkrum pistlum um íslenska háskólakerfið, þar sem er víða pottur brotinn. Síðasti pistillinn er hér, en fleiri hér og hér. Ég hef fyrst og fremst fjallað um Háskóla Íslands, af því að hann er um 75% háskólakerfisins að umfangi, og 90% af ríkisháskólakerfinu. Margt af því sem ég hef gagnrýnt á einnig við um Háskólann í Reykjavík (sem er með um 15% háskólanema landsins), svo sem glæsilega orðuð stefna sem er í raun lygi miðað við gerðirnar, og allt of litlar kröfur til akademískra starfsmanna í sumum deildum. En, af því að meðferð rannsóknafjár í HR er með öðrum hætti en í ríkisháskólunum hef ég haldið HR utan við þessa umfjöllun enn sem komið er, hvað sem síðar verður.

Kjarni vandans í HÍ (og öðrum ríkisháskólum, sem ég ætla ekki að nefna sérstaklega) er að gríðarlega stór hluti þess fjár sem eyrnamerkt er rannsóknum fer í laun til akademískra starfsmanna sem annað hvort hafa aldrei stundað neitt sem hægt er að kalla rannsóknir, eða þá að rannsóknirnar eru svo lélegar að ekki er reynt að birta þær þar sem slíkar rannsóknir eiga heima, á ritrýndum alþjóðavettvangi. Þessi misnotkun á fé er þó afar ólík eftir fræðasviðum HÍ. Á öllum sviðum skólans (og í öllum litlu háskólunum) má finna fólk sem er greinilega virkt á fræðasviði sínu, og sumt stendur jafnvel framarlega í því alþjóðasamfélagi sem vísindastarf er. Á öllum sviðum er líka til fólk sem aldrei hefði átt að fá fastráðningu í akademískar stöður, hvað þá prófessorsstöður, af því að það hefur aldrei lagt neitt af mörkum í rannsóknum. Að þessu sögðu er hins vegar athyglisvert að skoða þær tölur sem HÍ birtir á netinu.

Hí skiptist í fimm fræðasvið, Félagsvísindi, Heilbrigðisvísindi, Hugvísindi, Menntavísindi og Verkfræði- og Náttúruvísindi. Hér má sjá fjölda fastráðinna akademískra starfsmanna (lektora, dósenta og prófessora, sem allir fá helming launa sinna greiddan fyrir rannsóknir) árið 2012, og hér er heildarfjöldi birtinga starfsmanna hvers sviðs sama ár í svokölluðum ISI-tímaritum, en það eru tímarit sem finna má í einum víðtækasta alþjóðlega gagnagrunninum yfir greinar birtar í ritrýndum fræðiritum. Ég hef áður fjallað ítarlega um það af hverju birtingar fræðigreina á íslensku eru nánast aldrei framlag til viðkomandi fræðasviðs (því nánast öll fræðasvið eru alþjóðleg í eðli sínu og fræðafólki ber að birta niðurstöður sínar þeim sem starfa á sviðinu).

Hér er tafla með þessum upplýsingum, ásamt meðalfjölda birtra greina á hvern starfsmann:

[tafla head=“1″]
Svið | Starfsmenn | Greinar | Meðaltal
Verkfræði- og Náttúruvísindi | 109 | 345 | 3.17
Heilbrigðisvísindi | 187 | 330 | 1.76
Félagsvísindi | 116 | 33 | 0.28
Hugvísindi | 105 | 19 | 0.18
Menntavísindi | 127 | 18 | 0.14
[/tafla]

Hér eru þessar upplýsingar á myndrænu formi.

Ef meta á gæði einstakra akademískra starfsmanna er alls ekki nóg að skoða fjölda birtinga, þótt engar birtingar á löngum tíma (eins og er algengt t.d. á Menntavísindasviði) bendi auðvitað til þess að viðkomandi sé ekki virkur í fræðastarfi. Það er líka ljóst að birtingatíðni er mjög misjöfn eftir sviðum, og jafnvel innan sviða og einstakra greina. Það er hins vegar líka ljóst að birtingatíðni í sæmilegum erlendum háskólum í félags- og menntavísindum er ekki margfalt minni en í náttúru- og heilbrigðisvísindum, þótt einhverju muni. Það er t.d. alveg ljóst að birtingatíðni á alþjóðavettvangi í menntavísindum er miklu meiri en einn tuttugasti af því sem gerist í náttúrurvísindum, en þannig er staðan við HÍ. Og alþjóðleg birtingatíðni í félagsvísindum er miklu meiri en einn tíundi af tíðninni í náttúruvísindum.

Ef ætti að gera svona úttekt nákvæma, svo hún segði hvert frávikið í birtingatíðni við HÍ er frá alþjóðlegu meðaltali á hverju sviði, í þeim skólum sem HÍ vill bera sig saman við, þá þyrfti að taka tillit til ýmissa þátta sem ekki verður gert hér. Það er líka mikilvægt að átta sig á að birtingatíðni segir ekki mikið um gæði einstakra starfsmanna (því magn er alls ekki sama og gæði). En það er hins vegar ljóst að þegar um heilan háskóla er að ræða, með yfir hundrað starfsmenn á hverju sviði, þá segir samanburður á birtingartíðni sína sögu.

Það dylst engum sem skoðar þessar tölur að afrakstur þess fræðastarfs sem fram fer á Félagsvísindasviði, Menntavísindasviði og Hugvísindasviði HÍ er fáránlega litill, í ljósi þess að allir akademískir starfsmenn hafa haft 40% af launum sínum fyrir að stunda rannsóknir, og yfirlýst markmið skólans er að komast í hóp bestu háskóla í heimi.

Það er annars vegar sóun að borga fjölda akademískra starfsmanna laun fyrir vinnu sem þeir ráða ekki við, og hins vegar að nota ekki það fé sem skólinn hefur til rannsókna til að byggja upp rannsóknir á þeim sviðum þar sem það er hægt.

Ein lausn á þessum vanda væri að endurskipuleggja háskólakerfið frá grunni (eins og fyrri menntamálaráðherra talaði um að gera þyrfti, en heyktist á). Brýnast er að veita rannsóknafé til þeirra sem geta notað það í góðar rannsóknir. Hitt er líka mikilvægt að á þeim sviðum þar sem litlar eða engar rannsóknir fara fram séu akademískir starfsmenn einfaldlega ráðnir til að kenna í fullu starfi, og látnir njóta verðleika sinna í því starfi, í stað þess að leggja á þá mælikvarða vísindastarfs sem þeir sinna ekki. Í þessari álitsgerð eru tillögur um uppskiptingu háskólakerfisins í kennslu- og rannsóknaskóla.  Hvort einhver menntamálaráðherra í fyrirsjáanlegri framtíð verður nógu kjarkaður til að reyna að láta endurskipuleggja háskólakerfið, og hvort slík tilraun kæmist í gegnum allar nauðsynlegar valdaklíkur til að hljóta samþykki þingsins, er hins vegar hæpið.  Svo mikið er víst að núverandi forysta HÍ mun ekki beita sér fyrir teljandi úrbótum …

einar

Recent Posts

Veiran leggst á fréttafólk á furðulegan hátt

Veira gengur nú ljósum logum um heimsbyggðina og veldur ýmiss konar usla og hörmungum. Hún…

55 ár ago

Kóvitar, sérfræðingar og óvitar

Það er best að taka fyrst fram eftirfarandi: Ég hef enga sérfræðiþekkingu á faraldursfræði, veirufræði…

55 ár ago

Um breytingar á nálgunarbannslögunum – og skilvirka leið til að tryggja frið

Opið bréf til þingmanna Sæl, þið sem flytjið tillögu um breytingar á nálgunarbannslögunum (meira…)

55 ár ago

Eru Píratar kerfisflokkur?

Borgarfulltrúi Sósíalistflokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, lýsti því yfir í gær að hún hygðist ekki taka…

55 ár ago

Of margar konur í borgarstjórn?

Í borgarstjórnarkosningunum um helgina náðu fimmtán konur og átta karlar kjöri. Konurnar eru því 65%…

55 ár ago

Hvaða þingmaður fær þrjá nýja bíla?

Sá þingmaður sem mest fékk greitt fyrir aksturskostnað í fyrra fékk 4.621.144 krónur, fyrir að…

55 ár ago