Þann 26. júní skrifaði ég bloggfærslu um kostun hagsmunaaðila á akademískum stöðum við háskóla, og um þjónkun háskóla við hagsmunaaðila. Þar nefndi ég stöðu Helga Áss Grétarssonar við Lagastofnun Háskóla Íslands, sem kostuð er af LÍÚ. Við Helgi höfum síðan rætt þessi mál og niðurstaðan varð sú að ég birti hér athugasemdir hans við pistil minn. Þær koma hér að neðan. Í athugasemd hér á eftir (í athugasemdakerfinu) geri ég svo grein fyrir afstöðu minni til málsins.
—————————————————————————————————-
Sérfræðingur svarar fyrir sig
(Eftir Helga Áss Grétarsson)
Bakgrunnurinn
Fyrir fimm árum hóf ég, Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur, störf hjá Lagastofnun Háskóla Íslands sem sérfræðingur á sviði auðlindaréttar með áherslu á að rannsaka fiskveiðistjórnkerfi. Staðan sem ég gegni hefur verið fjármögnuð á grundvelli tveggja samstarfssamninga Lagastofnunar við Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), dags. 6. apríl 2006 og 4. maí 2009 en nánari upplýsingar um þessa samninga má finna á heimasíðu Háskóla Íslands, sjá t.d. hér.
Háskóli Íslands hefur gert við mig tvo þriggja ára ráðningarsamninga. Ég er því starfsmaður háskólans, ekki LÍÚ. Yfirboðarar mínir eru innan háskólans. Hafi menn athugasemdir við framgöngu mína í starfi geta þeir beint þeim til yfirboðara minna innan háskólans eða til mín persónulega.
Á starfsferli mínum sem sérfræðingur hef ég m.a. ritað tvær ritrýndar fræðibækur um stjórn fiskveiða á Íslandi og þrjár ritrýndar fræðigreinar um efnið. Fyrir utan fræðiskrif hef ég einnig birt umtalsvert efni um stjórn fiskveiða sem ætlað er almenningi, sbr. ritaskrá mín sem er aðgengileg á heimasíðu háskólans.
Hafi menn áhuga á að efna til fræðilegra rökræðna við mig um stjórn fiskveiða eru öll gögn til reiðu, m.a. skrif mín um efnið og ummæli á opinberum vettvangi. Ef ástæða er til að gagnrýna rannsóknir mínar á efnislegum og málefnalegum forsendum væri æskilegt og jafnvel brýnt að fá slíka gagnrýni fram.
Tilefnið
Hinn 26. júní 2011 birti Einar Steingrímsson, stærðfræðingur, bloggfærslu á Eyjan.is og var upphaf hennar svohljóðandi:
„Þjónkun háskóla við valda– og hagsmunaaðila
Í nýlegri frétt á RÚV er sagt frá athugasemdum Ólínu Þorvarðardóttur við kostun á stöðum starfsmanna háskóla, en hún nefndi sérstaklega stöðu Helga Áss Grétarssonar við Lagastofnun HÍ, sem kostuð er af LÍÚ. Hér verður ekki rakið það sem Helgi hefur látið frá sér fara um þessi mál í fjölmiðlum, en augljóst er að ýmsar staðhæfingar hans um þau eru ekki byggðar á óyggjandi niðurstöðum úr rannsóknum.
Í umræddri frétt er vitnað í forseta Félagsvísindasviðs HÍ, Ólaf Þ. Harðarson, en hann “segir skólann huga vel að þessum málum, mestu máli skipti að fyrirkomulagið sé gagnsætt.” Það þætti þó varla nóg í háskólum sem annt er um orðstír sinn sem sjálfstæðra rannsóknastofnana.
Það ætti t.d. að vera augljóst að framganga Helga Áss, sem LÍÚ greiðir fyrir, hlýtur að skerða traustið á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann.“
Athugasemdirnar
Í hinum tilvitnaða texta tel ég ástæðu til að andmæli sérstaklega ummælunum „augljóst er að ýmsar staðhæfingar hans um þau eru ekki byggðar á óyggjandi niðurstöðum úr rannsóknum“ og „[það] ætti t.d. að vera augljóst að framganga Helga Áss, sem LÍÚ greiðir fyrir, hlýtur að skerða traustið á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann“.
Aðfinnslur mínar styðjast m.a. við eftirfarandi:
Það er mín skoðun að Einar Steingrímsson hafi margt til málanna að leggja um starf háskóla og rannsóknir á háskólastigi. Full ástæða er til að efna til almennra umræðna um hvernig haga eigi þessum málum á Íslandi til lengri tíma litið.
Að mínu mati er það grundvallaratriði að starfsmenn háskóla eiga að njóta fyllsta akademíska frelsis til að tjá sig hvort sem að staða þeirra sé ríkisrekin eða kostuð í samstarfi háskóla og einkaaðila. Einnig skiptir mestu máli við framkvæmd rannsókna að niðurstöður þeirra samrýmist fræðilegum og siðfræðilegum kröfum.
Reykjavík, 12. ágúst 2011,
Helgi Áss Grétarsson
Veira gengur nú ljósum logum um heimsbyggðina og veldur ýmiss konar usla og hörmungum. Hún…
Það er best að taka fyrst fram eftirfarandi: Ég hef enga sérfræðiþekkingu á faraldursfræði, veirufræði…
Opið bréf til þingmanna Sæl, þið sem flytjið tillögu um breytingar á nálgunarbannslögunum (meira…)
Borgarfulltrúi Sósíalistflokksins, Sanna Magdalena Mörtudóttir, lýsti því yfir í gær að hún hygðist ekki taka…
Í borgarstjórnarkosningunum um helgina náðu fimmtán konur og átta karlar kjöri. Konurnar eru því 65%…
Sá þingmaður sem mest fékk greitt fyrir aksturskostnað í fyrra fékk 4.621.144 krónur, fyrir að…