Landsvirkjun er fyrirtæki sem byggir og rekur virkjanir, og á að vinna í þágu almannahagsmuna.
Samkvæmt þessari frétt kom það núverandi forstjóra Landsvirkjunar á óvart að „margir virkjunarkostir hafi hafnað á verndarlista“ í nýlegri rammaáætlun. Fyrr í sumar lét sami forstjóri gera skýrslu um þau gríðarlegu auðæfi sem Landsvirkjun gæti fært þjóðinni ef hún fengi bara að virkja nógu mikið. Meðal skýrsluhöfunda voru hátt settir menn úr greiningardeild Kaupþings sáluga sem látlaust spáðu áframhaldandi gulli og grænum skógum alveg þangað til spilaborgirnar hrundu yfir þá.
Þótt núverandi forstjóri Landsvirkjunar hafi hingað til virst auðmýkri en fyrirrennari hans er ljóst að forysta fyrirtækisins er í bullandi pólítískum áróðri. Það er ef til vill óhjákvæmilegt, og kannski ekkert óeðlilegt, að forstjóri stórfyrirtækis vilji að veltan og gróðinn séu sem mest. Vandamálið er að hér takast á afar ólíkir hagsmunir, þ.e.a.s. virkjanagróði annars vegar og náttúruvernd hins vegar (auk alls konar annarra vandræða, eins og t.d. ruðningsáhrifanna vegna byggingar Kárahnúkavirkjunar).
Af því að hlutverk Landsvirkjunar er að byggja og reka virkjanir, en ekki að vernda náttúruauðæfi, er óumflýjanlegt að áróður fyrirtækisins sé einhliða. Þar er hins vegar augljóslega um að ræða hagsmunaárekstra sem ófært er að búa við. Landsvirkjun ætti eingöngu að fást við byggingu og rekstur virkjana sem ákvarðanir hafa verið teknar um af aðilum sem bera ábyrgð á þeim ákvörðunum, sem Landsvirkjun gerir ekki.
Af því að það er vonlítið að kenna gömlum hundi að sitja er líklega nauðsynlegt að leggja Landsvirkjun niður í núverandi mynd. Hana ætti svo að endurreisa með það hlutverk eitt að byggja og reka virkjanir, en leggja blátt bann við að hún noti fé skattgreiðenda til að standa í blygðunarlausum pólitískum áróðri fyrir meiri virkjunum, þvert á öll náttúruverndarsjónarmið.